Sjósundið í þríþrautinni á Hlaupahátíðinni á Vestfjörðum heppnaðist gríðarvel í spegilsléttum sjónum við Ísafjarðarbæ í dag. Um 30 manns syntu 500 metra sund og nokkrir tóku 1500 metra sund. Keppnin er, sem fyrr segir, liður í þríþraut sem hægt er að skrá sig í á Hlaupahátíðinni en hún samanstendur af 500 metra sjósundi, 55 km fjallahjólreiðum og 24 km Vesturgötuhlaupi og er kláruð á þremur dögum.

Synt var frá aðstöðu Sæfara á Ísafirði og fylgdu bátar og kajakar sundfólkinu. Boðið var uppá sturtur eftir sundið og var almenn ánægja með framkvæmdina. Jakob Daníelsson var fyrstur í 500 metra sundinu og Karen Mist Arngeirsdóttir, fyrst kvenna og jafnframt önnur í heildina.

Við aðstöðu Sæfara. Sjórinn var spegilsléttur og veður hið fínasta.