Síðasta helgin í apríl hefur jafnan verið álitin síðasta helgi skíðaíþrótta á Íslandi. Fossavatnskeppnin á Ísafirði er hinn veglegi endapunktur á vertíðinni.

Að vísu hefur uppgangur fjallaskíðamennsku breytt þessu svolítið á undanförnum árum, en tímabil fjallaskíðanna er langt í frá liðið.

En hvað um það. Við höldum okkur við það að helgin sem framundan er sé tímamótahelgi. Hefðbundnar skíðaíþróttir, göngu- og svig, eru kvaddar að sinni og önnur sport taka við.

Hundruðir Íslendinga og útlendinga streyma nú til Ísafjarðar. Fossavatnskeppnin er orðinn ein stærsti íþróttaviðburðinn hér á landi. Það verður mikið fjör í bænum.

Í Hlíðarfjalli ætla Norðanmenn líka að kveðja skíðavertíðina með veglegum hætti. Þar verður sungið Úti alla nóttina, þegar opið verður í fjallinu frá kl. 14:00 á föstudegi til kl. 16:00 á laugardegi.

Að sama skapi eru sumarsportin að byrja:

Í dag, fimmtudag, fer fram fyrsta fjallahjólakeppni sumarsins. Það er Morgunblaðshringurinn. Keppnin hefst kl. 18:00 í Hádegismóum.

Í Vestmannaeyjum ætlar fólk síðan að hnýta á sig hlaupaskóna á laugardaginn. Þar verður hlaupinn hinn 20 km langi Heimaeyjarhringur – The Puffin Run.  Ekki vitlaust að gera sér góða dagsferð úr borginni.

Svo eru viðburðir á vegum útivistarfélaganna:

Hjá Útivist verður efnt til göngu um Hvanneyri og Andakílsá, á laugardaginn.

Hjá FÍ verður gengið á Stardalshnúk í Mosfellsdal á laugardaginn. Gangan er eins konar skyndiákvörðun, en hún er hluti af verkefninu Gengið á góða spá, sem gengur út á það að ákveða göngur með skömmum fyrirvara, og taka þá mið af spánni.

En hún er jú ágæt fyrir helgina. Einkum laugardaginn.

Og þá ætlar líka Ferðafélag barnanna á vegum FÍ að skoða furður fjörunnar í Gróttu. Allir mega koma.