Feðgarnir Hilmar Már Aðalsteinsson og Ari Steinn Hilmarsson létu langþráðan draum þess fyrrnefnda rætast um páskana þegar þeir fjallaskíðuðu á milli Akureyrar og Siglufjarðar.

Þeir Hilmar og Ari þræddu fjöllin frá Akureyri til Siglufjarðar ásamt góðu fólki sem fór hluta leiðarinnar með þeim. Hilmar skíðaði en Ari var á kleyfbretti.  Þeir feðgar byrjuðu á að ganga á Súlur og Bónda og renndu sér svo niður í Lambárdal og í Lamba, skála Ferðafélags Akureyrar.

Þaðan fengu þeir aðstoð vélsleðamanna sem drógu þá inn í botn Glerárdals en þar gengu þeir upp í skarð milli Kistufjalls og Hrútafjalls. Þeir luku fyrsta deginum með því að renna sér niður með annarri Lambá og Þverá og að Þverárrétt í Öxnadal.

Daginn eftir hófst gangan við Sörlatungu í Hörgárdal, upp með þriðju Lambánni, eftir Holárfjalli og svo renndu þeir sér niður Sunnu í Holárdal og enduðu daginn í Klængshól í Skíðadal þar sem vel var tekið á móti þeim.

„Alls voru þetta um 85 km og tæplega 5.500 hæðarmetrar“

Þriðji leggurinn var frá Göngustöðum í Svarfaðardal upp með fjórðu Lambánni og með fornri gönguleið um Klaufabrekknaskarð og svo ýttu þeir sér niður frekar flata Lágheiðina. Þær Sigrún Hallgrímsdóttir og Hildigunnur Svavarsdóttir voru þeim til halds og traust þennan dag.

Síðasta daginn gengu þeir svo frá Kleifum upp Ytrárdal um Vatnsendaskarð niður í Héðinsfjörð og um Hestskarð og luku göngunni við gangnamunnan í Skútudal. Það var því miður engin Lambá á vegi þeirra síðasta daginn en þeir fengu í staðin frábæra ferðafélaga. Alls voru þetta um 85 km og tæplega 5.500 hæðarmetrar í frábæru skíðafæri en misjöfnu skyggni. 

Þetta er glæsilegt brautryðjendaverk þeirra feðga og ljóst að hér er komið verðugt verkefni fyrir fjallaskíðafólk að ljúka. Þekktust allra háu leiða (haute route) er leiðin á milli Chamonix í Frakklandi og Zermatt í Sviss sem gjarnan er skíðuð á 5-8 dögum eftir því hvaða útfærsla er farin. Akureyri-Siglufjörður virðist geta verið góður undirbúningur fyrir slíkt ævintýri.

Dagleiðir þeirra feðga.