Við fjölluðum um bókina Mountains of the mind eftir Skotann Robert Macfarlane í síðasta sumarblaði Úti. Þetta er stórkostleg bók sem fjallar um sögu fjallamennsku og hvernig hrifning nútímamannsins á afgerandi landslagi er tiltölulega nýtilkomin. Nú er komin út á Netflix myndin Mountain sem óhætt er að mæla með. Hún byggir að hluta á texta Macfarlane sem lagði í mikla rannsóknarvinnu til að reyna að varpa ljósi á það hvers vegna sumt fólk fórnar lífi sínu til að standa á einhverjum tindi; á einhverjum tilteknum stað í landslagi sem hefur einungis þýðingu í ímyndunarafli einstaklinga. Þetta er heillandi mynd sem byggir á frábærum sögumanni, Willem Dafoe, og myndefni frá fallegustu fjöllum heimsins, þar með talið Íslandi. Þetta er samt ekki eiginleg heimildamynd heldur meira eins og heimspekilegt ferðalag. Okkur fannst hún frábær.