Alex Honnold og Tommy Caldwell, einir fremstu klifrarar heims, náðu í gærmorgun þeim einstæða árangri að klífa El Capitan í Yosemite dalnum í Kaliforníu á tveimur klukkutímum og einni mínútu. Þeir stefndu að því að ljúka klifrinu á undir tveimur tímum en lentu í línuflækjum ofarlega á veggnum sem tafði þá um nokkrar mínútur og kostaði þá markmiðið. Fimm dögum áður bættu þeir fyrra met þegar þeir luku leiðinni á tveimur tímum og 10 mínútum. Klifurleiðin er rúmlega 900 metrar.

Á laugardag féllu tveir mjög reyndir Yosemite klifrarar til bana á Salathé veggnum sem tengist El Capitan. Þeir notuðu samskonar hraðklifuraðferð og þeir Honnold og Caldwell. Klifrararnir eru þá fastir saman með línu og klifra báðir á sama tíma en nota mjög lítið af tryggingartólum. Ef annar dettur er vonin sú að tryggingarnar haldi báðum.

Vanalega er El Capitan klifinn á 4-5 dögum.