Kristbjörn Róbert Sigurjónsson, Bobbi, er eins og sjálfstæð stofnun innan Fossavatnsgöngunnar fyrir utan það að líta út fyrir að hafa verið hogginn útúr berginu samtímis því að einhver jarðgöngin voru opnuð fyrir vestan.

Bobbi í CraftSport

Þessi grjótharði nagli á og rekur verslunina CraftSport í Ísafjarðarbæ og selur gönguskíðafólki græjur og dót af áður óséðri ástríðu. Hann nálgast sölumennskuna af sama krafti og þegar hann tekur þátt í íþróttamótum. Sumsé af öllu afli. Hann hefur í rúman áratug flutt inn vörur frá Craft sem eru mörgum hlaupurum að góðu kunnar og jafnframt er hann umboðsmaður Madshus skíða sem njóta mikilla vinsælda innan skíðagöngugeirans. Gjöf en ekki gjald er frasi sem gjarnan heyrist af vörum Bobba þegar hann lýsir verðlagi við forvitna viðskiptavini.

Bobbi byrjaði á gönguskíðum fyrir um 20 árum þegar hann fór að fara með dóttur sína á æfingar. „Ég var fyrst alltaf í lyftingum og síðan í þolfimi og spinning. Ég kenndi þolfimi hér vestra einn vetur í gamla daga. Við búum svo vel hér á Ísafirði að það eru margir sem stunda gönguskíðin og á öllum aldri. Þegar ég byrjaði hafði tengdafaðir minn stundað þetta í mörg ár. Ef þú býrð á Ísafirði þá verður þú að koma á gönguskíði.“

„Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að keppa.“

Hann segir það einstaklega hentugt fyrir fólk sem hefur áhuga á þolíþróttum að byrja á gönguskíðunum. „Það er bara þannig að þegar maður byrjar þá vill maður alltaf bæta sig, bæta þolið, bæta getuna og svo líður manni alltaf svo vel eftir útiveruna.“ En hefur hann alltaf verið svona mikill keppnismaður? „Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að keppa og auðvitað er markmiðið alltaf hátt hvort sem innistæða er fyrir því eður ei en það gerir bara hlutina áhugaverðari og skemmtilegri.“

Eitt leiddi af öðru. Vegna gönguskíðanna fékk Bobbi áhuga á þolíþróttum sem svo varð til þess að hann ákvað að ljúka við járnkarls-áskorunina en hún samanstendur af 3.8 kílómetra löngu sundi, 180 kílómetra hjólalegg og lýkur með heilu maraþoni. „Járnkarlinn er alveg einstaklega skemmtilegur viðburður og ég hef aldrei fundið eins mikið adrenalínkikk úr neinni keppni eins og honum.  Síðustu 5 mínúturnar eru stanslaus gæsahúð og gleði.“ Hann segir það markmið sitt að klára þrjá járnkarla og er búinn með tvo. „Þann þriðja geri ég ef ég kemst inní Norseman í Noregi en ég hef ekki komist að í happdrættinu.“

Það dylst engum sem kemur í CraftSport á Ísafirði að Bobbi er öflugur sölumaður. En hann talar líka af mikill þekkingu. „Það er skylda hvers sölumanns að reyna að aðstoða alla eftir bestu getu, veita persónulega og góða þjónustu. Við höfum lagt okkur niður við það að ráðleggja fólki heilt í sambandi við gönguskíðin, ekki að fólk kaupi hvaða vitleysu sem er eins og hefur verið reyndin með margar verslanir í Reykjavík. Við tökum norsku og sænsku leiðina sem er sú að þú færð ekki skíði hjá okkur nema við teljum þau passa fyrir þig. Enda er þetta eina sérverslunin með gönguskíði og fatnað á Íslandi.“