Einar Eyland er eini Íslendingurinn sem tók þátt í Fire and Ice Ultra í ár og jafnframt sá eini sem hefur tekið þátt árlega síðan keppnin var fyrst sett á laggirnar árið 2012. Hann æfir nær alla daga vikunnar, á mörg maraþon og ofurmaraþon að baki og segir það forréttindi að geta þetta ennþá, orðinn 57 ára gamall.

„Ég er svaðalega ánægður með að klára svona verkefni sjöunda árið í röð og á þessum aldri. Ég fæ aldrei leið á því að fara um hálendi Íslands hlaupandi.“

Einar Eyland er eini Íslendingurinn sem tók þátt í Fire and Ice Ultra í ár.

„Besti undirbúningurinn fyrir Fire and Ice Ultra er Vasaskíðagangan.“

Var þessi keppni eitthvað frábrugðin keppnum fyrri ára? „Ekki þannig, nema að þetta er í fyrsta skiptið þar sem næturfrostið fer undir -10 gráður…Þá komu sér vel skíðagöngukeppnirnar erlendis, í yfir 20 stiga frosti.“ Einar lætur hlaupin nefnilega ekki duga heldur stundar hann einnig skíðagöngur af miklum krafti. Hann hefur klárað átta Vasa-skíðagöngur í röð og er skráður í næstu göngu sem fer fram þann 3. mars næstkomandi. Um er að ræða 90 km skíðagöngu sem haldin er árlega í Svíþjóð. „Besti undirbúningurinn fyrir Fire and Ice Ultra er Vasaskíðagangan“, segir Einar.

„Svona verkefni er 70% hausinn.“

Til að klára 250 km maraþon segir hann ekki nóg að vera bara í líkamlega góðu formi: „Svona verkefni er 70% hausinn.“ Erfiðasta hluta hlaupsins segir hann hafa verið þriðji dagurinn en eftir það: „..ekkert mál.“ En hvernig var tilfinningin að komast ekki í bað í 6 daga? „Hún var skelfileg fyrstu tvö árin. Það rífur í á morgnana að fara alltaf í sömu hlaupafötin, blaut eða rök.“ Við hin getum aðeins ímyndað okkur lyktina í tjöldum keppenda undir lokin en í hverju tjaldi eru átta hlauparar.

Keppendur voru látnir bera allan búnað til hlaupsins, nema tjöld og vatn. Heildarþyngd búnaðarins mátti ekki fara yfir 9 kg og þá skipti máli að pakka létt. Einar hljóp með 32 lítra OMM bakpoka sem vegur aðeins 550 grömm og er sérhannaður fyrir hlaup af þessu tagi. Í bakpokanum var hann svo með léttasta svefnpoka sem til er og léttustu vindsængina, léttan fatnað, dúnúlpu og mat. Í hlaupinu nærðist hann helst á frostþurrkuðum mat, bæði vegna næringagildisins og hve létt það er að bera hann. Á meðan hlaupinu stóð fékk hann sér próteinstangir og hálft harðfiskflak strax eftir hlaup. Auk vatns drakk Einar magnesíumbættan orkudrykk til þess að minnka líkurnar á krömpum.

Við venjulega fólkið myndum sennilega leggja hlaupaskóna á hilluna og hvíla í svona fjögur ár eftir svona keppni. En hvað ætli maður eins og Einar sé lengi að jafna sig? „Ég tek fimm daga hvíld og nota þá í heitu pottunum og kalda karinu í Sundlaug Akureyrar. Síðan léttar hjólaskíðaæfingar næstu tvær vikur og eftir það er ég klár í að hlaupa á fullu aftur.“

Já, hann Einar kallar svo sannarlega ekki allt ömmu sína!

Við hjá Úti óskum honum innilega til hamingju með árangurinn og eins góðs gengis í komandi keppnum.

Einar og sonur hans Gísli í keppninni árið 2016

Myndirnar eru fengnar af Facebook síðu Fire and Ice Ultra með góðfúslegu leyfi þeirra sem stóðu að keppninni