Efnt verður skemmtilegs viðburðar í Vestmannaeyjum á laugardaginn (23. júní). Viðburðurinn ber yfirskriftina Sjö tinda gangan og hefst kl. 12 í Klaufinni við Stórhöfða.

Byrjað verður á því að ganga upp á Stórhöfða, þaðan verður farið beint upp hjá Ræningjatöngum og hryggurinn allur genginn að og yfir Sæfell og komið niður bak við flugbrautina. Þá verður farið upp á Helgafell, svo næst Eldfell og þaðan á Heimaklett og að lokum upp Há-há og Molda yfir Eggjarnar og niður Molda. Alls eru þetta um 20 kílómetrar.

Þetta er fjáröflunarviðburður. Tvö þúsund krónur kostar að taka þátt og rennur ágóðinn til krabbameinsvarna í Eyjum. Frítt er fyrir börn yngri en 12 ára.

Umgjörð göngunnar verður ákaflega frjálsleg. Hægt er að taka hluta af henni, og sleppa öðrum. Eins er engin skylda að ganga. Fólk má hlaupa.

Svona ganga í Eyjum er upplögð sem dagsferð af meginlandinu. Hægt er að taka Herjólf út um morguninn, og til baka eftir göngu um kvöldið.

Fyrir áhugasama er ekki vitlaust að skoða Úti-þáttinn sem gerður var um það þegar hlaupið var í Eyjum með Bjarna Benediktssyni og Elísabetu Margeirsdóttur í Eyjum síðasta sumar.

Leið Bjarna og Betu var aðeins öðruvísi. Hér er nýleg leiðarlýsing á Sjö tinda göngunni frá Katrínu Laufey, Eyjakonu og hlaupara: