Þorvaldur V. Þórsson, Olli, sem gengur núna hinn margrómaða John Muir stíg í Kaliforníu er loksins kominn í samband við umheiminn aftur. Við á Úti fengum hálfkláruð skilaboð frá honum fyrir um 10 dögum. Þá var hann staddur á toppi Mt. Whitney, sem er hæsta fjall Norður-Ameríku utan Alaska, um 4500 metra hátt. Í miðri skilaboðasendingu til okkar, í fjalladýrðinni, skall á hið svæsnasta þrumuveður. Við heyrðum ekki meira í honum eftir það.

Sjá líka: Olli gengur John Muir stíginn. 

Símasambandið reyndist vera í ólestri. Það var því gott að fá loksins sms frá garpinum í gær. Við gefum honum orðið:

„Þessi ferð er búin að vera stórkostlegt ævintýri. Mikið erfiðari en mig grunaði. Ég á fjórar dagleiðir eftir og ætla að reyna að taka þær á tveimur dögum. Morgundagurinn (í dag) verður 55 km ef mér tekst að ljúka honum. Síðustu daga hef ég verið að ganga rúmlega 30 km og mikið í hækkun og lækkun þannig að það reynir mikið á skrokkinn. Ferðalagið hefur í stórum dráttum verið svona: Fyrstu tveir dagarnir fóru í að koma sér að Whitney fjalli og byrjaði ég gönguna í rúmlega 3000 m hæð. Ég gekk með tveimur öðrum ferðalöngum. Fyrsti dagurinn var erfiður þar sem við vorum ekki vel hæðaraðlagaðir og óvanir þessum grýttu stígum sem þarna voru. Við gengum yfir tvö há fjallaskörð. Næsta dag var gengið yfir enn eitt skarð og svo alla leið undir Mt Whitney. Pokarnir okkar voru þungir og var ég með 8 daga matarbyrgðir.

VIð Muir kofa í Muir skarði.

Vatn er auðfáanlegt en það verður að sýja áður en það er drukkið. Við vorum með app í símunum sem sagði okkur hvar næsta vatnsból var og einnig hvar var hægt að gista. Ferðin á Whitney gekk vel og voru einhverjir með vott af hæðarveiki en mér leið vel. Ég var uppi í talsverða stund og hugsaði til þess að það voru nákvæmlega 30 ár og 3 mánuðir síðan ég stóð þarna uppi síðast. Svo heyrist þruma og allir forðuðu sér niður í hvelli. Næsta dag var haldið af stað norður. Það byrjaði að rigna milli kl. tvö og þrjú með þrumum og var þetta svona næstu 5-6 daga með mis mikilli rigningu en tvo daga var haglél með ansi stórum höglum. Eftir fimm var yfirleitt fínt veður. Næstu daga var puðað upp á eitt til tvö fjallaskörð á dag og gengið niður í djúpa dali þar sem hitinn var stundum rúmlega 30 stig. Síðustu þrjá daga höfum við gengið rúmlega 30 km á dag og var sérstaklega mikið um hækkanir og lækkanir og stígarnir á köflum ansi grófir. Við vorum að í 10-12 tíma á dag. Ég hef ekki ennþá tekið hvíldardag og er skrokkurinn í merkilega góðu ásigkomulagi. Nú eru eftir rúmlega 80 km yfir þrjú fjallaskörð og ætla ég að freista þess að gera þetta á tveimur mjög löngum dögum.

Það er skógareldar hérna í næsta nágrenni og ansi mikil reykjarlykt. Hún er víst aðeins minni á morgnana þannig að ég ætla að freista þess að leggja af stað fyrir 4 í fyrramálið og reyna að komast 55 km áður en næsta nótt skellur á. Svo er rúmlega 30 km ganga yfir eitt skarð niður í Yosemite þjóðgarðinn þar sem gangan endar.“

Fegurðin á John Muir stígnum, sem liggur frá Mt- Whitney niður í Yosemite, og um tvo aðra þjóðgarða, er gríðarleg.