Það verður aldrei of oft sagt: snjóflóð eru lífshættuleg. Til þess að drepast ekki í snjóflóði er best að lenda aldrei í slíku. Það er nauðsynlegt að halda til fjalla að vetri með snjóflóðaýli, leitarstöng og skóflu en hafa þarf í huga að þessir hlutir koma ekki í veg fyrir að fólk lendi í flóði. Námskeið, æfingar, lestur veðurspár og flóðaspár – fólk sem hefur farið í gegnum þetta allt deyr líka í snjóflóðum. En með þessu má auka líkurnar á að lenda ekki í flóði og auka líkurnar á að maður komi að gagni við að hjálpa fólki sem lent hefur í flóði.

Lendi fólk í flóði eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga. Sundtök hjálpa við að maður grafist ekki of djúpt og þeim mun stærra sem rúmmál manns er þeim mun ofar endar maður í flóðinu. Þess vegna eru snjóflóðabakpokar mjög mikilvæg viðbót til að auka lífslíkur þeirra sem lenda í snjóflóðum. Skíðamaðurinn opnar þá sérstakan vasa sem geymir handfang og hefur hann opinn meðan ferðast er um fjöllin. Ef flóð fer af stað á meðan farið er yfir brekku er kippt í handfangið og það blæs upp belg ofan á bakpokanum sem verður til þess að skíðamaðurinn grefst ekki jafn djúpt og ella. Rannsóknir benda til þess að helmingur þeirra sem annars myndu deyja, lifa af snjóflóð vegna slíks bakpoka. Það hljóma eins og góðar líkur. En samt ekki nægilega góðar til að koma í staðinn fyrir námskeið um rétta hegðun í fjalllendi. Því það eru eftir sem áður helmingslíkur á dauðsfalli.

Leiðarval, réttur lestur aðstæðna, mat á snjóalögum, veður, hiti, vindátt, snjókoma allt þetta hefur áhrif á lífslíkur og hið sama má segja um snjóflóðabakpokana.