Í þriðja þætti Úti sýndum við ferðalag á fjallahjólum ofan frá Pokahrygg til Hvanngils að Fjallabaki.

Á leiðinni skoðuðum við foss í Markarfljóti sem stundum er nefndur Nafnlausi foss og oft kallaður Rudolf. Vegna þess að nafngift þessa fullkomna foss hefur verið nokkuð þrætuepli í allmörg ár ákváðum við að setja nafn hans í gæsalappir í þættinum en við tileyrum þeim skólanum sem vill kenna fossinn við Rudolf Stoltzenwald sem var frumkvöðull í fjallamennsku á Íslandi. Hann var einn af stofnendum Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og byggði Dalakofann til að auka öryggi ferðafólks að Fjallabaki og skapa frekari möguleika til ferðalaga á svæðinu. Rudolf var fjallamaður af lífi og sál og arfleifð hans og náttúrusýn varð mörgum fyrirmynd og hvatning til góðra verka. Hann lést vorið 1987 á leið sinni í Dalakofann á vélsleða.  

Vegna þess að leturgerðin sem við notum í þáttunum leyfir ekki íslenskar gæsalappir ákváðum við að standa með okkar sannfæringu í þessum efnum og kalla fossinn Rudolf. Það skal þó samt tekið fram að það örnefni er ekki skráð með formlegum hætti og fjallmenn á Rangárvallaafrétti sem smala svokallaðar Laufaleitir kalla fossinn Laufa, svo því nafni sé líka til haga haldið. 

Hér verður því fólk að ákveða hvaða nafni það vill kalla þennan formfagra foss sem er gríðarlegt augnayndi á Hálendi Íslands.