Um helgina fjölmennir fjallaskíðafólk í Kerlingarfjöll til að taka þátt í fjallaskíðamótinu Njóta eða Þjóta því gamlar skíðakempur hafa nú tekið sig saman um að endurvekja Kerlingarfjöllin sem skíðaparadís með áherslu á fjallaskíði.

„Kerlingarfjöllin eru einstök sumarskíðaparadís með háum tindum og rjúkandi hverum allt um kring“, segir Ásdís Olsen, einn aðstandenda fjallskíðamótsins um helgina.  „Kerlingarfjöllin eiga líka stóran sess í hjörtum margra okkar sem fæddumst seint á síðustu öld og því tímabært að rifja upp Kerlingarfjallastemninguna og blása til kvöldvöku og dansleiks með Eyjólfi Krisjánssyni og fleirum sem stóðu vaktina í gamla daga.“  

Njóta eða þjóta fjallskíðamótið hefst í Kerlingarfjöllum á föstudag með kvöldverði og miðnæturgöngu á Mæni, með Örnólfi Valdimarssyni, lækni og skíðakempu, sem jafnframt er sonur hins merka frumkvöðuls Skíðaskólans í Kerlingarfjöllum, Valdimars Örnólfssonar. Fjallskíðamótið sjálft fer svo fram á laugardag og um kvöldið verður kvöldvaka í anda gömlu góðu daganna.

Í Kerlingarfjöllum er aðstaða öll til fyrirmyndar og húsin hafa verið endurnýjuð og nýr svefnskáli reistur. Þeir sem áhuga hafa á að vera með í fjallskíðamótinu geta kynnt sér málið á síðunni fjallaskidamot.is og á Fésbókarsíðu viðburðarins.