„Erfiður var hann en þurfti að gefa sig fyrir rest,“ sagði Þorvaldur V. Þórsson, Olli, í gærkvöldi. Tindurinn Snókur í Esjufjöllum hefur ekki oft verið klifinn. Líklega bara tvisvar. Þangað til í gærkvöldi. Olli komst upp á topp ásamt Herði Sveinssyni og Jóni Gauta Jónssyni um kl. níu. Það er þá í fyrsta skipti síðan 1992, að þar standa manneskjur.

Farið var að rökkva þegar Snókur var toppaður. Gengið var í myrkri aftur til skála.

Í Esjufjöllum, í Breiðamerkurjökli á suðaustanverðum Vatnajökli, eru brattir tindar. Af þeim er Snókur mest áberandi. Nafnið Snókur mun vera dregið af efsta hluta stafntrés í báti, en tindurinn er svolítið eins og strompur. Hann er ákaflega erfiður uppgöngu. Á vefsíðu Íslenska alpaklúbbsins er umfjöllun um fyrri viðureignir við Snók. Árið 1980 reyndu nokkrir félagar í klúbbnum að klífa tindinn að sumarlagi, en urðu frá að hverfa, einkum vegna lélegs bergs. „Eins og myglað brauð,“ sögðu þeir.

Það var svo á páskum 1982 sem tókst að toppa Snók. Það voru þau Anna Guðrún Líndal, Ari Trausti Guðmundsson, Hreinn Magnússon, Höskuldur Gylfason, Magnús Guðmundsson og Óskar Knudsen sem það gerðu. Árið 1992 komust svo Einar Stefánsson, Björgvin Richardsson og Valdimar H. Steffensen á toppinn, samkvæmt ábendingu til Úti. (Uppfært 9.apríl)

Og nú komust semsagt Olli, Hörður og Jón á toppinn.

Þeir félagar voru seinna á ferðinni en áætlað var, því strekkingsvindur var í fangið og 15 stiga frost. Það tók þá um sex tíma að komast í skála Jöklarannsóknarfélagsins. Þaðan tóku svo við aðrir sex tímar upp dalinn að klettunum.

Viðureignin við Snók mun hafa verið verulega strembin, þar sem þeir félagar þurftu meðal annars að hliðra sér dágóðan spöl eftir snarbrattri snjóröndinni fyrir ofan klettsbeltið í um 60 gráðu halla, þangað til komið var að syllu ofan við gínandi þverhnípi. Lokakaflinn var ca 50 metra kafli upp hrygginn að toppi með ísöxum og broddum. Toppurinn reyndist samkvæmt mælingum Olla vera 1316 metrar. Hann hefur áður verið skráður 1304m.

Snókur er hér til vinstri, en hinir nýtoppuðu og nýnefndu Fossadalstindar til hægri. Sá í miðjunni reyndist 1388m hár.

Olli, Hörður og Jón lét ekki nægja að toppa Snók í gær. Þeir fóru líka á annan tind í námunda. Sá er hæstur í þriggja tinda þyrpingu, norðan við Snók. Klifinn var miðtindurinn, upp snarbratt gil sem liggur þar milli toppanna, og svo um 60m klifur.  Þessir tindar virðast ekki hafa heitið neitt, hingað til. Þar sem dalurinn upp að þeim heitir Fossadalur þykir Olla upplagt að skýra þá Fossadalstinda. Það hljómar vel. Sá hæsti þeirra, þessi í miðjunni sem þeir klifu, reyndist hærri en skráð hafði verið.

Olli og Hörður.

„Hann reyndist vera 1388m en er sagður á korti 1335,“ segir Olli. „Ég veit ekki um neinn sem hefur komist á hann.“

Semsagt: Fossadalstindar. Tjekk.

Til stóð að fara líka á þriðja tindinn, en sá er sunnan megin við Snók, í Vesturbjörgum og kallast Hátindur. Ekki gafst tími til þess. Hins vegar var tíminn notaður núna í morgunsárið og farið snemma upp á Lyngbrekkutind (1209m), hinum megin við Vesturdal. Þar er mjög gott útsýni yfir Snók og hina tindana.

Hvort Olli og félagar munu klífa eitthvað meira í dag vitum við ekki á þessari stundu.

 

Fara þurfti snarbratt gil til að komast upp Fossadalstinda. Svo var klifur síðustu 60 metrana.

 

Olli á miðtindi Fossadalstinda.

 

Snókur í allri sinni dýrð. Farið var upp þá hlið sem hér sést. Hinum megin er hátt í 200m þverhnípi.

 

Fossadalur, upp að tindunum þremur. Snókur í miðjunni. Fossadalstindar hægra megin og Hátindur Vesturbjarga vinstra megin.