Þátttakendur í Landvættaverkefni Ferðafélags Íslands gengu á brautarskíðum í Landmannalaugar nú um helgina. Þetta er einn stærsti hópur skíðafólks sem farið hefur í einu í Laugar, ef ekki sá stærsti. 

Áð við Bjallavað eftir 9 kílómetra. Veðrið eins og það verður best.

Veðrið að Fjallabaki var með eindæmum gott um helgina. Blankalogn og um frostmark. Gist var í skála Ferðafélagsins í Laugum og að sjálfsögðu var farið í laugina sjálfa sem var heit og fín alveg að fataskipta-pallinum en venjulega þarf að ganga 10 metra þar til vatnið er orðið vel heit.

Lengra komnir hituðu sér kaffi á leiðinni.

Gengið var frá Sigöldu en gönguleiðin er 25 kílómetrar. Sérstakur spori var notaður til að gera spor þannig að hægt væri að fara þetta á brautarskíðum en yfirleitt ferðast fólk á stálkantagönguskíðum þegar þessi leið er farin.

Gerður Steinþórsdóttir og Sandra Sif Morthens voru himinlifandi með leiðangurinn.

Ferðin er einn liður í æfingaáætlun FÍ Landvætta en hún nær yfir 10 mánuði og kemur þátttakendum í form til að takast á við allar Landvættaþrautirnar sem eru 50 kílómetra skíðaganga í Fossavatnsgöngunni í lok apríl, 60 kílómetra fjallahjólakeppni Bláalónsþrautarinnar í júní, 2.5 kílómetra sund í Urriðavatni í júlílok og loks 33 kílómetra fjallahlaup um Jökulsárgljúfur í ágúst.

 

Flestir ganga í vetrar-hlaupafatnaði en gott er að hafa primaloftúlpu í nestispásum.

Skíðaskógur reis við skálann í Landmannalaugum.

Hitastigið á lauginni var frábært og sannkölluð hátíðarstemning þegar fólk baðar sig eftir ferðina í Landmannalaugar.