„Ég er með naglalakk á tánum af því að ég var í Cannes.“ 

Við erum stödd við hafið rétt hjá golfvellinum við Þorlákshöfn. Það er loksins sól, í annars þungbúnum maí. Það er langt liðið á síðdegið. Halldóra Geirharðsdóttir leikkona er förunautur okkar ritstjóra Úti í dálítilli ævintýraferð. Við ætlum að prófa brimbretti. Enginn okkar kann á bretti. Dóra er að um það bil að fara að smeygja sér í 5 mm þykkan neoprene gallann þegar hún segir þetta um naglalakkið, ljósbláa naglalakkið á tánum, og hlær smá. 

Texti: Guðmundur Steingrímsson

Jú, Dóra var að koma frá Cannes. Myndin Kona fer í stríð, þar sem Dóra leikur aðalhlutverkið, sló í gegn. Þar greinir frá sambandi manneskju og náttúru og hvernig manneskja sér sig knúna til að grípa til varna fyrir náttúruna. Frábær mynd. 

Þarna í fjörunni við Þorlákshöfn er náttúran mögnuð, víðfem, kraftmikil og líka óvænt. Við sáum ekki sjónarspilið fyrir, þegar við keyrðum framhjá golfvellinum og upp á hrygg sem er þarna við fjöruna. Við sögðum öll vá á sama tíma. Endalaust hafið blasti við. Svartur, sléttur sandur og stórar öldur. Á hæðinni stóð rauður húsbíll. Við hann kona á sundbol um það bil að fara að taka sprett í sjónum og maðurinn hennar úti í brimrótinu á bretti. Var þetta Kalifornía? 

Myndir: Snorri Gunnarsson

„Þegar ég óttast eitthvað, þá borða ég,“ segir Dóra í Ártúnsbrekkunni í upphafi ferðar þegar hún greinir frá því að hún sé vel södd og þurfi því ekki nesti úr bensínstöðinni. „Eins og þegar ég fór í viku kajakaferð um Jökulfirðina um árið. Ég hef aldrei borðað eins mikið. Það var rosalega kalt allan tímann og einhver ótti í mér. Ég var síborðandi.“

Dóra óttaðist semsagt þessa tilhugsun, að fara á bretti í ísköldum sjó við Íslandsstrendur. Þessi strandlengja hefur jú tekið mannslíf. Það er þó líklega nokkuð lýsandi fyrir Dóru sem manneskju að hún sagði undir eins já og þessi hugmynd var reifuð við hana. Reyndar kom eitt OMG á undan. En jú. Hún var til. 

Þá var það ákveðið. Það eina sem vantaði til þess að þetta litla ævintýri gæti átt sér stað voru sjálf brettin, búningarnir og leiðsögn frá kunnáttumanni. Semsagt allt. Við kynnum því til sögunnar Ingólf Olsen brettameistara með meiru. Ingólfur er ekki bara snillingur á brimbretti heldur líka snjóbretti. Hann á og rekur fyrirtækið Arctic Surfers. Ingó var til í að gera þetta með okkur. Við mæltum okkur mót í Þorlákshöfn. 

Það er ákveðin kúnst að koma sér í gallann. Ingó í Arctic Surfers er hafsjór af fróðleik og kunnáttu um brettamennsku.

Við höldum áfram að tala um mat í bílnum. „Ég er alæta,“ segir Dóra. „En ég hugsa samt um hvað ég borða. Ég spái í hvaða orku ég fæ úr matnum. Ég borða til dæmis aldrei of mikið ef ég er að fara að leika á kvöldin. Ef ég er að æfa á daginn og ætla að vera skapandi þá sleppi ég kjöti. Maður má ekki sleppa kolvetnum. Þá verður maður andfúll.“

Dóra og Nikkó, maðurinn hennar — Nicolas Pétur Blin líffræðingur og leiðsögumaður — eru nýbúin að byggja sér gróðurhús. Nú á að rækta mat. Það hlýtur að hvarla að mörgum að Dóra sé alls ekki ósvipuð týpa og Halla, aðalpersónan í Kona fer í stríð.

