Um 160 manns tóku þátt í Snæfellsjökulshlaupinu, sem fór fram í áttunda sinn á laugardaginn. Fínasta veður var þennan dag, milt og gott, en eins og oft er í þessu hlaupi er veðrið alls konar. Sólin skein á hlaupara fyrri hluta leiðarinnar en nokkur mikil þoka var þar sem leiðin liggur hæst.

Ragnheiður E. Stefánsdóttir skrifar.

Hlaupið er frá Arnarstapa yfir Jökulháls og endað í Ólafsvík. Leiðin liggur að mestu á malarvegi og eru fyrstu 9 km upp í móti og því nokkuð um brekkur sem taka hressilega í þar til um 700 metra hæð er náð.

Efst er hlaupið snjó. Hann var blautur og þungur þetta árið.

Efsti hluti leiðarinnar er oftast þakinn snjó og var sá kafli sérstaklega langur í ár eða um 5 km. Snjórinn var þungur og blautur og var því mikil gleði þegar þeim kafla var lokið og leiðin lá niður í móti.

Þegar komið er niður hálsinn og á þjóðveginn til Ólafsvíkur eru einungis 2 km í mark og ætti það því í raun ekki að vera mikið verkefni. En það er með ólíkindum hvað þessir síðustu 2 km reynast mörgum erfiðir, enda þreyta komin í lærin eftir brattann. Það var því notalegt að koma í mark þar sem hægt var að kæla þreytta leggi í bæjarlæknum og fá dýrindis fiskisúpu, brauð og aðrar góðar veitingar.

Snjórinn í hlaupinu, ásamt ýmsu öðru í hlaupinu, gerir það að verkum að Snæfellsjökulshlaupið er sérstakega gott æfingahlaup fyrir Laugavegshlaupið og var greinilegt að margir þátttakendur voru einnig að fara að hlaupa Laugaveginn síðar í sumar.

Það er alltaf eitthvað sérstaklega spennandi við að hlaupa Snæfellsjökulshlaupið. Kannski er það spennan við að hlaupa svona nálægt jöklinum sem talinn er búa yfir dulrænum kröftum.  Alla vega virtust hlauparar fullir af orku og gleði þegar í markið var komið og hafa e.t.v. fengið auka orku frá jöklinum.

Úrslit urðu þau, að í fyrsta sæti karla varð Ingvi Hjart­ar­son en hann hljóp á tím­an­um 1:37:03 og í kvenna­flokki sigraði Helena Ólafs­dótt­ir á tím­an­um 2:01:35.

Margir nota Snæfellsjökulshlaupið til að æfa sig fyrir Laugavegshlaupið.