Það er slatti að gerast í útivist á næstu dögum.

En áður en við rekjum það allt saman þá sýnist okkur hjá Úti að helgin sé að leggja sig svona:

Við sjáum ekki betur á spánni en að næstu dagar verði fínir til útivistar. Svolítil úrkoma á Suðurlandi samt. Ef við færum á skíði um helgina myndum við setja stefnuna á Botnssúlur, Snæfellsjökul eða Helgrindur.

En hér koma nokkrir skipulagðir viðburðir sem ekki er leiðinlegt að taka þátt í:

Víðavangshlaup ÍR fer fram, eins og alltaf, á sumardaginn fyrsta. Á morgun semsagt. Hlaupið er um miðborg Reykjavíkur. Ræst við Tryggvagötu kl. 12:00.

Á sumardaginn fyrsta hefjast líka Andrésar Andar leikarnir fyrir norðan. Í kringum þá er alltaf mikið fjör.

Af Hlíðarfjalli er það annars að frétta að þar uppgötvaði Eiki Helgason brettasnillingur og félagar hans þennan stað fyrir nokkrum dögum:

En áfram með smjörið:

Ferðafélag barnanna, hjá FÍ, mun skoða fuglalíf undir leiðsögn sérfræðinga í Grafarvogi á laugardaginn. Hist verður við Grafarvogskirkju kl. 13:00. Þessi viðburður er öllum opinn.

Á sunnudaginn ætlar svo Ferðafélag unga fólksins (18-25 ára), hjá FÍ, að ganga á Akrafjall. Áætlaður göngutími er 2-3 klst og gangan er ekki mjög krefjandi. Þátttaka er ókeypis og öllum opin.

Hjá Útivist verður það að gerast, að hin sívinsæla vorferð Jeppadeildarinnar verður farin á Vatnajökul.

Þá verður einnig hjólað á höfuðborgarsvæðinu, um Hafravatn og Heiðmörk, á laugardaginn. Ekkert þátttökugjald og allir velkomnir. Á sunnudaginn verður svo gengin Lágaskarðsleið að Raufarhólshelli á sunnudaginn.

Ef ekki ganga, þá hlaupa:

Vormaraþon félags maraþonhlaupara fer fram á laugardaginn í Reykjavík. Þetta er alvöru stöff.

Og svo er það þetta ógnarfagra náttúruhlaup á laugardaginn líka: Hjörleifshöfðahlaupið.

Og væntanlega verða einhverjir gallharðir Íslendingar í Londonmaraþoninu á sunnudaginn líka.

Þar höfum við það. Nóg að gera úti á næstu dögum.

Þá er bara að muna að vera inni á sunnudagskvöld, að horfa á Úti, á RÚV. Þar verður fylgst með fjórum konum reyna sig við Landvættaþrautirnar fjórar. Þið viljið ekki missa af því.