„Ég tengi mjög vel við hana. Mér finnst ég varla vera að leika. Hún er mjög heilbrigð manneskja sem er búin að fá leið á því að bíða eftir því að eitthvað gerist. Það er ekki nóg að standa hjá. Ég tengi jafnmikið við tvíburasysturina, sem ég leik líka, en er mjög ólík. Þar finn ég meiri ömmuorku. Ömmur geta líka orðið aktívistar. Þær eru svona no bullshit týpur. Ég er ekki svona aktívisti eins og Halla. Ég hef verið meiri Ása. En mögulega er minn tími að koma sem aktívisti, svona amma sem hefur engu að tapa, búin að koma öllum sínum á legg.“ 

„Allt sem maður gerir, sem hefur stærri tilgang en þig og rassinn á þér, skilar sér til baka í meiri lífsgæðum og meiri peningum.“

Nauðsynlegt er að vaxa brettinn áður en farið er á þau, til að geta staðið betur á þeim.

„Eftir myndina er fólk skilið eftir með spurningar. Hver er mín ábyrgð? Hvað ætla ég að gera? Á maður að byrja á sjálfum sér, eins og Ása? Vistvernd í verki. Ég fór í gegnum það einu sinni, fyrir sjónvarpsþátt. Það var geggjað. Ég hélt að það yrði svo leiðinlegt. Að velja lífrænan mat endalaust. Stunda sparakstur. Við vorum mjög blönk á þessum tíma. Við uppgötvuðum að allt sem maður gerir, sem hefur stærri tilgang en þig og rassinn á þér, skilar sér til baka í meiri lífsgæðum og meiri peningum. Maður tekur ábyrgð á því hvað maður notar mikla orku og hvaða vörur koma heim til manns. Maður flokkar burt allt draslið í lífi sínu. Þú ert í rauninni að ástunda innhverfa íhugun þegar þú keyrir sparakstur. Lífsgæðin vaxa. En þetta krefst ástundunar. Við gerum þetta stundum ennþá, en ekki nógu oft. Það plast sem við erum að bera út úr íbúðinni núna var alls ekki svona mikið fyrir ári. Þessar bílferðir sem við förum núna ókum við ekki fyrir ári. Nú þurfum við aftur að spyrja okkur á hvaða leið við erum. Hvernig á heimurinn að vera? Þegar við vorum í átakinu vorum við að rífa umbúðir utan af vörunum og skilja þær eftir í Bónus og Hagkaup. Það var aktívismi. Ég hef ekki keypt kex síðan þá. Ég get orðið pínku fasisti inni í mér. Kex er óþarfi. Nikko hefur minna úthald. En ég kaupi stundum rosa gott súkkulaði.“

Við brunum áfram. Talandi um lífsstíl. Við Rauðhóla vaknar spurningin. Hver er hennar hreyfing?

„Ég hreyfi mig ekkert,“ svarar hún.

Ekkert er stórt orð.

„Mér finnst geggjað gaman að skíða. Mér finnst margt rosalega gaman. Ég hata samt oft manninn minn þegar hann dregur mig út. Það er oft flókið fyrir mig að komast út úr húsi. Flest fólk á við þetta að etja. En ég hef mikla líkamlega orku. Leikhúsið er mjög líkamlegt. Oft er ég dösuð út af því. Ég get gengið endalaust. Fer líka stundum í jóga. Stundum fer ég út og hleyp. Ég hljóp fyrir myndina. Ég þurfti að geta hlaupið mörgum sinnum þennan spöl sem ég hleyp þar. Ég fór í sprettþjálfun hjá Kristínu Birnu Ólafsdóttur. Ég þurfti að búa mér til trúverðugan hlaupastíl. Ég mátti ekki hlaupa eins og hálfviti. Ég uppgötvaði að spretthlaup eiga líklega betur við mig en langhlaup.

Sjórinn togar líka, segir hún. „Mér líður best á eyju og við hafið. Kajak er það magnaðasta. Að sitja ofan í hafinu. Svo mikil þögn. Mér finnst líka æðislegt að vera á skútu. Í rauninni er ég til í mjög margt þegar kemur að útiveru og aksjón. Bjóddu mér og ég skal koma.“

Áður en farið var í sjóinn var tekin æfing í því, í sandinum, að standa upp.

