Galtarviti á Vestfjörðum er töfrandi staður þar sem hægt er að gleyma stað og stund og renna saman við eilífðina í einstakri álfasinfóníu, eins og þar stendur. Ferðahópur Kramhússins naut góðra stunda að Galtarvita síðsumars fyrir ári. Þau mæla með þessum einstaka áfangastað.

Texti: Steinunn Harðardóttir

„Í friðarmáltíðinni hjá Spessa sátum við Maggi hjá svo skemmtilegum hjónum sem eiga Galtarvita“ sagði Margrét við okkur félaga sína í jólagleði Kramhússins. Hvernig líst ykkur á að fara í Galtarvita í næstu Kramhúsferð? „Galtarviti hvar er hann? Eru ekki veðurfréttir sagðar þaðan,“ var spurt. „Galtaviti er á milli Skálavíkur og Súgandafjarðar og þar er ekkert vega- eða símasamband. Það þarf að fara með báti frá Súgandafirði og tuðru í land ef veður og straumar leyfa. Annars er það landleiðin, ganga frá Skálavík um bratt og erfitt skarð. Það þarf þó aðeins að bera nauðsynjar fyrir fyrstu nóttina. Farangurinn er svo fluttur með báti næsta dag.” Margrét bætti við: „Fyrir nokkrum dögum hlustuðum við Maggi á svo skemmtilegt viðtal við Ólaf Jónasson eiganda Galtavita. Hann sagði að fjölmargir listamenn svo sem Múm, Snorri Helgason og fleiri hefðu dvalið í vitanum, samið lög og tekið upp tónlist þar. Að staðurinn hafi svo kyngimögnuð áhrif á fólk að hann og fleiri fari þangað aftur og aftur til að endurnærast. Þetta hljómaði svo spennandi að við skrifuðum hjá okkur nafnið til að geta forvitnast síðar. Í gærkveldi, fyrir tilviljun, — eða hvað,— var okkur svo skipað til borðs með sama Ólafi og konunni hans. Finnst ykkur það ekki sérstakt eða jafnvel táknrænt fyrir að við eigum að fara í Kramhúsferð í Galtavita? Það yrði sannkölluð óvissu og ævintýraferð!“

„Þarna er hægt að sitja úti undir vegg tímunum saman og bara vera. Gleyma stað og stund og renna saman við umhverfið.“

Göngu- og leikfimishópur í Kramhúsinu sem kallast 5.15 hefur farið í fjögurra daga gönguferðir vítt og breitt um landið undanfarin 20 ár, aðra eða þriðju helgina í ágúst. Síðast var gist í skíðaskála á Skagaströnd og meðal annars var farið á Spákonufell í rigningarúða og gengið, runnið og kollsteyptst niður lúpínubreiðu á leið í skálann. Árið áður var gengið á allflestar hæðir í Vestmannaeyjum. Eftir erfiða sjóferð frá Þorlákshöfn rættist úr veðrinu og eyjarnar skörtuðu sínu fegursta allan tímann. Eitt sinn fengum við sumarhús við Akureyri og gengum m.a. á Súlur og Kaldbak. Fyrstu árin var allt borið á bakinu og m.a. farið um Laugarveg, Skælingaleið og Arnarvatnsheiði. Nú er vanalega gist á einum stað og ekið að upphafi gönguleiðanna. Þar sem hluti gönguhópsins er orðinn eldri borgarar voru áhöld um hvort Galtarviti væri heppilegur en staðurinn var svo heillandi að ákveðið var að láta slag standa. Á kynningarfundi með „Óla vita“ hafði hann líka sagt að það mæri mjög ólíklegt að við þyrftum að fara gangandi þangað. Hann reyndist hafa keypt vitajörðina og húsið óséð fyrir 17 árum, sá auglýsingu um að staðurinn væri til sölu, gat ekki hætt að hugsa um það og skilaði inn tilboði sem var tekið. Síðan, eftir heimsókn í Galtarvita, var hann svo heillaður að nú hefur hann varið ómældum tíma og peningum í viðhald og boðið fjölmörgum listamönnum þangað til dvalar og sýningarhalds. „Þessi staður hefur órúleg áhrif á mann,” sagði hann. „Þarna er hægt að sitja úti undir vegg tímunum saman og bara vera. Gleyma stað og stund og renna saman við umhverfið.”

