„Maraþon er mikil áskorun og alltaf erfitt, sama hversu vel maður er undirbúinn,“ segir Margrét Elíasdóttir maraþonhlaupari og þjálfari í KR-skokk hópnum. „En það er stórkostleg upplifun að klára maraþon og algjörlega þess virði að stefna á eitt.“

Þar höfum við það! Það er algjörlega þess virði að stefna á eitt segir hún. Nú fara stóru maraþonin úti í heimi að detta inn eitt af að öðru. Mörg stór fara fram að vori, eins og París, London, Boston, Kaupmannahöfn og Stokkhólmur. Já og svo auðvitað Kínamúrsmaraþonið, ef fólk fílar að hlaupa á vegg. Svo í haust er Berlín, Þriggjalandahlaupið, Chicago, Budapest, Munchen, Amsterdam og New York. Og auðvitað Reykjavíkurmaraþonið í ágúst.

Margrét í Reykjavíkurmaraþoni, við Gróttu. (Mynd: Jóhann Gunnar Kristinsson)

Þannig að nú þarf að fara að æfa sig. Margrét hefur hlaupið fimm sjálf, það fyrsta í Berlín 2008, svo í París 2010, Reykjavík 2012, Kaupamannahöfn 2013 og í Amsterdam 2014. Besti tíminn hennar var í París, 03:10:41. Þar með fór Margrét á topp 10 lista íslenskra kvenna frá upphafi. Í Reykjavík 2012 og í Laugarvegshlaupinu 2015 fór hún á verðlaunapall.

Margrét stofnaði KR-skokk hópinn fyrir 5 árum ásamt tveimur öðrum hlaupurum. „Það hefur verið mjög góð þátttaka frá fyrsta degi og það sem er gleðilegast er að við höfum náð að sýna fólki fram á það að það er hægt að hlaupa úti allan ársins hring og í öllum veðrum.“

Nema hvað! Flestir ættu að geta hlaupið maraþon með réttum undirbúningi, segir Margrét. En hvernig á að undirbúa sig rétt? Við lögðum nokkrar hraðaspurningar um maraþon fyrir Margréti. Gjöriði svo vel:

Hvað þarf manneskja sem er að stíga upp úr sófanum langan tíma til  þess að koma sér í maraþonform?

„Það er svolítið einstaklingsbundið en ég mæli með því að fólk sem hefur engan hlaupagrunn og hefur ekkert verið að hreyfa sig gefi sér góðan tíma og taki 1- 2 ár í undirbúning. Það þarf tíma til að venja líkamann við svona mikið hlaupaálag svo vel fari.“

Geta þetta allir?

„Já, þeir sem hafa góða heilsu geta þetta en það þarf þolinmæði og elju. Þetta gerist ekki á einfaldan hátt.“

En manneskja sem er að hlaupa kannski 20 km á viku og hefur t.d. hlaupið hálft maraþon? 

„Þá ættu 3-6 mánuðir að duga í undirbúning.“

Hvað er mikilvægast í maraþonundirbúningi? 

„Að hlaupa reglulega og eftir fyrirfram ákveðnu prógrammi, vera skynsamur og hlusta á líkamann.“

Lykilatriði? 

„Setja hlaupið í fyrsta sæti, sleppa ekki æfingu, nærast og sofa vel. Sleppa að mestu „ólifnaði“ á meðan á undirbúningnum stendur og fram yfir hlaupið.“

Hvað þarf að varast? 

„Hlaupa of lítið eða of mikið!“

Algengustu álagsmeiðsl? 

„Beinhimnubólga og eymsli í hásin.“

Kanntu einhver ráð við þeim? 

„Skynsamlegast að bera þau undir sjúkraþjálfara og fá ráð hjá þeim.“

Hvernig er best að velja skóbúnað? 

„Best að fara í hlaupagreiningu og sjá hvaða tegund af skóm hentar best t.d. innanfótarstyrktir, utanfótarstyrktir eða hlutlausir skór. Það kemur í veg fyrir eymsli sem gætu t.d. myndast í hnjám, mjöðmum eða baki ef rangur skóbúnaður er notaður.“

Einhverjar þumalputtareglur við val á skóm? 

„Velja góða skó. Ekki spara þar. Svo er gott að eiga til skiptana og jafnvel eina fyrir lengri hlaup og aðra léttari fyrir styttri og hraðari hlaup.“

Mælir þú með að fólk skrái sig í hlaupahóp? 

„Já algjörlega. Það gerir hlaupin miklu markvissari, auðveldari og skemmtilegri. Það er allt of algengt að fólk þori ekki að mæta en loksins þegar það lætur verða af því skilur það ekki afhverju það mætti ekki miklu fyrr.“

Er KR hópurinn opinn öllum? 

„Já, hann er opinn öllum og hentar öllum, er getuskiptur þannig að hvort sem þú ert með lítinn grunn eða mikinn áttu að geta fengið það sem þú vilt út úr æfingunni.“

Getur þú mælt með einhverjum maraþonum í útlöndum?

„Berlín og París eru virkilega skemmtileg. Það er gaman að hlaupa í svona stórum og fjölmennum hlaupum.  Svo veit ég að London og New York eru mikil upplifun.“

Eftirminnilegustu maraþonin þín?

„Fyrsta maraþonið í Berlín var magnað. Það var ólýsanleg upplifun. Ég hafði undirbúið mig vel og gekk vel í hlaupinu. Tilfinningin eftir þessa fyrstu 42,2 km var einstök og gerði það að verkum að ég fór í fleiri maraþon, en þetta átti bara að vera mitt fyrsta og eina maraþon. París var líka frábært. Þar náði ég mjög góðum tíma og betri en ég reiknaði með. Annars hef ég verið mjög heppin í öllum maraþonhlaupunum mínum og nánast alltaf allt gengið upp sem er alls ekki sjálfgefið sama hvað maður mætir vel undirbúinn.“

Hvað færðu út úr þessu? 

„Ótrúlega góða líðan og skemmtilegan félagsskap.“

Af hverju hleypur þú?

„Aðallega til að láta mér líða vel og halda andlegu og líkamlegu hliðinni í lagi.“

——————

Hlaupagreining

Á nokkrum stöðum er hægt að fara í hlaupagreiningu. Eins og til dæmis hjá Eins og fætur toga og hjá Eirberg.