Flestir vita af jákvæðum áhrifum þess að hreyfa sig reglulega. Regluleg hreyfing bætir líkamlega og andlega heilsu og minnkar líkurnar á ýmsum kvillum. Samkvæmt ráðum landlæknis eiga fullorðnir að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur á dag. Það gera 210 mínútur á viku.

Sumum þykir það of mikil skuldbinding og þykjast oft ekki hafa tíma. En góðu fréttirnar eru þær að þú þarft ekki að kaupa þér kort í ræktina til þess að komast í form. Að æfa úti getur nefnilega verið alveg jafn áhrifaríkt og skemmtilegt og að æfa inni!

Útiæfingar geta verið í formi fyrirfram ákveðins æfingaplans eða eins einfaldar og að fara í göngutúra um hverfið þitt eða stunda garðyrkju. Hvernig sem þú kýst að gera það þá eru kostir þess að æfa úti talsverðir:

  • Þú færð meira út úr æfingunni Þegar þú æfir úti – hvort sem þú ert að hlaupa á stígum eða ganga upp fjall – þá er líkaminn þinn að takast á við síbreytilegt landslag. Til að halda tempói þarftu að aðlagast öllum smávægilegum breytingum í umhverfinu eins og t.d. auknum halla eða hindrunum sem þú þarft að forðast. Þetta þýðir að líkaminn þinn fær meiri hreyfingu og fjölbreyttari en hann myndi gera á t.d. hlaupabretti.
  • Það kostar ekki neitt Náttúran er í eigu okkar allra – ókeypis líkamsrækt sem er opin allan sólarhringinn!
  • Hreinna loft Samkvæmt Bandarísku umhverfisverndarstofunni getur loft innandyra oft verið mengaðra en loftið utandyra. Áhrif loftmengunar á Íslandi eru með þeim minnstu í heiminum.
  • Daglegur D-vítamíni skammtur D-vítamín skortur er algengur á Íslandi. Við getum nýtt sólina sem helsta D-vítamíngjafa okkar rétt yfir hásumarið og þá með því að láta hana skína á stóran hluta líkamans þegar hún er hæst á lofti eða í kringum hádegið. Að æfa úti er því frábær leið til þess að fá D-vítamínskammt dagsins.
  • Heilarækt Þegar þú æfir í síbreytilegu landslagi ertu ekki aðeins að virkja líkamann heldur hugann líka. Rannsóknir sýna að útiæfingar geta haft jákvæð áhrif á skap fólks. Þá hafa áhrifin sést best hjá fólki sem þjáist af andlegum veikindum eins og þunglyndi eða kvíða.

Hér fyrir neðan eru nokkrar gagnlegar greinar sem innihalda hugmyndir að æfingum og stöðum til að æfa á…

Æfingar í daglega lífinu – hvar og hvenær sem er
Fimm glimrandi fjallahjólaleiðir
20 ævintýralegir staðir fyrir krakka
Stígarnir í Öskjuhlíðinni
Sjö frábærar gönguleiðir fyrir sumarið
Hvar á að ganga
Svona byrjar maður að klifra

Þá er bara að reima á sig skóna og drífa sig ÚT! 

Mynd:healtplace.com.au