Við afleggjarann inn í Bláfjöll erum við allt í einu komin til Frönsku Pólýnesíu. „Að snorkla,“ segir Dóra. „Það er meiriháttar. Við bjuggum í þrjá og hálfan mánuð á Frönsku Pólýnesíu og það var kóralrif fyrir utan hjá okkur. Þarna snorkluðum við með Nemó og Dóru og öllum þeim. Neðansjávarheimurinn er magnaður. Ég varð oft hrædd. Einu sinni beygðu tvær zebra-skötur í áttina að mér. Ég synti til baka á milljón og hljóp í land. Ég vissi bara að ætti að flýja. Mér leið oft þannig líka þegar við fórum inn í Amazon. Ég varð skelkuð. Það er oft betra að vera bara vitlaus. Í snorklinu var til dæmis mikið af múrenum. Þær eru með tönn í miðjum skoltinum. Þær geta meitt þig. En ég vissi það ekki. Einu sinni var múrena næstum því búin að glefsa í Flóka, son okkar. Hann hljóp á vatni í land.“

Hellisheiðin líður fram hjá okkur. Það er varla ský á himni. Við erum farin í heimsreisu. 

Dóra og Nikkó, og börn þeirra Flóki og Margrét, tíu og sjö ára á þeim tíma, fóru í eins árs heimsreisu fyrir nokkrum árum. Þau söfnuðu í sjóð, leigðu út húsið, og héldu út í heim. „Við ákváðum að við mættum safna jafnmiklum skuldum í ferðinni eins og við hefðum safnað ef við hefðum farið í MBA nám í Háskólanum í Reykjavík.“

Þau fóru fyrst til Suður-Ameríku, til Ekvador.  „Við ætluðum að vera þar í sex vikur, en vorum hjá svo frábæru fólki, að við ákváðum að vera lengur. Settum Flóka í fótboltalið. Slowtravel hlýtur að vera til eins og slowfood. Ég fíla það. Því lengur sem maður er á sama stað því betra.“

Eftir þrjá mánuði fóru þau stuttlega til Perú og til Páskaeyja og Galapagoseyja. „Það toppar ekkert Galapagos. Það er eins og að koma inn í ævintýraheim. Þar er eins hraun og á Íslandi, nema þarna eru kaktusar og furðulegar eðlur.  Páskaeyjar eru líka skrítinn staður. Þar er svo mystísk saga.“

Ingó gefur góð ráð.

„Svo fórum við semsagt til Frönsku Pólýnesíu. Þar settum við krakkana aðeins í skóla. Þeim fannst það ekkert voðalega gaman en þau eignuðust vini og kynntust alls konar nýjum aðstæðum. Við horfðum til dæmis á skemmtiatriði á skólaskemmtun sem var mjög eftirminnilegt. Þar gengu öll atriðin út á það að karlar voru að leika konur. Það þykir mjög fyndið, sem er reyndar mjög sérstakt í samfélagi þar sem þriðja kynið er viðurkennt. Þriðja kynið er notað um karla sem velja að vera konur, klæða sig eins og konur og ganga í störf kvenna. Í fegurðarsamkeppnum er keppt í Herra Pólýnesía, Frú Pólýnesía og Herrafrú Pólýnesía. En samt er hommafóbía rosaútbreidd. Þetta er mjög sérstakt.“

Rétt um það bil er við greinum Þorlákshöfn í fjarska förum við til Nýja Sjálands. „Við vorum tvær vikur á Nýja Sjálandi. Það er eins og Ísland á sterum. Það er jafndýrt og Ísland, þannig að á Nýja Sjálandi kláruðum við allan peninginn sem við ætluðum að nota í Asíu.“

Við erum komin á áfangastað. Við leggjum bílnum upp á áðurnefndum hrygg og segjum semsagt öll vá á sama tíma þegar við sjáum hina íslensku Kaliforníu. Skömmu síðar kemur Ingó brettamaður á svæðið og við græjum okkur upp. Það tekur tíma að smokra sér í neoprene gallann, skóna og hanskana. Svo kýlum við á það. 

