Nú þegar nýtt ár er að ganga í garð eru margir sem strengja þess heit að breyta lífi sínu eða lífsháttum til hins betra. Oftar en ekki hafa áramótaheitin eitthvað með heilsuna að gera – hreyfa sig meira, borða hollari mat eða hætta reykja eða drekka. En þegar kampavínsglösin eru komin aftur upp í skáp og nýja árið komið, reynist sumum erfitt að standa við stóru loforðin. Það getur bæði verið vegna óraunhæfra væntinga og óljósrar markmiðasetningar. Við tókum því saman lista af nokkrum ráðum handa þeim sem stefna á að vera besta útgáfan af sjálfum sér á nýju ári.

Settu þér raunhæf markmið

Líkurnar á að þér takist að fara úr því að vera sófadýr yfir í að hlaupa ofurmaraþon á einu ári eru hverfandi. Brjóttu leiðina að markmiði þínu frekar upp í smærri skref. Þá eru minni líkur á að þú gefist upp.

Finndu út af hverju þú vilt bæta þig

Er það vegna þess að þú vilt vera börnunum þínum góð fyrirmynd? Eða ertu kannski bara komin/n með leið á að passa ekki í gallabuxurnar þínar? Ef þú ert meðvituð/meðvitaður um hvers vegna þú vilt bæta þig getur það virkað sem hvatning til að gera betur.

Taktu til í mataræðinu 

Ekki fara svangur/svöng að versla í matinn og vertu búin/n að útbúa lista yfir það sem þú ætlar þér að kaupa. Þá eru minni líkur á að þú fallir í freistni þegar í búðina er komið. Það þarf alls ekki að vera leiðinlegt að borða hollt. Þú getur útbúið hollari útgáfu af öllum uppáhalds réttunum þínum.

En ekki einblína á að taka hluti út úr mataræðinu

Í stað þess að setja þér markmið um að léttast eða hætta borða hitt og þetta, prófaðu að setja þér markmið um að borða meira af ávöxtum og grænmeti. Þannig snýrðu markmiðinu upp í eitthvað jákvætt. Með því að bæta einhverju við í stað þess að taka eitthvað út ertu líklegri til að endurtaka hlutinn þar til hann verður að vana.

Endurhugsaðu æfingaplanið þitt

Finndu hreyfingu sem þú hefur gaman af. Um leið og þér hættir að finnast æfingin vera skylduverk og þú ferð að njóta, þá fer boltinn að rúlla. Það er eitthvað til fyrir alla.

Taktu viku í senn

Að taka ákvörðun um að fara þrisvar út að hlaupa í þessari viku virkar minna yfirþyrmandi heldur en að lofa því að fara þrisvar sinnum út að hlaupa í hverri viku, í heilt ár. Ekki hlaupa fram úr þér.

Hafðu gulrót

Verðlaunaðu sjálfa/n þig þegar þú stendur þig vel. Þegar afleiðing hegðunar er jákvæð eru meiri líkur á að þú endurtakir sömu hegðun.

Minnkaðu streitu

Fæstir eru í þeirri stöðu að geta sagt upp vinnunni sinni og flutt á friðsæla, suðræna eyju. Þess vegna er mikilvægt að kunna aðferðir til að minnka streitu í daglegu lífi. Dæmi um slíkar aðferðir eru regluleg hreyfing, hugleiðsla og djúp-öndun.

Segðu oftar „nei“

Stundum þarftu að setja sjálfa/n þig í fyrsta sæti. Það getur tekur mikið á andlegu hliðina að reyna geðjast öllum alltaf.

Að breyta hugsunarhætti er einfalt en að breyta hegðun tekur tíma, vinnu og aga. Með viljann að vopni er þó allt hægt og þegar markmiðinu er náð verður eftirleikurinn auðveldur. Svo ef þér skrikar fótur er bara að standa upp aftur! Eins og aktívistinn Wilma Mankiller sagði einu sinni: „Leyndarmálið að velgengni okkar er að gefast aldrei upp.“