„Daglegi plankinn gegnir lykilhlutverki á skrifstofu Listahátíðar við að efla liðsheildina og móralinn,“ segir Vigdís Jakobsdóttir listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. Það mætti halda að hún hefði lesið grein okkar hér á Úti um æfingar í amstri dagsins. Þar er einmitt sterklega mælt með því að flétta góðar kjarnaæfingar eins og planka inn í daglega rútínu.

Á skrifstofu Listahátíðar hefur verið plankað í hverju hádegi síðan í janúar. Fyrst er hlustað á útvarpsþáttinn R1918, sem er samstarf Listahátíðar og RÚV, og svo er plankað. Plankinn er líklega orðinn lengri en útvarpsþátturinn. Um ein og hálf til tvær mínútur. Þannig að starfsfólkið er komið með þokkalega magavöðva. En það er ekki aðalatriðið. Best er þetta fyrir móralinn:

„Ritúalið við að standa upp úr stólnum á sama tíma hvern dag, hlusta í andakt á útvarpsþáttinn og planka svo saman í hring í eina eða tvær mínútur er orðið að ómissandi hluta vinnudagsins hjá okkur. Dagsformið er mismunandi eins og gengur, en sameiginlegi plankinn bæði núll- og nústillir okkur.“

„Það verður hægt að spinna saman töluvert af útiveru og listum í júní.“

Glæsileg dagskrá Listahátíðar hefur nú birtist sjónum almennings. Hátíðin í ár býður upp á þónokkra viðburði sem samtvinnast útiveru á einhvern hátt. Verkið Bláklukkur fyrir háttinn er til að mynda hljóðleikhús sem fer fram í hirðingjatjaldi á heiðum í öllum landsfjórðungum. Listhátíð býður líka í leikhús-göngutúr um Blesugróf og í göngutúra um myndlistarsýninguna Leiðin heim sem verður sýnd í gluggum í miðborginni og í göngu- eða hjólreiðatúr um Hjólið – Fallveldi heimsins sem eru sýning nýrra útilistaverka við hjólreiðastíga í Smáíbúðahverfinu og víðar. Svo er Reykjavík GPS gagnvirkt tónverk sem byggir á GPS hnitum í miðborginni sem tekur breytingum eftir leiðinni sem er gengin.

Það verður því hægt að spinna saman töluvert af útiveru og listum í júní þegar Listahátíð fer fram. Svo má einnig nefna einn viðburð til viðbótar, þó hann fari fram inni. Það er myndlistarsýningin Einskismannsland: Ríkir þar fegurðin ein? Þar er sjónum beint að náttúru Íslands og tengslunum við víðerni landsins.

Já, og eitt í viðbót: Laugardaginn 9.júní er auðvitað gráupplagt að byrja daginn á að fara til dæmis í góðan hjólatúr, ganga á fjall eða hlaupa. Planka smá. Fara svo í sund í Ölduselslaug, slaka á og hlusta á Bíótóna í baði.

Steinliggur.