Það kepptu fleiri um helgina en íslenska landsliðið í fótbolta. Eitt skemmtilegast utanvegahlaup landsins, Gullspretturinn, fór fram að Laugarvatni í gærmorgun, 16.júní.

Keppendur úr höfuðborginni keyrðu út úr bænun í 5 stiga hita og grenjandi rigningu og leist fæstum á blikuna. Þegar komið var að Laugarvatni hafði hitinn hins vegar náð 10 stigum og sást til sólar.

Það var mikil stemmning í startinu. Margir voru mættir í íslenska landsliðsbúningnum eða fánalitunum og að sjálfsögðu var byrjað á því að taka víkingaklappið.

Gullspretturinn er frábært hlaup fyrir allan aldur.

Brautin í Gullsprettinum er 8,5 km og liggur hringinn í kringum vatnið. Hún er gríðarlega fjölbreytt og býður upp á margskonar hindranir. Fyrst er hlaupið eftir þröngum stígum í kjarri en fljótlega taka við mýrar og drulla sem geta reynst þungar yfirferðar. Þá þarf að vaða yfir árnar sem renna í Laugarvatn sem eru nokkrar og geta verið djúpar og straumþungar. Eins getur það kostað dálítið klifur að komast upp á bakkann hinum megin. Þegar líður á seinni hluta hlaupsins er hlaupið í sandinum við vatnið og aftur taka við þröngir stígar í kjarri áður en lokaspretturinn er tekinn í sandinum fyrir neðan Fontana Spa.

Gullspretturinn þykir ekki síður skemmtilegt hlaup fyrir stálpuð börn þar sem vegalengdin er ekki það mikil og hlaupið sérstaklega fjölbreytt.

Öll umgjörðin í kringum hlaupið er einstaklega heimilisleg en um leið glæsileg. Númerin eru heimatilbúin. Kortið af hlaupinu sem lýsir leiðinni er einnig heimagert sem og hraðahólfs merkingarnar. Veitingarnar eftir hlaupið eru einstaklega glæsilegar, hverabakað rúgbrauð og silungur og pilsner. Virkilega flott úrdráttarverðaun eru á hverju ári í Gullsprettingum og allir fá aðgang að Fontana Spa eftir hlaupið.

Þá rennur allur ágóði af hlaupinu til góðgerðarmála eða annarra samfélagsverkefna og í ár verður fé lagt í að lagfæra göngustíga við bakka Laugarvatns.

Allur umbúnaður hlaupsins þykir hinn besti, ekki síst veitingarnar á eftir.