 „Það kom manni á óvart hvað orkan er mikil í hafinu.“

„Þetta var geggjað,“ segir Dóra. Við erum komin aftur inn í bílinn, rjóð í kinnum og talsvert uppgefin eftir buslið. „Það kom manni á óvart hvað orkan er mikil í hafinu.“ Við erum sammála um að þessi kynni af brimbretti hafi verið gríðarlega skemmtileg. Gallarnir héldu okkur heitum í 5 gráðu köldum sjónum. Ingó gaf okkur stutta kennslustund áður og leiðbeindi okkur í sjónum. Dóru tókst að standa upp tvisvar á brettinu. Það er heilmikil jafnvægis- og snerpulist. Maður þarf líka að hitta á öldutoppinn um leið og hann brotnar. Þetta eru því nákvæmnisvísindi. Og orkan í hafinu er mikil. Maður göslast með brettið á móti og með öldunum. Hoppar upp á það. Reynir að stýra því. Í öllu þessu er eins og orkuskipti eigi sér stað. Orkan fer úr manni og út í hafið. Til varð máltækið: „Oft býr mikill kraftur í smárri öldu“. 

Þannig að. Niðurstaða: Brimretti. Frábær hreyfing og ógeðslega gaman.

Á leiðinni til baka förum við til Tasmaníu. „Þar ég á frænku í gegnum Hollandsættina mína. Ég er ættuð frá Hollandi í gegnum pabba. Það er frábært að koma til Tasmaníu. Þar er allra veðra von eins og hér. Fólk verður úti. Það eru þrjár tegundir af snákum í Tasmaníu, en þeir eru allir eitraðir. Maður þarf því ekki að þekkja muninn. Það er ótrúlegt dýralíf þarna. Tasmaníudjöfullinn er til dæmis magnað dýr. Hann verður að slást til að fá adrenalín sem gerir honum kleift að melta fæðuna. Hann er dæmdur til að slást. Í Tasmaníu fórum við líka á listasöfn. Það er gaman þegar maður er búinn að vera svona mikið úti í náttúrunni að koma svo inn í listina, mannshugann og ímyndunaraflið.“

Heimsreisan liggur næst til Asíu, til Thailands, Kambódíu og til Víetnam. „Við gengum í allar túristagildurnar í Bangkok. Við trúðum því alveg að við yrðum að kaupa Armaniföt vegna þess að Armaniverksmiðjan yrði aðeins opin þá vikuna.“

„Ég var fimm mánuði að koma til baka.“

„Þetta var stóra ferðin,“ segir Dóra. En hvernig var svo að koma heim? „Ég gat ekki hugsað mér að vera í beinni útsendingu á Facebook meðan ég var í ferðalaginu. Þá hefði komið gat á ferðalagið. En þegar ég kom til baka, og þegar ég settist inn á kaffihúsið mitt með vinum mínum, þá var svolítið merkilegt að mér fannst engin leið að halda í við fólkið. Það fóru allir svo hratt á milli hugsana. Ég var á allt öðru tempói. Ég var fimm mánuði að koma til baka.“ 

Breyttist álitið á Íslandi? 

„Nei, mér fannst bara bætast við heiminn. Það opnaðist eitt herbergi í viðbót inni í mér. Það er friður í því. Á Íslandi er mikill erill, sérstaklega í Reykjavík. Í ferðinni fékk ég mikinn frið. Allir ávörpuð Nikkó, en ekki mig. Mér fannst það svo þægilegt. Ég þurfti aldrei að taka oddaflugið. Nikkó gekk á undan og ég gekk aftast þegar við fórum í leiðangra, eins og inn í Amazon. Hann var alltaf geðveikt spenntur, en ég eiginlega í taugaáfalli.“

Við nálgumst Reykjavík. Á Íslandi er Dóra áberandi. Þar tekur hún oddaflugið. Það er merkilegt að þessi ástsæla leikkona hefur aldrei áður leikið burðarhlutverk í kvikmynd. „Það hafa ekki verið margar rullur fyrir kvenfólk í bíómyndum. Það eru nokkur ár síðan ég fór að segja við fólk að mig langaði til að bera uppi mynd. Svo kom þetta tækifæri.“

