Það lítur út fyrir að veðrið muni leika við þátttakendur í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði um helgina.

Þetta eru góðar fréttir því brautin liggur hátt og veðurfar hefur mjög mikil áhrif á keppnina. Miðað við spá gæti snjóað svolítið í brautina fyrir helgi og þá blandast saman nýr og gamall snjór. Fyrir þá sem nota áburð gæti þetta þýtt að nota þarf bauk yfir klísturáburð en ef snjókoman verður mikil þá dugar líklega bara baukur. Að sögn Bobba í Craftsport á Ísafirði var feikna klísturfæri í brautinni í gær: „Þetta var hart og ekta klísturfæri og svakalegt rennsli,“ segir Bobbi. Hann segir að það sé stanslaust traffík í búðinni hjá sér en það sé óvenjulegt að svo margir séu í bænum svo snemma. Segja má að keppnin byrji á morgun þegar fram fer 25 kílómetra skautakeppni í brautinni. Við mælum með að þátttakendur nái sér í racemap appið en á því er hægt að finna keppnina, setja númerið sitt inn og þá geta þeir sem vilja fylgst með hvar maður er staddur hverju sinni í keppninni.

Hér er umfjöllun um Fossavatnið í fyrra og stemmninguna í bænum.