Steiney Skúladóttir var einn gesta okkar Brynhildar Ólafsdóttur í sjónvarpsþættinum Úti sem sýndur er á RÚV núna í vor. Hún kom með okkur í kajakróður um Langasjó og stóð sig frábærlega.

Hún var líka, eins og vinkona hennar, Saga Garðarsdóttir, stórskemmtilegur viðmælandi. Hún orðaði einkar vel í viðtali sem sýnt var í þættinum svolítið sem öllu útivistarfólki er vel kunnugt um en er kannski of vel varðveitt leyndarmál. Það er ótrúlega gaman úti ef maður er vel klæddur og á hreyfingu. Steineyju fannst aldrei gaman úti þegar hún var krakki vegna þess að henni var alltaf kalt.  

„Svolítið sem öllu útivistarfólki er vel kunnugt um en er kannski of vel varðveitt leyndarmál.“

Ég þekki þessa tilfinningu sjálfur því þó ég hafi verið í skátunum frá barnæsku og framá unglingsaldur þá var ég alltaf svolítið kulvís. Það var oftast smá hrollur í mér þegar ég var úti. Uppúr þrítugu fór ég að stunda útivistina af mikilli alvöru og það kom mér mjög í opna skjöldu í ferð um hálendið fyrir nokkrum árum þegar kona sem var þátttakandi í ferð sem ég stýrði hafði orð á því að sér finndist eins og ég gæti verið í einu lagi minna af fötum en aðrir en samt ekki verið kalt.  

Ég fann og sá að þetta var rétt hjá henni. Ég hafði vanist kuldanum. Ég las síðar að brautryðjendur í alpaklifri stunduðu það í byrjun síðustu aldar að sofa úti á svölum um nætur til að venja sig kulda. Svo að þeir ættu auðveldar með að þola að bíða af sér nóttina í snjóholu eða gjótu og gætu svo haldið klifrinu áfram daginn eftir. 

Þetta verður hverjum manni augljóst sem fer að stunda sjósund. Í fyrstu er gríðarlega erfitt að fara út á sundskýlunni og ganga að fjöruborðinu og þegar maður fer svo útí og lætur sig sökkva upp að hálsi finnst manni mjög greinilegt að hinsta stundin sé runnin upp. Þetta á auðvitað sérstaklega við á veturna þegar hiti sjávar fer jafnvel niður fyrir eina gráðu. Í næstu ferð er þetta aðeins auðveldara og svo koll af kolli. 

„Í fyrstu er gríðarlega erfitt að fara út á sundskýlunni og ganga að fjöruborðinu og þegar maður fer svo útí og lætur sig sökkva upp að hálsi finnst manni mjög greinilegt að hinsta stundin sé runnin upp.“

Á námskeiði í fyrstu hjálp í óbyggðum, sem flestir fararstjórar og leiðsögumenn vilja vera með skírteini úr, er kennt að lendi maður í köldu vatni þá hafi maður um það bil eina mínútu til þess að ná stjórn á önduninni. Hætta að ofanda. Eftir það hefur maður um það bil 10 mínútur til að gera eitthvað af viti. Koma sér uppúr eða á stað þar sem líklegt er að manni verið bjargað. Allt að klukkutími getur svo liðið þar til ofkæling gerir vart við sig. Þetta fer auðvitað eftir kuldastigi en punkturinn er þessi: maður þolir mun meiri kulda en maður ætlar. Kuldi venst. 

Eftir að ég fór að stunda sjósund að jafnaði hef ég tekið eftir því að mér verður ekki eins kalt þegar ég fer framúr á morgnanna. Við hjónin sofum gjarnan með glugga galopna og svalahurðina líka þegar hitna fer. Ættingjar okkar koma sumir hverjir með inniskó og lopapeysur í heimsókn til okkar. Heimili okkar er svalara en gengur og gerist. 

Mörgum finnst kuldi óþægilegur og stundar þess vegna ekki útivist. Ég skil það vel. Sumu fólki hryllir við hugmyndinni um að ganga á fjöll að vetri til. Hægt er að segja að þægindarammi slíks fólks sé býsna lítill en rammann má stækka sé vilji fyrir hendi. Fyrst er að klæða sig í ull. Þegar kemur að innsta laginu þá er staðan bara einfaldlega þessi: allt sem ekki er úr ull, er bull. Svo er að koma sér af stað. Eftir fimm mínútur á hreyfingu hættir manni að vera kalt. Það á við um göngu, hlaup, hjólreiðar, sjósund og allt í náttúru Íslands. Hreyfing verður hiti. 

