Théo Sanson, atvinnumaður í loftfimleikum, kom við hér á landi, fyrir stuttu og það í ævintýralegri tilgangi en flestir. Flestir ferðamenn myndu nefnilega láta sér nægja að skoða fossa úr fjarlægð en ekki Sanson. Hann fór skrefinu lengra og dansaði á 270 metra langri línu, sem strekkt var, í 100 metra hæð, yfir einn kraftmesta foss landsins.

Línudansinn er hluti af stærra verkefni sem nefnist „Elemen’Terre“, sem við sögðum nýlega frá hér. Nú þegar verkefninu er lokið leikur okkur forvitni á að vita hvernig maður gerist línudansari og hvort það sé ekki hættulegt. Það er sennileg enginn betur til þess fallinn að svara því heldur en Sanson sjálfur, sem hefur atvinnu af því að dansa við dauðann.

12092018-354A0785.jpg

„Fyrir átta árum síðan lenti ég í alvarlegu klifurslysi þar sem ég féll úr mikilli hæð og margbraut á mér hrygginn. Ég hefði getað dáið. Sem hluti af endurhæfingu eftir slysið byrjaði ég að dansa á línu.“

Sanson byrjaði, að eigin sögn, að æfa eins og margir byrjendur gera – úti í garði, á línu sem var tuttugu sentímetra frá jörðinni. En hvað æfir hann eiginlega oft? Og verður hann aldrei hræddur?

„Hér áður fyrr æfði ég alla daga en nú eru verkefnin viðameiri og mesta vinnan fer í að skipuleggja fallegar línur, útbúa sýningar og vinna fyrir Elemen’Terre. Þegar ég byrjaði fyrst þá var ég skíthræddur og ég er ennþá lofthræddur…ég held það forði mér samt frá því að taka of miklar áhættur. Oftar en ekki er bílferðin að staðnum, þar sem línan liggur, hættulegri en línudansinn sjálfur.“

26092018-354A1425.jpg

Öryggisins vegna er Sanson oftast tryggður í línuna sem hann gengur á en stundum tekur hann áhættu og sleppir því að tryggja sig.

„Þá er þetta allt annar leikur…tala nú ekki um þegar ég geri þetta blindandi.“ Hann hættir þó ekki þar heldur segist hann stundum leika sér að eldi, í orðsins fyllstu merkingu, á meðan hann dansar á línu. Nú vinnur hann hinsvegar að því að bæta fallhlífum inn í sjónarspilið.

Það er auðvelt að ímynda sér hvers vegna Dettifoss varð fyrir valinu hjá Sanson en þrátt fyrir það þykir okkur kurteisi að spyrja.

„Ég kom til Íslands fyrir fimm árum síðan og gat ekki hætt að hugsa um Dettifoss eftir það. Á þeim tíma var hann bara of mikil áskorun fyrir mig. Ég valdi Dettifoss því það er ein fallegasta lína sem ég get hugsað mér og að sjálfsögðu vegna þess að hann er kraftmessi fossinn á landinu.“
26092018-354A1487
Ef þessi frásögn vakti áhuga þinn á að byrja æfa línudans, þá skrifaði Sanson bókina La slackline s’initier et progresser, en hún er einmitt ætluð byrjendum í íþróttinni. Við tökum þó fram að bókin er á frönsku og ef þú kannt ekki frönsku, þá er bara að læra hana! Því ef það er eitthvað sem Théo Sanson hefur kennt okkur hingað til þá er það að maður á ekki að láta neitt stoppa sig.
Fyrir frekari upplýsingar um ævintýri Sanson bendum við vefsíðuna: http://theosanson.fr

This slideshow requires JavaScript.