Í þriðja þætti Úti, sem eins og alþjóð veit eru sýndir á sunnudagskvöldum á RÚV, hjólum við ásamt Brynhildi Guðjónsdóttur leikkonu og Maríu Ögn Guðmundsdóttur hjólaafrekskonu og fleirum í undursamlegu landslagi að Fjallabaki.

Lagt var af stað snemma frá Reykjavík og keyrt með hjól og hjólafólk að fjallveginum um Pokahrygg. Þar var lagt í hann og byrjað að fara með hjólin yfir stóran og illfæran skafl sem þarna var á slóðanum þrátt fyrir að vel væri liðið á sumar.

Við Laufafell.

Veðrið lék við leiðangursfólk. Landið skartaði sínu fegursta. Leiðin er mestmegnis á fjallvegum og fara þarf yfir ár, sem er auðvitað mikið sport. Frá Álftavatni að Hvanngili, síðasta spölin, er hins vegar þræddur einfaldur slóði.

Í Hvanngili biðu svo bílarnir með vistir. Grillað lambakjöt var ljúft um kvöldið og nætursvefninn góður í skálanum.

Fyrir ykkur sem viljið kýla á það, hér eru nokkrir punktar:

Fjarlægð frá Reykjavík:

Brynhildur Guðjóns vindur vota sokka við Álftavatn.

160 km / 3 klst. Ekið um þjóðveg 1 austur að Landvegamótum þar sem beygt er til norðurs/vinstri upp Landveg (26). Fyrir austan Búrfell er svo beygt til austurs/hægri inn á Landmannaleið (Dómadalsleið F225) og ekið áleiðis að Landmannahelli. Lagt var upp í hjólaferðina við fjallveginn um Pokahrygg sem liggur til suðurs/hægri af Landmannaleið, skömmu áður en komið er að Landmannahelli.

Aðgengi:

4×4 jeppar að sumarlagi. Vegurinn um Pokahrygg er sjaldnast opinn og fær fyrir jeppa fyrr en síðsumars en hægt er að hjóla hann fyrr.

Gisting:

Þrír skálar eru á þessari leið. Dalakofinn, skáli Útivistar, skammt norðan við Laufafell og svo skálar Ferðafélags Íslands við Álftavatn og í Hvanngili sem báðir liggja við Fjallabaksleið syðri (F210) og gönguleiðina um Laugaveginn.

Hjólaleið:

Hjólað um fjallveginn sem liggur um og yfir Pokahrygg, niður í Reykjadali og hálfhring í kringum Laufafell áður en komið er inn á Fjallabaksleið syðri sem fylgt er um Álftavatn og alla leið í Hvanngil. Leiðin býður upp á mikið og skemmtilegt vatnasull, þar sem farið er nokkrum sinnum yfir upptakakvíslar Markarfljótsins og meðal annars hjólað eftir farvegi Laufalæks.

Útbúnaður:

Fjallahjól, gjarnan fulldempað. Hjálmur og viðgerðarsett. Utanyfirföt og nesti. Svefnpoki og eyrnatappar fyrir skálagistinguna.

 

Leiðin sem var hjóluð. Pokahryggur-Hvanngil. Þetta er góð dagleið. Einhver þarf að vera á bíl, til þess að skutla hjólum og hjólreiðafólki á byrjunarreit og keyra svo niður að endapunkti í Hvanngili.