Þrátt fyrir rigningu og rok mætti urmull af fólki í Laugardalinn í gær til þess að taka þátt í Miðnæturhlaupi Suzuki, sem fór fram í 26.sinn.  Alls voru 2857 manns skráðir til þátttöku, þar af um 1200 erlendir hlauparar frá 46 löndum.

Í raun hentaði veðrið prýðilega til hlaupa. Brakandi ferskt og hárrétt hitastig. Vindurinn svalur.

Keppendur að koma í mark.

Eitt brautarmet var sett. Elín Edda Sigurðardóttir setti það í 10 km hlaupi kvenna, en hún kom í mark á tímanum 36:19.

Arnar Pétursson sigraði í hálfmaraþoni karla eftir mikið kapphlaup við Marius Skeide Ruth frá Noregi. Tími Arnars, 01:09:59, er sá þriðji besti frá upphafi í þessu hlaupi.

Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í hálfmaraþoni kvenna, á 01:23:51, aðeins fimm sekúndum frá brautarmetinu. Sigrún Sigurðardóttir kom önnur og Anna Karen Jónsdóttir þriðja.

Í 10 km hlaupi kvenna sigraði eins og áður segir Elín Edda. Á eftir henni kom Fionna Fallon frá Bandaríkjunum og svo Agnes Kristjánsdóttir.  Rimvydas Alminas frá Litháen sigraði í flokka karla á tímanum 33:07. Jaco Halloran frá Kanada varð í öðru sæti og Alan Hume frá Bretlandi í því þriðja.

Þórólfur Ingi Þórsson tók 5km hlaupið, á tímanum 16:20, en rétt á eftir kom Vilhjálmur Þór Svansson. Íris Anna Skúladóttir sigraði í flokka kvenna á 19:25. Vaka Njálsdóttir kom á hæla hennar.

Heildarúrslit hlaupsins má finna með því að smella hér.  Myndir hér á Facebook.

Verðlaunahafar í 10 km hlaupi kvenna. Elín Edda setti brautarmet.