Hún segir frábært að vinna með Benedikt Erlingssyni. „Benni er leikari og hann er nærgætinn, en samt ýtinn. Hann er mjög skapandi og leikandi. Hann hefur leikstýrt mér mikið í leikhúsinu og við erum búin að þekkjast síðan við vorum tíu, ellefu ára. Við höfum brallað mikið saman. Hann var næstum því rekinn úr MH. Við settum upp að hans undirlagi hina merku sýningu Nauðgun busastúlkunnar. Þegar maður lítur til baka skilur maður auðvitað ekkert í því hvað við vorum að spá. Ég gerði stunurnar. Svo þegar við komum aftur upp í stofu eftir sýninguna var þar fullt af grátandi stelpum í áfalli. Við skildum ekkert í neinu. Hvað er málið? Má maður ekki djóka? Við vorum ung og vitlaus.“ 

Það er hægara sagt en gert að standa upp á brettinu. Dóru tókst það tvisvar.

Það er ekki á Dóru að heyra að það sé endlega lykilatriði að fá stórt hlutverk. Oft finnst henni skemmtilegra að fá lítil hlutverk og gera mikið úr þeim. En hvað er lykilatriðið við góðan leik? 

„Ég efast mjög mikið þegar ég er að leika. Ég veit að fólk sér mig, og það veit hvað ég er að gera, en upplifir það leikinn sem sannleika? Eða er ég bara í þykjustuleik?“

Hún er nýorðin prófessor í Listaháskólanum. Hún er í fimmtíu prósent starfi þar og fimmtíu prósent í Borgarleikhúsinu. Hún hefur fullan hug á því að taka að sér fleiri verkefni í sjónvarpi eða kvikmyndum. „Ég held að heimurinn vilji fleiri konur í alls konar rullur, sem yfirmenn, lögreglustjóra og alls konar fleira. Mig langar að stækka vinnusvæðið mitt. Kannski gerist eitthvað í kjölfarið á þessari mynd. Það væri gaman en ekki nauðsynlegt. Mér finnst bíóið farið að vera meira heillandi en áður, kannski afþví það eru betri hlutverk núna.“

Við nálgumst Vesturbæinn. Dóra á að vera mætt í pallborð í Háskólabíó, eftir sýningu. Það stefndi í að einungis karlar væru í pallborðinu, en Dóra tók það auðvitað ekki í mál. Úr varð að jafnmargar konur koma líka. „Þá eru reyndar alltof margir í þessu pallborði,“ segir Dóra og hlær. „En skítt með það.“

Við beygjum inn Suðurgötuna við Þjóðminjasafnið. Ein spurning að lokum. Fólk vildi að hún biði sig fram til forseta. Af hverju vildi hún það ekki?

„Ég skildi af hverju ég var beðin um það. Ég get blekkt fólk. Ég get búið til einhvern sannleika, til dæmis ef ég held ræðu og er með á tæru um hvað ég er að tala. Ég vaknaði hvað eftir annað eins og ég væri þunn þessa daga sem ég hugsaði þetta. Þetta tók á mig. Ég hugsaði þetta í þrjár vikur. Af hverju ekki ég? Ég vildi ekki gera lítið úr sjálfri mér. Þetta var rosaleg sjálfsskoðun. Niðurstaðan var alveg kristaltær. Hæfileikar mínir myndu ekki nýtast þarna. Ég er betri annars staðar.“

Við tökum undir það, þótt hún hefði örugglega orðið góður forseti. En Dóra hefði aldrei leikið í Kona fer í stríð ef hún væri forseti. Og hún hefði heldur ekki komið í þetta viðtal. Og hún mun mæta of seint í pallborðið. Það hefði hún heldur ekki mátt gera sem forseti. Og sem forseti hefði hún líklega heldur aldrei getað flaggað svona ótrúlega svalri afsökun fyrir að koma of seint: 

Ég var á brimbretti. 

Dóra sigri hrósandi. Ef vel er að gáð má sjá fætur Róberts Marshalls á öldutoppnum í fjarlægð.