Fjallagarpurinn Þorvaldur V. Þórsson, Olli, er farinn til Kaliforníu. Næstu daga mun hann ganga hinn rómaða John Muir stíg, sem er 340 kílómetra löng leið sem liggur yfir ein tíu mishá fjallaskörð frá toppi Mt.Whitney niður í Yosemite þjóðgarðinn, meðfram hátindum Sierra fjallgarðsins framhjá ótal fjallavötnum og þykir vera með fallegri fjallagönguleiðum í Norður Ameríku. Við á Úti ætlum að fylgjast með þessu ævintýri.

John Muir

Mt. Whitney er hæsta fjall Norður-Ameríku utan Alaska. Gönguleiðin frá því og niður í Yosemite er ein vinsælasta langa gönguleiðin í Bandaríkjunum. Hún heitir í höfuðið á John Muir sem var fæddur í Dunbar í Skotlandi 1838 og dó 1914. Muir var einn af aðalhvatamönnum að stofnun Yosemite þjóðgarðsins sem samþykkt var af bandaríska þinginu árið 1890. Hann var einn af frumkvöðlunum í því að opna augu fólks fyrir gildi óspilltrar náttúru og barðist ötullega fyrir þeirri hugsjón allt sitt líf. Gönguleiðin liggur í gegnum tvo aðra þjóðgarða: Sequoia þjóðgarðinn og Kings Canyon þjóðgarðinn.

Fyrstu drög að leiðinni voru lögð 1892 en fjárveiting fékkst ekki fyrr en árið 1915, ári eftir dauða John Muir. Síðasta hluta leiðarinnar var lokið árið 1938 og tók því alls 46 ár að leggja leiðina alla. Núna er þessi gönguleið svo eftirsótt að göngufólk þarf að sækja um að komast í hana með sex mánaða fyrirvara og komast færri að en vilja. Göngtímabilið á hverju ári er frá byrjun júlí og út september.

Leiðin liggur um tíu fjallaskörð.

Olli stefnir á að hefja gönguna eldsnemma í fyrramálið. Hann tók prufugöngu í vikunni og prófaði að ganga nokkurn spöl, upp í 3200 metra hæð, með 8 daga matarbirgðir, tjald og allan annan búnað á bakinu, eins og verður í göngunni sjálfri. Það eru samtals 16 kíló með tveimur lítrum af vatni. „Þetta virkaði allt vel og allt er að smella,“ segir Olli.

Smá blikur eru á lofti. Skógareldur geisar rétt norðvestan við Yosemite-dalinn og hefur hann verið lokaður í all nokkra daga í fyrsta skipti í meira en 30 ár. „Eins og staðan er í dag er síðasta dagleiðin frá Tuolumne Meadows niður í Yosemite dal lokuð vegna reyks frá skógareldunum,“ segir Olli.

Við fylgjumst með því.

Mt. Whitney með Joshua tré í forgrunni.