Þegar við komum að eða völdum slysi ber okkur lagaleg skylda að nema staðar og veita bæði slösuðum mönnum og dýrum þá hjálp sem við getum. Þá er gott að geta gripið í skyndihjálpartöskuna.

„Þegar skyndihjálp er veitt skal lögð áhersla á að hlúa fyrst að þeim sem eru mest slasaðir, en ekki má gleyma því að huga að hinum sem minna eru slasaðir. Stöðva þarf minni háttar blæðingar og búa um önnur meiðsl eftir föngum.

Einnig þarf að sjá til þess sjúklingi verði ekki kalt og forðast alla óþarfa hreyfingu. Oft þarf að veita andlegan stuðning með því að ræða við sjúkling í mildum og hughreystandi rómi og reyna á allan hátt að gera biðina eftir hjálp sem bærilegasta. Forðast skal að fara úr augsýn þeirra sem slasaðir eru.“

-Samgöngustofa

Hjá Rauða krossinum eru seldar fjölnota sjúkratöskur í mismunandi stærðum. Fyrir fólk sem er mikið á ferðinni og á fjöllum mælum við með að eiga eina tösku í bílnum og aðra í bakpokanum.

Æskilegt innihald sjúkratösku

· Sáragrisjur 10 x 10 sm (5 -10 stk.)
· Heftiplástrar
· Skæri (stálskæri)
· Flísatöng
· Teygjubindi (10 sm og 8 sm)
· Grisjubindi (10 sm og 8 sm)
· Plástrar (ofnæmisprófaðir)
· Þríhyrna
· Öryggisnælur
· Saltvatn 0,9%
· Eyrnapinnar
· Vaselíngrisjur
· Augnskolglas
· Einnota kælipokar
· Klemmuplástrar
· Sótthreinsiklútar
· Blástursmaski
· Einnota hanskar
· Brunagel
· Þrúgusykur
· Ályfirbræðsla
· Einnota hanskar
· Vasaljós
· Flauta

Til viðbótar má bæta í sjúkratöskuna ólyfseðilsskyldum verkjatöflum, t.d. panodil og ofnæmistöflum sem einnig fást án lyfseðils í apótekum. Gott er að útbúa lista yfir innihald kassans og festa hann inn í lokið og setja dagsetningar fyrir aftan þá hluti sem hafa takmarkaðan endingartíma. Allt til áfyllingar ættir þú að geta fengið í næsta apóteki.

Við hvetjum alla til að fara á námskeið í skyndihjálp og viðhalda þekkingunni með reglulegri upprifjun.

Ítarlegar leiðbeiningar um skyndihjálp má finna hér.