Galtarviti, sem var reistur 1920, á sér dramatíska sögu. Á stríðsárunum var þýskur maður að nafni August Lehrmann í vinnu hjá vitaverðinum Þorbergi Þorbergssyni. Vegna þess var Þorbergur tekin fastur af Bretum aðfaranótt 8.júní 1941. Þrír synir vitavarðarins voru skildir eftir einir í Galtarvita í mánaðartíma því móðir þeirra dvaldi við ljósmóðurstörf í Bolungarvík.

„Yfirforingi breska setuliðsins á Íslandi tilkynnir að hann hafi verið knúður til að láta flytja neðangreint fólk úr landi til Bretlands, þar sem það verður haft í haldi, fyrir að hafa veitt óvinaflóttamanninum August Lehrmann virka aðstoð; hinir þrír fyrstu eru þýskir ríkisborgarar en hinir fjórir íslenskir ríkisborgarar….“ Þannig hófst tilkynning frá yfirstjórn breska setuliðsins á Íslandi 9. júní 1941 daginn eftir að fólkið, og Þorbergur vitavörður á Galtarvita, hafði verið handtekið af breskum hermönnum á Ísafirði. Þau voru í fangelsi í 2 mánuði en látin laus til að liðka fyrir samningum við Bandaríkjamenn. Ekkert virðist benda til að allir þessir einstaklingar hafi haft samskipti við Lehrmann eða veitt honum aðstoð og erfitt er að sjá að hann hafi getað stundað njósnir hér á landi.

August Lehrmann kom til Íslands árið 1939, hálfum mánuði áður en síðari heimsstyrjöldin skall á. Hann kom til að starfa hjá þýskum heildsala að nafni Heiny Scheiter. Lerhrmann hafði verið svaramaður hans þegar hann kvæntist dóttur Jóhanns Eyfirðings á Ísafirði. Þegar Bretar hertóku Ísland 10.maí 1940 var Lehrmann í tjaldútilegu á Þingvöllum. Honum barst til eyrna að Bretar hefðu tilkynnt að allir þýskir karlmenn yrðu handteknir. Í stað þess að fara aftur til Reykjavíkur fór hann fótgangandi vestur til Ísafjarðar. Þar var honum fyrst útvegað húsaskjól í sumarbústað í Súgandafirði, síðan í Furufirði og loks á Galtarvita hjá Þorbergi Þorbergssyni. Þaðan fór Lehrmann yfir á Suðurfirðina og var loks handtekinn þar af Bretum. Þá hafði hann verið í felum fyrir vestan í um það bil eitt ár. Í janúar 2016 var frumsýnd í bíó Paradís mynd Helga Felixsonar Njósnir, lygar og fjölskyldubönd en hún fjallar um þetta mál og handtökuna. (Þessar upplýsingar komu fram í útvarpsþættinum Speglinum á RÚV 26.janúar 2016.)

Óskar Aðalsteinn Guðjónsson starfaði í Galtarvita frá 1953-1977 eða í 24 ár og skrifaði fjölmargar bækur á þeim tíma. Samkvæmt honum er þar ein þéttasta álfabyggð landsins. Í viðtali við Gísla Sigurðsson sem birt er á vefnum Ferlir segir hann meðal annars: „Í Keflavíkurhól var heil sinfóníuhljómsveit. Slíka tóna hef ég aldrei heyrt og þeir voru ekki frá venjulegum hljóðfærum.“ Og hann heldur áfram: „Þar ríkir sú þögn, sem aldrei verður í fjölmenni, það er í henni hreyfing, ljúf og góð, sem helst má líkja við bylgjuhreyfingu túngresisins á lognkyrrum sumardegi. Og útnesjaþeyrinn á vorin; enginn lýsir honum svo viðhlýtandi sé.“

