Ketósa er tæki til að þjálfa frumurnar í að velja fitu sem brennsluefni – en ekki endilega ástand sem maður vill vera í alla tíð.

Lukka í Happ skrifar  

Hér áður fyrr – þegar við vorum meiri apar 😉 – þá kunnum við að nýta okkur bæði ketona og glúkósa sem orkuefni.  Nútímamaðurinn hefur að miklu leyti „misst“ hæfileikann til að brenna fitu sem orkugjafa því við borðum svo oft yfir daginn og mikið af kolvetnum að frumur okkar velja síður fitu sem orkugjafa því kolvetni eru nánast alltaf til staðar.  

Þeir sem vilja þjálfa frumur sínar í því að vera hæfari í fitubruna þurfa að draga úr neyslu kolvetna og nánast svelta líkamann af þeim á meðan verið er að kenna frumunum að nýta nýjan orkugjafa.  Í því ástandi – þegar kolvetni skortir – framleiðum við meira af ketónum.  Fyrst um sinn eru frumurnar eins og matvandur krakki. Þær neita fyrst en láta svo undan ef við erum nógu staðföst og ákveðin í að knýja fram breytinguna. Þær eru ekki vanar að þurfa að nýta ketóna sem orkuefni og sakna sykursins.  Við finnum því fyrir fráhvarfseinkennum (ketó-flensu). Við getum orðið orkulaus, fundið fyrir svima og ógleði, kulda og þreytu. Á sama tíma mælist töluvert af ketónum í blóði, í þvagi og í andardrætti okkar.  Þeir ketónar sem við mælum þannig eru í raun ketonar sem við erum ekki að nýta í orkubruna og því að skila út í gegnum öndun og þvag. 

Eftir því sem frumurnar smám saman sætta sig við að fá ekki sykurinn og fara að nota ketónana sem orkuefni dregur úr fráhvarfseinkennunum, okkur fer að líða betur og við verðum hæfari og hæfari í að nýta þennan góða orkugjafa og þurfum minna og minna á kolvetnum að halda. Þá fer líka að mælast minna af ketonum í þvagi og andardrætti því líkaminn er að nýta þá betur sem orkugjafa og skilar minna af þeim ónýttum út. 

„Því strangari sem þú ert því meiri árangri nærðu“

Þetta er í raun þjálfun rétt eins og önnur þjálfun.  Því strangari sem þú ert því meiri árangri nærðu. Það getur tekið nokkra mánuði (sumir segja ár) að ná góðri þjálfun en þegar henni er náð þá er auðveldara að viðhalda árangrinum.  

Það að „detta í það“ í viku sykursukk eða eitthvað álíka skemmir ekki árangurinn frekar en vika af hvíld skemmir hlaupaform ef búið er að þjálfa það upp í lengri tíma. 

Spurningin „má ég borða sykur“ er því svolítið eins og að spyrja hvort megi sleppa hlaupaæfingu og fara í bíó í staðinn. Svarið er JÁ þú mátt það og það mun ekki skemma hlaupaformið þitt …nema þú veljir mjög oft að sleppa æfingu og fara í bíó! 

Ef þú ferð út af sporinu og borðar mikið af kolvetnum í einhvern tíma er lítið mál að nota ketogenic mataræði til að koma sér aftur í réttan takt og minna frumurnar á að nýta fitu sem brennsluefni. Standi kolvetnapartýið hins vegar lengi yfir verða timburmennirnir meiri og það þarf að hefja þjálfunina að nýju – rétt eins og hlaupaform tapast ef við hættum að æfa í langan tíma.

Ketosa er því verkfæri eða þjálfunartæki sem við notum til breytinga en þegar breytingunni er náð er óhætt að borða alla holla fæðu án þess að það skemmi að neinu leyti þann árangur sem hefur náðst.  Sykraðir drykkir, kökur, kex, sykur og hveiti eru hins vegar ekki hluti af hollu mataræði. Punktur.