Það er full ástæða til að hvetja útivistarfólk og listunnendur til að fjölmenna á nýtt leikrit Hörpu Arnardóttur sem flutt er á Listahátíð í Reykjavík. Verkið er hljóðverk og leikhúsið er yurt-tjald, eða hirðingjatjald. Heitið er Bláklukkur fyrir háttinn.

Verkið er flutt úti í náttúrunni á fjórum mismunandi stöðum á landinu, fjarri mannabyggð. Gestir mæta á fyrirfram gefinn stað og fara í stutta göngu (20-30 mínútur) í fylgd leiðsögukonu þar til komið er að tjaldinu.

Leikarar eru Kristbjörg Kjeld, Ingvar E. Sigurðsson og Harpa Arnardóttir.

Fyrir sýningu lögðust frumsýningargestir í mosann og slökuðu.

Fyrsta sýningin var núna á miðvikudagskvöld, á Uxahryggjaleið fyrir ofan Þingvelli. Gestir höfðu á orði að ekki bara væri um fyrirtaks listviðburð að ræða heldur líka ótrúlega róandi lífsreynslu, kærkomið tækifæri til að kúpla sig út úr erlinum, hugleiða og njóta náttúrunnar.

Uppselt var á frumsýningu og það fer hver að verða síðastur að fá miða á þær sýningar sem eftir eru. Fimm sýningar fara fram á Uxahryggjum, svo þrjár á Snæfellsnesi, tvær á Mývatnsöræfum og tvær á Jökuldalsheiði.