Fljótlega eftir að Ólafur Jónasson keypti jörðina Galtarvita bauð hann listamönnum að dvelja í vitavarðarhúsinu. Hljómsveitin Múm varð fyrst til að þiggja boðið árið 2001 og hafa meðlimir hennar dvalið reglulega í Galtarvita síðan. Platan Summer Make Good frá 2004 er samin og að mestu tekin þar upp. Sumarið 2008 dvaldi Gunnar Örn Tynes um mánaðartíma í vitanum ásamt fleirum sem unnu að styrktarplötu til að bjarga vitavarðarhúsunum. „Umhverfið við vitann er ólýsanlegt og það er erfitt að lýsa þeirri stemningu sem þar er, maður er bara ótrúlega einn í heiminum og gjörsamlega tímalaus,” sagði Gunnar um þá dvöl í viðtali á Vísi 25. ágúst 2008. Árið 2011 var haldin samsýning í Galtarvita undir nafninu Hljómur norðursins í tilefni þess að 10 ár voru liðin frá því að fyrstu listamennirnir dvöldu á staðnum. Fjöldi þekktra listamanna komu að sýningunni og hana sóttu á á annað hundrað gestir. Síðan hafa meðal annars Hrafnkell Sigurðsson, Ragnar Kjartansson, Elizabeth Peyton, Snorri Helgason og margir fleiri dvalið lengri eða skemmri tíma í Galtarvita og haldið sýningar í lok dvalarinnar.

Þann 24.maí 2017 héldu tónlistarmennirnir Snorri Helgason og Pétur Ben og hljómsveitin Tilbury tónleika á tónleikastaðnum Húrra í Reykjavík til styrktar uppbyggingu og viðhalds á Galtarvita.

Áætlað var að dvelja í Galtarvita dagana 10.-13.ágúst. Veðurspáin var ekki spennandi. Spáð var 7-9 stiga hita og rigningu með köflum. Þann 8.ágúst kom póstur frá einum úr hópnum með þær fréttir frá „Óla vita“ að veður-/strauma-/vindhorfur væru þannig að ganga þyrfti um sex tíma frá Skálavík, fara upp um 500 metra og styðjast við kaðla síðustu 100 metrana. Björgunarsveitin kæmi svo daginn eftir með þann farangur sem ekki hefði verið borinn á bakinu. Næsta dag hringdi Margrét og sagði fegin að veðurútlit hefði breyst og því gæti björgunarsveitin flutt okkur og farangurinn frá Suðureyri í Galtarvita síðdegis á fimmtudag. Á tilsettum degi var lagt af stað snemma úr bænum og hópurinn hitti Óla og konu hans á kaffihúsi á Ísafirði um þrjú leitið. Hann útskýrði ferðatilhögun og aðstæður og sagðist síðan hitta okkur við bátinn um sjö leitið. Við nutum þess að ganga um elstu bæjarhluta Ísafjarðar áður en haldið var til Suðureyrar. Þar gæddum við okkur á ljúffengum fiski í boði leiklistarhátíðarinnar Act Alone áður en við gölluðum okkur upp fyrir bátsferðina.

