„Ég er loks kominn til byggða og það var ekki auðvelt,“ skrifaði Olli í skilaboðum til okkar á Úti í gær. Þar með er John Muir stígurinn að baki. Síðustu dagleiðirnar, um 90 km niður í Yosemitedal, voru á mörkum skógarelda. Olli dreif sig í gegnum mökkinn. Hann gekk með lítilli hvíld í tvö sólarhringa og kom vel lúinn til byggða. Við gefum honum orðið:

„Ég var fyrir þrem dögum í Reds þar sem göngumenn geta fengið byrgðir sendar og þar er einnig hægt að kaupa vistir sem ég og gerði. Þetta er ca 20 km frá Mammoth Mountain skíðasvæðinu. Þarna geisa skógareldar og eru búnir að gera síðan í júní. Eins og vindar og veður eru þarna þá versnar alltaf reykurinn þegar líður á daginn og getur orðið ansi þykkur reykur uppi í fjöllunum þarna á kvöldin. Félagar mínir ætluðu að taka sinn fyrsta hvíldardag næsta dag en ég hafði önnur áform.

Rykið af stígnum smaug inn að húð.

Það voru 56 km yfir til Tuolumni sem var síðasti áfangastaður fyrir ferðalokin í Yosemite dalnum. Þessi leið er mjög erfið og yfir tvö stór fjallaskörð að fara ásamt ótal hálsum og dölum. Göngumenn taka þetta oft á þremur göngudögum en harðir göngumenn á tveimur. Þarna eru mjög mörg ótrúlega falleg fjallavötn. Ég ákvað að vera ekkert að dvelja lengi í stybbunni og taka þetta með átaki og reyna að gera þetta í einum rykk.

Ég vaknaði kl 3 um nóttina og var kominn úr að ganga fyrir fjögur. Ég gekk í algjöru niðamyrkri og einbeitti mér að fara eins hratt yfir og ég hafði afl til. Ég fann greinilega fyrir reyknum en lét það ekki hafa áhrif á mig. Einu sinni villtist ég af leið en appið í símanum mínum hjálpaði mér á rétta braut. Þetta var ansi mikið upp brekkur og svo aftur niður brekkur og alltaf í 2500 metra upp í ca 3300 metra hæð, svo hæðin hafði áhrif. Ég var kominn að síðasta og hæsta skarðinu kl 15:30 og orðinn ansi þreyttur.

Fyrir aftan mig sást þykkur reykjarmökkurinn og var ég feginn að vera ekki þar. Svo tók við erfið niðurferð ofan í dal eftir grýttum og erfiðum stígum sem hlykkjuðust niður bratta hlíðina. Þegar ofan í dalinn kom voru ca 17 km eftir út dalinn og var ég orðinn svo þreyttur og langt síðan ég borðaði að allar þær smá brekkur sem urðu á vegi mínum voru þrælerfiðar.

Ég komst til Tuolumni eftir 15 tíma þjark og orðinn vel þreyttur. Ég ákvað að vakna snemma næsta morgun og klára dæmið. Það voru einir 35 km niður í Yosemite dal. Leiðin byrjaði á stanslausri hækkun upp í Chathetral skarðið og síðan var þetta meira og minna lækkun ofan í dalinn. Þegar ég byrjaði að puða í brekkunum upp í skarðið tók ég eftir því að ég var ekki svipur hjá sjón miðað við daginn áður. Það lá svo gríðarleg þreyta í skrokknum að ég varð að sætta mig við að fara hægt í brekkurnar. Þegar ég byrjaði að lækka mig fann ég hvað ég var sár framan á tánum eftir skokkið niður bratta stíga deginum áður. Við bættist að hitinn hækkaði eftir því sem neðar dró. Ég reyndi að drekka sem mest til að þorna ekki. Ég komst ofan í Yosemite dal eftir ca 9 tíma puð og sagði GPS tækið 35,5 km og hafði ég þá gengið rúmlega 90 km á tveimur sólarhringum og búinn að fá nóg í bili.“

Það er full ástæða til að óska Olla til hamingju með þrekvirkið. John Muir stígurinn er einstaklega falleg leið og mikil samkeppni um að fá að ganga hann. Það er vonandi að garpurinn nái núna að slaka vel á, sérstaklega eftir 90 km nánast samfellda göngu. Hann reyndist líka vera svolítið að flýta sér:

„Ég verð að viðurkenna að það var nærri mér gengið því ég var að flýta mér til að ná rútu úr dalnum sem fór kl. 17:00 og ég var kominn á stöðina korteri áður. Ég hafði þess vegna ekki gefið mér almennilegan tíma til að borða og var orðin ansi lágur í blóðsykri.“

Við Þúsundeyjavatn. Mökkur frá skógareldum vomir yfir.