Þorvaldur V. Þórsson, Olli, lætur ekki staðar numið í viðureign sinni við tindana í Esjufjöllum. Við greindum frá því á dögunum að Olli og félagar náðu að toppa bæði Snók og Miðtind Fossadalstinda. Það var afrek. Um helgina var tveimur tindum bætt við, í frábæru veðri.

Á toppi hins nýnefnda Skips.

Fyrst klifu þeir félagar Helgi Borg Jóhannsson, Jón Gunnar Þorsteinsson og Olli tind sem er rétt fyrir sunnan Snók.  Sá tindur reyndist vera þrjár klifurspannir upp á topp. „Þetta var frekar auðvelt snjóklifur en það mátti ekki gera nein mistök því tryggingar voru bæði lélegar og fáar.“

Olli er ekki viss um hvort þessi tindur hafi verið toppaður áður. Hann virðist líka ónefndur. „Við vorum búnir að nefna hann Hátind Vesturbjarga en hann er ekki hátindur Vesturbjarga þannig að við þurfum að finna betra nafn,“ segir Olli.  „Snókur þýðir stafn á skipi. Mér datt því í hug að nefna þennan tind Skipið þangað til annað örnefni kemur í ljós. Ef það kemur þá í ljós.“

Fossadalstindar er nafn sem varð til í síðustu frétt af Olla hér á vertuuti.is. Það virðist halda. Í kjölfarið á Skipinu ákvað Olli að fara einn á Suðurtind Fossadalstinda. „Ég er nú ekki stoltur af því,“ segir hann. „Ég tók smá áhættu.“

Allt blessaðist það. Þetta er síðasta ferðin í Esjufjöll í bili segir Olli.

 

Hér sést klifurlínan upp á Skip, og maður í hringnum til samanburðar.

 

Leiðin upp á Suðurtind Fossadalstinda.

 

Svona liggur landslagið. Suðurtindur til hægri við Snók, Skip til vinstri.