Gönguskíðabyltingin heldur áfram, nú síðast með metþátttöku í Fljótagöngunni í gær. Um 170 manns á öllum aldri þreyttu göngur í mismunandi vegalengdum, hátt í áttatíu í þeirri lengstu, 20 kílómetra göngunni.

Veðrið lék við keppendur. Logn og blíða. Leiðin er falleg, en brautin þótti erfið, mjúk og blaut. Margir voru með lélegt fatt fyrir grófkorna, gamlan snjó. Þetta var klístursfæri, sagði keppandi á áburðarskíðum.

Sævar Birgisson sigraði í karlaflokki í 20km göngunni, á 57 mínútum og 51 sekúndu. Í öðru sæti varð Birkir Þór Stefánsson (01:02:33) og í því þriðja Sigvaldi B. Magnússon (01:04:07).

Elsa Guðrún Jónsdóttir, á tímanum 01:01:08, sigraði í kvennaflokki og varð í öðru sæti í göngunni í heild. Þar með endurtók hún leikinn frá Bláfjallagöngunni á dögunum. Svava Jónsdóttir varð í öðru sæti á tímanum 01:15:58 og Diljá Helgadóttir í því þriðja (01:21:46).

Tíma allra keppenda í öllum vegalengdum má nálgast hér.

Á eftir var að sjálfsögðu kökuhlaðborð í félagsheimilinu. Og verðlaunaafhending.

 

 

Keppendur voru á öllum aldri.