Það er verið að gera skíðin klár í bakgörðum húsa. Við Hótel Ísafjörð er líka verið að preppa skíði í gámi á bílastæðinu.

Róbert Marshall skrifar.

Verslunin Craftsport er eins og á Þorláksmessu. Þar eru skíði í tugatali vöxuð, klístruð og burstuð í samræmi við snjótegundina akkúrat núna og hitastig í mismunandi hæð. Á Húsinu, þar sem fást bestu borgarar bæjarins, er jöfnum höndum töluð franska, enska, þýska eða eitthvert norrænu tungumálana. Grautur af ógreinanlegum tungumálum er hrærður um allan Ísafjörð. Rútur ferja framandlega útlítandi fólk með skíðatöskur til og frá miðbænum.

Um allan bæ er fólk með gönguskíði.

Á strætóstoppi eru næstum helmingur þeirra sem bíða eftir fari, standandi með skíðin sér við hlið.

Það er Fossavatnsganga í uppsiglingu. Þetta minnir mig á aðdraganda Þjóðhátíðar í Vestmanneyjum nema hvað að formerkin eru allt önnur. En eins og þar er lífsgleðin allsráðandi og hlutverk heimamanna í föstum skorðum. Þetta hefur verið gert áður og fólk veit hvað þarf að gera til að allt gangi upp. 

Gerður Steinþórsdóttir kemur í mark. 1. verðlaun í aldursflokknum 60+. Gerður hefur langa reynslu en sagði keppnina á laugardag einstaka.

Og núna um helgina gekk allt upp. Guð minn góður. Þetta var fallegt og fullkomið í fyrra þegar sól og blíða tók á móti einbeittu skíðagöngufólki, reiðubúnu til að leggja á sig að skíða á milli Reykjavíkur og Selfoss. Núna á laugardaginn var þetta enn betra. Við skíðuðum inn á milli fjallanna ofan við Ísafjörð í fullkomnu logni, nýföllnum, drifhvítum snjó svo björtum að maður er glataður án sólgleraugna af dekkstu sort. Fólk kemur í mark skælbrosandi, sólbrennt og hamingjusamt. Hjón og elskendur kyssast, vinir og ókunnugir faðmast. Fólk sem var samferða í göngunni heilsast og þakkar samfylgdina. Maður verður svo ánægður með sig eftir svona afrek. Og veröldin verður svo fögur þegar allir eru svona glaðir. 

Framandlegt fólk í útivistarklæðnaði ferðast í flokkum um Ísafjörð þessa daga.

Fossavatnsgangan er orðin að svo miklu meira en þessari einu skíðagöngu. Það eru æfingabúðir nær allar helgar yfir veturinn. Nú er keppt í mismunandi formum, lengdum og aldurshópum frá fimmtudegi til laugardags. Það er kökuhlaðborð í Íþróttahúsinu eftir keppni og sjávarréttarhlaðborð og dansleikur um kvöldið. Það er dansað til að endurheimta fyrri liðleika. Sumir dansa til að gleyma. Þeir hörðustu hlaupa nokkra kílómetra daginn eftir. Þetta er almenningsíþróttamót eins og það gerist best og skemmtilegast. Takk fyrir mig Ísafjörður, ég kem aftur að ári. Ég veit að ég kemst aðeins hraðar en maðurinn í speglinum þó hann hafi staðið sig fjári vel á laugardaginn. 

Alls staðar gerir fólk að skíðum sínum í aðdraganda keppni.