Sumir virðast aldrei verða veikir á meðan aðrir grípa allar umgangspestir. Einhverjir kjósa að leita á náðir lyfja, aðrir kjósa náttúrulegri leiðir til lækninga. Þessi uppskrift er fyrir þá.

Um er að ræða svokallaðan Gulldrykk sem inniheldur meðal annars ferska túrmerik- og engiferrót. Sannkallað töfraseyði sem dregið getur úr þyngslum yfir öndunarfærum ásamt því að bægja burt vægu kvefi og hósta. Ef erfitt reynist að finna ferska túmerikrót er vel hægt að nota malað túmerik í staðinn.

Gulldrykkur

Uppskrift

5 cm fersk túrmerikrót – afhýdd
5 cm fersk engiferrót – afhýdd
½ sítróna
2 matskeiðar eplaedik
Sódavatn
Hnífsoddur Cayenne-pipar
2 matskeiðar hunang ( má sleppa)

Aðferð 1

Ef notast er við matvinnsluvél, töfrasprota eða grænmetiskvörn skal setja byrja á því að saxa engifer- og túrmerikrótina smátt og bæta í vélina ásamt 2 matskeiðum af ferskum sítrónusafa, 1/2 dl af vatni, hnífsodd Cayenne-pipar og 2 msk. hunangi (má sleppa). Blandið saman þar til rótin er orðin að drykkjarhæfu mauki. Sigtið og hellið í glas. Bætið svo við eplaediki og sódavatni og ahrærið allt vel saman.

Aðferð 2

Ef notast er við safavél eða blandara setjið þið engifer, túrmerik, Cayenne-pipar og 1/2 sítrónu (með berkinum) í vélina. Ef sítrónan fer í blandara skal afhýða hana áður. Hellið blöndu í gegnum sigti, hellið í glas og hrærið eplaediki og sódavatni saman við. Bætið að lokum hunangi í blönduna (má sleppa). Hrærið allt vel saman.