Gönguklúbburinn Vesen og vergangur og SÍBS hafa aftur tekið höndum saman um voráskorun í gönguferðum.

Markmiðið er að fá sem flesta til að koma í göngur. Sérstaklega er fólk boðið velkomið sem hefur lítið gengið eða hefur tekið sér langt hlé. Göngurnar í voráskoruninni verða vikulega, á miðvikudagskvöldum fram í miðjan maí.

Fyrsta gangan var í gær. Sextíuogeinn þátttakandi mætti. Gengnir voru 5,5 km á 90 mín. umhverfis Rauðavatn og um ásana ofan við vatnið.

Vegalengdirnar eru stuttar til að byrja með. Þær lengjast svo smátt og smátt. Svo er endað með dagsferð um helgi. Það kostar ekkert í þessar göngur, fyrir utan rútugjald í síðustu gönguferðinni. Allir mega koma.

Einar Skúlason göngugarpur fer fyrir klúbbnum Veseni og vergangi, sem telur yfir 11 þúsund meðlimi á Facebook. Til þess að fólk þjálfi sig upp, segir Einar, er mælst til þess að þátttakendur endurtaki hverja göngu, helst tvisvar, þangað til kemur að þeirri næstu. Þannig er gönguformið þjálfað upp.

Þá er bara að hnýta á sig gönguskóna. Hér má sjá væntanlegar göngur Vesens og vergangs, þar á meðal þær sem eru í voráskoruninni. Næst verður gengið kringum Bessastaðatjörn.

Minnugir vilja meina að þetta sé í fjórða skiptið sem voráskorun SÍBS og Vesens og vergangs fer fram. Svo er líka haustáskorun. Meira um hana síðar.

Frá göngunni í gær.