Erfiðasta maraþon á Íslandi, Fire and Ice Ultra, hefur náð hápunkti. Keppendum var hleypt af stað við Kverkfjöll síðastliðinn mánudag en þeir hafa haft sex daga til að hlaupa ýmist 125 km eða 250 km. Hlaupinu lýkur við Mývatn í dag.

Jórunn Jónsdóttir er í undirbúningshópi hlaupsins.

Við heyrðum í Jórunni Jónsdóttur sem er í undirbúningshóp hlaupsins en hún starfar hjá ferðaskrifstofunni All Iceland sem hefur verið samstarfsaðili hlaupsins frá upphafi. Jórunn segir stemminguna í hópnum hafa verið mjög góða og sérstaklega núna eftir að rúmir 230 km eru að baki. „Það var mikil gleði hér í dag þegar hópurinn komst í bað í fyrsta sinn eftir 6 daga!“

„Þeir voru farnir að spyrja okkur hvort það væri aldrei gott veður hjá okkur.“

Kuldi hefur verið í kortunum en keppendur eru af harðari gerðinni og því vel undirbúnir. „Það var ákveðið út af vondri veðurspá að fara mjög snemma af stað í gær, þar sem hlaupið var frá Herðubreiðalindum, í Péturskirkju, í land Reykjahlíðar og komast undan veðrinu, þar sem öryggi hlauparanna og starfsfólks er alltaf í forgangi.“ Mikið rok var í landi Reykjahlíðar í gær og segir Jórunn að fólk hafi átt í miklum erfiðleikum með að festa svefn um nóttina. „Þeir voru farnir að spyrja okkur hvort það væri aldrei gott veður hjá okkur.“

Aðeins einn Íslendingur er skráður í keppnina en það er hann Einar Eyland. Hann er jafnframt sá eini sem hefur tekið þátt á hverju ári frá því hlaupið hófst 2012. Aldursbil keppenda er mjög breitt eða allt frá tvítugu og upp í rúmlega sjötugt. Um 30% keppenda eru konur og eru þær allar í keppninni enþá. Fjórir hafa helst úr lestinni vegna meiðsla en enginn hefur þurft að fara á sjúkrahús.

Einar Eyland hefur haldið uppi merkjum Íslendinga í keppninni síðan 2012.

„Það er svo gaman að taka þátt í þessu – sjá bláókunnugt fólk lenda í tjaldi með átta öðrum og mikinn vinskap myndast á milli þeirra. Allir að hjálpa hvorum öðrum, enda er mikið álag á líkamann að hlaupa 250 km og margir haft þurft að takast á við blöðrur sem eru ekki venjulegar að stærð.“, segir Jórunn.

Seinna í dag verða veitt verðlaunaskjöl fyrir þrjú efstu sætin í karla- og kvennaflokki. Sigurvegari hlaupsins fær þar að auki verðlaunaskjöld. Allir þeir sem klára hlaupið fá svo veglega medalíu enda verða þeir aldeilis búnir að vinna fyrir því.

Myndirnar eru fengnar af Facebook síðu Fire and Ice Ultra með góðfúslegu leyfi þeirra sem stóðu að keppninni

Keppendur láta ekki deigan síga þótt á móti blási

Myndirnar eru fengnar af Facebook síðu Fire and Ice Ultra með góðfúslegu leyfi þeirra sem stóðu að keppninni