Þegar við nálguðumst land grillti í vitann og hús staðarinns á örlitlu undirlendi á háum bakka. Fyrir ofan var dalhvilft og snarbrött fjöllin til beggja handa. Þarna ætluðum við að dvelja næstu fjóra daga án vega- og símasambands. Báturinn myndi koma eitthvern tíma milli tólf- og fjögur á sunnudegi að sækja okkur. Það var gott að vera í regnfötunum þegar öslað var úr tuðrunni upp í grýtta fjöruna og eftir að hafa dregið og borið farangurinn upp brekkuna að húsunum (við sáum ekki hjólbörurnar fyrr en í lokin) tók smá tíma að finna öllum svefnpláss. Í tveimur herbergjum á efri hæðinni voru fern hjón, þrír gistu í stofunni niðri, ein í eldhúsinu og tvö í vitanum. Allir voru sáttir við sinn hlut. Það var liðið á kvöld þegar kvöldverður var framreiddur, gæða fiskibollur og kúskús. Sólin settist í hafið og ófáar ferðir voru farnar frá matarborðinu til að mynda sjónarspilið. Innkaupin höfðu verið rífleg og fólk ekki svangt eftir máltíðir á Ísafirði og Suðureyri og því nóg af fiskibollunum í morgunverði og nesti á meðan á dvölinni stóð.

„Á brúnum fjallsins Öskubaks runnum við saman við eilífðina þegar við horfðum í átt til Grænlands í vestur og til Straumnesfjalls, Gjögurs og Grænuhlíðar í norður.”

Næstu tvo daga var gengið um fjöll og dali í sól og blíðu. Við Sunndalstjörn gleymdum við stað og stund, tíndum okkur í einstaklega fjölbreyttum og gróskumiklum gróðrinum og fylgdumst með álftahjónum og ungunum þeirra. Við horfðum yfir í Skálavík frá Bakkaskarði, fannst brekkan og kaðalinn sem hvarf við brekkubrún ekki árennilegur og þökkuðum fyrir að hafa ekki þurft að fara þar upp. Á brúnum fjallsins Öskubaks runnum við saman við eilífðina þegar við horfðum í átt til Grænlands í vestur og til Straumnesfjalls, Gjögurs og Grænuhlíðar í norður. Um kvöldið þegar sólin var horfin í hafið urðu örlitlir skýjahnoðrar við sjóndeildarhringinn purpurarauðir. Ekkert varð af heimsókn á Göltinn því uppi á rennisléttri hásléttunni var svört þoka. Ganga seinni dagsins var því styttri en ætlað var. Þegar við héldum niður birti aftur og tími gafst til að týna ber og fara í sólbað. Skýjabakkinn á fjöllunum gufaði brátt alveg upp og enn gleymdum við stað og stund yfir sólarlaginu.

„Einangrunin, landslagið, gróðurinn, hafið, félagsskapurinn og veðrið myndaði samhljóm, álfasinfóníu sem nú átti sér bólstað innra með okkur.”

Á meðan bakaðar voru fölar pönnukökur úr 6 eggjum, (sigtuðu) hveiti og G-mjólk sá einn úr hópnum um að hita gufubaðið. Hann kom hlaupandi inn í eldhús með óskýra mynd af nokkrum konum í reykfylltum klefa og sagði „þær eru komnar inn“. Ekki voru allir sáttir við atburðarásina og hóstandi konurnar reknar út. Gufubaðið var fullt af reyk en þar er hættulegt að fara inn fyrr en eftir tveggja tíma kyndingu. Eftir þann tíma fengu þeir þolinmóðustu loksins að svitna vel. Áhöld voru um hvort kyndarinn hafi vitað hvað hann atti konunum út í! Það var kominn sunnudagsmorgun. Eftir að hafa pakkað, þrifið og flutt allan farangur niður í fjöru nutu menn veðurblíðunnar á hlaðinu. Allt var tilbúið á hádegi en báturinn átti að koma milli tólf og fjögur. Þessir dýrðardagar voru á enda, þeir höfðu liðið allt of fljótt. Ekkert okkar var tilbúið að yfirgefa staðinn. Við vorum eins og í álögum. Galtarviti hafði greypst djúft í sálirnar og tekið sér bólfestu þar. Einangrunin, landslagið, gróðurinn, hafið, félagsskapurinn og veðrið myndaði samhljóm, álfasinfóníu sem nú átti sér bólstað innra með okkur.