Fjallaskíðatímabilið á Íslandi er að vori. Þá eru snjóskilyrðin yfirleitt góð til að fara á tinda landsins, þegar veður leyfir, og eru það oftast fram á fyrri hluta sumars. Hér mælum við með nokkrum frábærum fjallaskíðaleiðum, sem við viljum meina að séu í flokki sígildra leiða hér á landi. Þær eru ekki of erfiðar og henta því vel þeim sem vilja byrja í þessu fjarskafína sporti. Alltaf gildir í öllu svona, að fara með réttan búnað í leiðangurinn og vera í fylgd með kunnáttufólki, sé maður það ekki sjálf/ur.  En sumsé! Hér eru fjöllin og leiðirnar:

——

Hekla

Hekla er auðvitað skylduheimsókn allra fjallaskíðagarpa. Eiginlega er besta leiðin til að heimsækja Heklu á fjallaskíðum. Á skíðum er hægt að komast hratt af fjallinu ef gýs.

Það verður auðvitað hver að meta fyrir sig hvort hann vilji skíða á fjalli sem beðið er eftir að gjósi. En upplifunin af því að ganga á Heklu og skíða niður aftur er eitthvað sem stendur alltaf fyrir sínu. Hekla markar upphafið að Fjallabaki og hálendinu og þarna uppi er vítt til allra átta.  Ekki láta ykkur bregða þó rjúki úr toppnum – þetta á að vera svona! Hekla er 1488 metra há og rís um 900 metra upp fyrir landið í kring. Ennþá.

  • Lengd að toppi: 5 km  
  • Upphafsstaður: Bílastæði við jeppaslóða af Landmannaleið (F225)
  • Uppsöfnuð hækkun: 1000m 

——

Tindfjöll

Öll kennileiti í Tindfjöllum eru eftir Guðmund frá Miðdal, en í Tindfjöllum er einmitt skálinn Miðdalur. Lengi hefur verið bollalagt um að gera alvöru skíðasvæði með lyftum og tilheyrandi í Tindfjöllum.

Ýmir og Ýma eru stórskemmtilegir tindar að ganga á og ekki skemmir fyrir að geta skíðað niður. Tindfjöll ná 1462 metrum og oftast er ágætt jeppafæri upp að snjó. Við á Úti höfum tekið fjallahjólin með og hjólað niður á láglendi eftir að skíðafjörinu lýkur. Hægt er að fara upp fyrir Haka eða niður í Tindfjallajökulsdalinn og sleppa þannig við nokkuð langa hliðrun sem er svolítið erfið yfirferðar. Slóðin okkar byrjar hjá skála Alpaklúbbsins sem er efstur en stundum þarf að byrja neðar, eftir því hvar snjólínan liggur.

  • Lengd að toppi: 7 km.
  • Upphafsstaður: Jeppaslóði af Fljótshlíðarvegi (261) handan Fljótsdals. 
  • Uppsöfnuð hækkun: 700 m

——

Snæfell

Þetta er alvöru túr austur á land og tilvalið að taka fleiri fjöll í leiðinni. Þarna er hægt að skíða langt fram á sumar.

7km og 1200 metra uppsöfnuð hækkun.

Snæfell býður uppá frábærar aðstæður fyrir fjallaskíðun. Það er hæst allra fjalla utan jökla á Íslandi, 1833 metrar, og alvöru verkefni. Snæfell liggur í austanverðum Vatnajökulsþjóðgarði og hægt er að skíða nokkrar ólíkar leiðir á því. Við sýnum hér skíðaleiðina norðanmegin og athugið að þar eru djúpar sprungur efst í fjallinu og full þörf á að fara varlega. Wildboys á Egilsstöðum hafa verið með skipulagðar hópferðir á fjallið og notað vélsleða til að ná fleiri rennslisferðum niður brekkurnar.

  • Lengd að toppi: 7 km 
  • Upphafsstaður: Af Sanddalsvegi við Hafursá. 
  • Uppsöfnuð hækkun: 1200 m. 

——

Hólshyrna

Sé maður á Siglufirði þá er þetta glæsileg dagleið með flottu útsýni og tekur ekki mjög langan tíma. Hólshyrna er líka vinsæll áfangastaður göngufólks á sumrin.

Frá gangnaopi Héðinsfjarðarganganna, Siglufjarðarmegin, er gengið á Hólshyrnu sem er geysiskemmtilegur fjallaskíðatindur. Í hörðu færi er nauðsynlegt að hafa brodda og exi efst.  Þetta glæsilega fjall er eitt af þessum sjáðu-tindinn-þarna-fór-ég fjöllum sem er svo gaman að monta sig af að hafa komið á. Hyrnan rís 777 metra upp fyrir sjávarmál.

  • Lengd að toppi: 5 km. 
  • Upphafsstaður: Mynni Héðinsfjarðarganga. 
  • Uppsöfnuð hækkun: 700 m. 

——

Eyjafjallajökull

Sígild fjallaskíðaleið á einn flottasta jökul landsins. Þarna uppi mynda gígbarmar eldfjallsins hrikalegar íshleðslur.

Útsýnið á Eyjafjallajökli er stórkostlegt á góðum degi. Það er auðvitað svolítið átak að koma sér upp í snjólínu frá Seljavöllum en ef nóg er af snjó styttist sú leið. Það eru myndarlegar sprungur í brekkunni undir Guðnasteini og full þörf að hafa varann á sér. Ganga í línu, eins og alltaf er gert á jöklum, og fylgja gönguleiðinni þegar skíðað er niður. Hæstu tindarnir á Eyjafjallajökli eru Hámundur og Gígtindur og báðir á listanum yfir hundrað hæstu. Gott göngufæri er á þá báða. Gígtindur er nýtt örnefni en hingað til hefur hann verið ónefndur. Hann varð sýnilegri eftir gosið 2010.

  • Lengd að toppi: 9 km 
  • Upphafsstaður: Seljavellir
  • Uppsöfnuð hækkun: 1600 m.

——

Snæfellsjökull

Stundum myndar snjórinn hálfpípu í gilinu upp frá Dagverðará og getur það orðið hin mesta skemmtun á leiðinni niður. Fylgist með hengjum sem geta hlaðist þar upp í köntunum.

Það er auðveldast að skinna á Snæfellsjökul frá jökulshálsinum enda yfirleitt hægt að aka alveg upp í snjólínu. En skemmtilegasta leiðin upp og niður er frá Dagverðará sem er vestar á Snæfellsnesi. Snæfellsjökull er 1446 metra hár og það er alveg nauðsynlegt að koma við á báðum þúfunum en til þess að toppa þær er nauðsynlegt að vera bæði með ísöxi og brodda. GPS slóðin sem við sýnum hér liggur uppá Vesturþúfu og Miðþúfu en báðar eru á listanum yfir hundrað hæstu tinda landsins. Flestir hafa bara farið upp að austur- og miðþúfunni svo hér gefst færi á að klappa á Vestur og – miðþúfurnar og merkja við 2 tinda í 100 hæstu verkefninu. Oft liggur langur snjórani alveg niður að enda jeppaslóðans við Dagverðará svo ekki þarf að ganga langt með skíðin.

  • Lengd að toppi: 9 km 
  • Upphafsstaður: Dagverðará. 
  • Uppsöfnuð hækkun: 1400 m.