Um 90 manns hjóluðu Vesturgötuna í góðu veðri en nokkuð blautri braut á Vestfjörðum í dag.

Keppnin er 55 km löng og hjóla keppendur frá Þingeyri inn Kirkjubólsdal, yfir Álftamýrarheiði og niður í Fossdal þar sem hjólað er niður þangað til komið er  að gatnamótum og er þá beygt til hægri út fjörðinn. Þar er fljótlega komið í Stapadal  þar sem þeir hjóla sömu leið og keppendur í Vesturgötunni hlaupa.

Brautin þótti nokkuð mjúk og þung inn Kirkjubólsdalinn áður en farið er upp í Kvennaskarðið. Leiðin þaðan niður er brött og varhugaverð og höfðu björgunarsveitir komið sér fyrir víða á þeim kafla ef eitthvað færi úrskeiðis. Allt gekk þó að óskum og keppnin slysalaus. Mótshaldarar voru í skýjunum með framkvæmdina sem gekk öll að óskum. Það voru þau María Ögn Guðmundsdóttir og Ingvar Ómarsson sem voru fyrst kvenna og karla en þau tóku líka gull í Bláalónsþrautinni í sumar. Hér eru fleiri glæsilegar myndir frá Gústa ljósmyndara.

Brautin var vel blaut á köflum og þungfær. Allir frekar freknóttir þegar þeir komu í mark. En sáttir. Mynd: gusti.is

Góð stemning var í keppninni og sumir fáránlega hressir. Mynd: gusti.is