Miðað við veðurþáttaspánna hjá Veðurstofunni og Belging.is stefnir í prýðilegt hlaupaveður á Laugaveginum á morgun. Mildur vindur úr suðvestri og að mestu úrkomulaust alla leið. Gæti dropað eitthvað í Landmannalaugum og þar í kring þegar hlaupið hefst en það minnkar með morgninum. Það verður 6 til 7 stiga hiti í Landmannalaugum en gæti slegið í 12 gráður á söndunum. Þó svo að við myndum alltaf mæla með því að taka með jakka í Laugavegshlaup þá er ágætis útlit fyrir að hægt verði að hlaupa á bolnum á morgun, en það verður þoka og rok í kringum Hrafntinnusker og snjór auðvitað enda liggur svæðið hátt. Það gæti sést í sól þegar Emstrum sleppir og Húsadalur nálgast.

Þetta eru gleðifréttir fyrir þá sem taka þátt og sérstaklega þá sem hlupu á síðasta ári en þá var gríðarlegur mótvindur á Mælifellssandi og hlauparar vel eftir sig að lokinni þeirri eldskírn. Við segjum góða skemmtun og gangi ykkur vel! Þetta er eitt skemmtilegasta hlaup veraldar.