„Hlaupið var mjög krefjandi andlega vegna þess hve margar endurtekningar þetta eru. Þær eru 11 talsins. Það er ansi erfitt að vera orðinn þreyttur eftir fjórar Esjur en þurfa samt að „hanga á því“ síðustu sjö Esjurnar.“

Svo mælir Þorbergur Ingi Jónsson sigurvegari í Mt. Esja Ultra Xtreme hlaupinu sem fór fram um helgina. Þorbergur bætti metið um rúmlega klukkustund. Hann hjóp vegalengdina, 11 sinnum upp að Steini og niður, á tímanum 09:39:49.

Okkur áskotnaðist upptaka af Þorbergi að fara upp í ellefta skipið. Glöggir hlustendur heyra þar hlaupahetjuna bregða fyrir sig kaldhæðni:

„Þetta er svo létt, maður,“ segir hann.

Hlaupið hófst við fínar aðstæður, í logni og góðu hlaupaveðri. Þegar líða tók á hlaupið fór hins vegar að blása efst og rigna. „En það voru engu að síður fínar aðstæður,“ segir Þorbergur. „Smá drulla hér og þar sem gerir þetta bara skemmtilegra.“

„Ég náði að halda vel á spöðunum allan tímann og pressa alveg út í gegnum hlaupið, þannig að það kom í rauninni aldrei neinn hræðilegur kafli hjá mér. Orkuinntaka gekk mjög vel, 2x GU gel á hverjum hring og Snickers og hnetusmjörssamlokur til skiptis annan hvern hring.“

Næst á dagskrá hjá Þorbergi er að fara í 10 daga æfingabúðir til Chamonix í Frakklandi um miðjan júlí og taka þátt í 65 km hlaupi. Sú ferð verður liður í undirbúningi fyrir UTMB sem er 170 kílómetra hlaup með 10000 metra hækkun í kringum Mont Blanc.

Við fylgjumst með því.

Annars er það af Mt. Esja Ultra hlaupinu að frétta að alls kláruðu fimm manns, allt karlar, Xtreme hlaupið – hið lengsta, en 13 manns kláruðu maraþonið. Það sigraði Benoit Branger á tímanum 05:45:13.  Sjötíu og fjórir hlauparar tóku svo þátt í Mt. Esja Ultra II, sem er tvisvar sinnum upp og niður að Steini. Það sigraði Arnar Pétursson á tímanum 01:24:04. YiOu Wang frá Bandaríkjunum varð fyrst kvenna á tímanum 01:37:04.