„Eina vandamálið var að ég var staddur í tveggja mánaða bakpokaferðalagi um Tæland og þar er bara ekki hægt að hlaupa fyrir hita.“

Við eigum stórkostlegt land til að hreyfa sig í. Fyrir 4 árum slasaðist ég illa. Gat lítið hreyft mig í bataferlinu en að sex mánuðum liðnum frá slysinu fór ég aftur að hlaupa. Stutta og rólega hlaupatúra. Eina vandamálið var að ég var staddur í tveggja mánaða bakpokaferðalagi um Tæland og þar er bara ekki hægt að hlaupa fyrir hita. Þar er varla hægt að fara í gönguferðir. Stór hluti heimsins glímir við þetta vandamál: suma mánuði er einfaldlega of heitt til að hægt sé að gera nokkurn skapaðan hlut. Loftslagið á Íslandi er fullkomið fyrir hreyfinu. 

Góð regla, t.d. í hlaupum, er að vera aðeins kalt þegar maður leggur af stað. Það sama á við um fjallgöngur. Það að leggja í hann með smá hroll í sér tryggir að maður svitnar ekki of mikið. Það er óþægilegt þegar sest er niður og borðað nesti. Þá kólnar manni mjög fljótt. Góð regla er að stoppa stutt og oft og klæða sig alltaf í aukalag þegar maður stoppar. Eiga í bakpokanum primaloftjakka eða dúnúlpu sem maður kastar yfir sig rétt á meðan maður borðar nestið. 

Og hér kem ég að hinu aðalatriðinu. Matur. Þá ætla ég að minnast á hana Sögu, sem var með okkur í fyrrnefndri kajakferð um Langasjó. Hún er sísvöng og hugsar mjög mikið um mat.  Sérstaklega þegar hún er á hreyfingu. Í viðtalinu sem við tókum við hana gat hún eiginlega ekki hætt að tala um mat. Þetta er tilfinning sem ég sjálfur kannast mjög vel við. Ég er eins. Ég virðist brenna orku mjög hratt og þarf að borða nokkuð oft yfir daginn þegar ég er á hreyfingu. Ég hef reyndar lagast hvað þetta varðar en ég er samt alltaf með eina orkustöng eða hnetur í seilingarfjarlægð á göngum. Hungurótti hrjáir mig en ég hef smátt og smátt tamið mér að láta örlitla hungurtilfinningu ekki slá mig út af laginu. Ég hef líka lært að ákveðin tegund af mat stendur lengur með manni þegar maður er í krefjandi verkefnum. Hæfileg blanda af fitu og kolvetnum eins og t.d. hafragrautur með rjóma og góðum bragðbætandi viðbótum er fyrst á listanum hjá mér þegar ég geng. Ég er að auki yfirleitt með einhvern góðan ost, pylsu og súkkulaði. 

„Hungurótti hrjáir mig en ég hef smátt og smátt tamið mér að láta örlitla hungurtilfinningu ekki slá mig út af laginu.“

Sögu til varnar má auðvitað benda á að hún kom kasólétt úr þessari kajakferð um Langasjó, þannig að matur var henni kannski óvenju ofarlega í huga. Og Sögu til enn frekari varnar verður að taka það fram að hún var auðvitað kasólétt þegar hún kom í ferðina. 

Aukið öryggi og reynsla hefur leitt til þess að ég fer með minna nesti í bakpokanum en ég gerði áður. Það hefur stundum komið fyrir að ég klára allt og kem mjög svangur til byggða. Einu sinni horfði ég vongóðum löngunaraugum á súkkulaðistykki sem kom uppúr bakpoka samferðarkonu en þorði ekki að biðja um bita enda var þetta á löngum degi og viðkvæm staða uppi í leiðangrinum. Allir þreyttir og orðið grunnt í nokkrum bakpokum. Minn var tómur. Hún kramdi í mér hjartað þegar hún pakkaði súkkulaðinu saman án þess að bjóða mér en endurheimti svo óvænt ást mína og virðingu í næsta nestisstoppi þegar hún bauð stóran bita af rjómasúkkulaði með lakkrískurli sem bragðaðist eins og lítið ferðalag til himnaríkis. Ég dró umsvifalaust til baka allar þær óþvegnu hugsanir sem að henni höfðu beinst síðasta klukkutímann. Það er vont að vera svangur – og það venst mjög illa. 

Punkturinn er sumsé þessi. Sé maður vel búinn og rétt nestaður þá jafnast ekkert á við andlegu fyllinguna sem samvera við íslenska náttúru færir. Hreyfingin og öndunin býr til efnaskipti í líkamanum sem veitir náttúrulega vellíðan. Það verða allir glaðir og fallegir á fjöllum. Tilgangur lífsins er leitin að hamingjunni og hún er þarna úti. Þannig að veriði úti.

Róbert Marshall

(pistillinn birtist nýverið í tímaritinu Man)