Það var fagurt föruneyti þriggja systra, Arndís, Katrín og Stefanía, sem gerðu sér lítið fyrir og toppuðu Mont Blanc í byrjun sumars á síðasta ári. Mont Blanc er 4.807 m. hátt sem gerir það að einu hæsta fjalli Alpanna og því allra hæsta í Evrópu, vestur af rússnesku Kákasusfjöllunum. Systurnar voru þó ekki einar á ferðinni heldur í fylgd föður síns, Einars Kristjáns Stefánssonar, alvönum útivistar- og björgunarmanni.

Fann fjöllin kalla

Hugmyndina að því að fara á Mont Blanc átti Stefanía, miðjusystirin. „Það var einhvern tímann milli 2015 og 2016 sem ég fékk allt í einu einhverja þrá að fara þangað. Ég veit ekkert hvaðan þessi þrá kom en ég var alveg viss um það að mig langaði að fara.“ Systurnar hafa ekki langt að sækja ævintýraþrána en Einar, faðir þeirra, var einn af fyrstu Íslendingunum til að klífa Everest. Það var því ekki við öðru að búast en að hann tæki vel í hugmynd Stefaníu, dóttur sinnar. Að koma vilja í verk er þó vinna og stór ferð sem þessi krefst alltaf einhvers undirbúnings. Eruð þið vanar að ganga á fjöll? „Já, það mætti segja það. Foreldrar okkar eru miklar fjallageitur og hafa alltaf verið dugleg að taka okkur með í allskonar göngur og ferðalög.“ Æfðuð þið ykkur sérstaklega fyrir Mont Blanc? „Já, við fórum í nokkrar æfingaferðir hérna á Íslandi, m.a. á Heklu, Botnsúlur og Hvannadalshnjúk. Svo fórum við líka á Sólheimajökul þar sem við æfðum okkur að ganga á broddum og að hnýta hnúta. Þegar við lentum úti á Ítalíu keyrðum við beint upp í Alpana og fórum í tvær aðlögunarferðir. Önnur þeirra var á fjallið Tresenta (3600 m) og hin á Gran Paradiso (4050 m).“

„Var léttara en við héldum“

Systurnar fara jákvæðum orðum um Mont Blanc ævintýrið og segja það góðum undirbúning að þakka hversu vel ferðin gekk. „Þetta var léttara en við héldum. Pabbi var búinn að búa okkur undir það að þetta yrði erfitt og að við þyrftum að æfa okkur mikið- sem við gerðum.“ Hvað borðuðuð þið í ferðinni? „Við getum allavega sagt að við borðuðum rosalega mikið af Snickers! Við gistum í skálum og fengum þar morgunmat og kvöldmat, aðallega súpur, brauð og kjúkling. Yfir daginn vorum við með okkar eigið nesti sem samanstóð af súkkulaði, hnetum, Gatorade og samlokum sem við fengum í skálunum.“ Hvað var skemmtilegasti hluti ferðarinnar? „Ferðin var í heild sinni mjög skemmtileg. Við vorum mjög heppin með veðrið og svo vorum við líka með skemmtilegum og hvetjandi ferðafélögum, þeim Kristjáni Maack og kærustu hans, Steinunni Sigvaldadóttur. Þau fóru með okkur alla leið upp á topp meðan restin af ferðafélögum okkar biðu niðri. Svo var útsýnið á toppnum alveg ótrúlega fallegt.“ Voru mamma og pabbi ekki stolt af ykkur þegar þið náðuð að klára gönguna? „Jú og þá aðallega pabbi. Fjallamennska hefur verið hans líf og yndi svo honum fannst rosa gaman að fá að upplifa þetta með okkur. Mamma var líka mjög stolt af okkur. Hún hafði náð á toppinn með pabba fyrir nokkrum árum og sá því ekki ástæðu til að fara aftur. Í staðinn beið hún eftir okkur niðri og fór svo með kláf upp í fjall, á móti Mont Blanc, þar sem hún fylgdist með okkur gegnum kíki og sá okkur koma labbandi upp á topp.“

Stutt á milli gleði og sorgar

„Þegar við komum niður af fjallinu tók restin af frábæru ferðafélögum okkar fagnandi á móti okkur, með kampavín í glösum og dýrindis máltíð sem þeir höfðu eldað.“ Gleðin breyttist þó fljótt í sorg þegar systurnar fengu erfiðar fréttir að heiman. „Nokkrum vikum áður en við fórum út greindist afi okkar með ólæknandi krabbamein. Það lá þungt á okkur þar sem við vissum lítið um framhaldið og því kvöddum við hann daginn fyrir brottför. Eftir að við náðum toppnum, hringdi mamma heim í ömmu til að segja henni frá því að við höfðum öll komist upp og að við værum á niðurleið. Seinna þann dag fengum við þær fréttir að afi væri látinn.“ Ferðin hefur því tekið á bæði líkamlega og andlega. Þurftuð þið að hvíla lengi eftir hana? „Nei, við getum ekki sagt það þar sem við fórum allar beint í vinnu og æfingar daginn eftir að við komum aftur heim til Íslands. Við fengum þó einn dag í Chamonix til að jafna okkur og slaka aðeins á fyrir heimferðina.“ Þrátt fyrir allt segjast systurnar spenntar að upplifa annað ævintýri saman. „Næst langar okkur að fara til Afríku, á Kilimanjaro, enda svo ferðina í safarí og í slökun á ströndinni.“

This slideshow requires JavaScript.