Í fyrsta þætti Úti er farið með fjölskyldufólki í Kerlingarfjöll og gengið um og leikið sér í tvo daga. Hér eru nánari upplýsingar fyrir alla sem vilja gera þetta líka. Fátt er skemmtilegra.

Kerlingarfjöll eru auðvitað fræg fyrir skíðaskólann sem þar var á sumrin í gamla daga. Margir eiga því frábærar minningar frá þessum æðislega fjallgarði á miðhálendi Íslands.

Lagt af stað í göngu

Að þessu sinni slóst Úti í för með nokkrum vinafjölskyldum sem samanlagt eiga hrúgu af börnum. Sumir eru gripnir efasemdum þegar kemur að börnum og útivist og telja jafnvel að það sé fullerfitt að fá börnin í göngur og þess háttar, en í þessum þætti er allt slíkt kirfilega afsannað.

Það er lýsandi fyrir hugarfarið sem myndaðist í hópnum að í þessum kringumstæðum lutu raftæki algjörlega í lægra haldi. Síminn átti ekki roð í náttúruna og félagsskapinn.

Hér eru helstu upplýsingar fyrir ykkur sem viljið endurtaka leikinn:

Fjarlægð frá Reykjavík:

200 km / 4 klst.

Ekið um Mosfellsheiði á Þingvelli (36) og þaðan yfir Lyngdalsheiði á Laugavatn (365). Svo er haldið á Gullfoss (36 og 35) og þaðan um Kjalveg (35) og endað á því að beygja til hægri inn Kerlingarfjallaveg (F347).

Aðgengi:

4×4 fólksbílar að sumarlagi. Sérútbúnir jeppar að vetri til.

Gisting:

Gist var í gamla FÍ skálanum í hálendismiðstöðinni í Kerlingarfjöllum. Þar er fullbúin eldunaraðstaða og vatnssalerni. Hálendismiðstöðin er opin allt árið. Hægt er að panta ýmis konar gistingu þar. Þar er jafnframt veitingasala.

Gönguleiðir:

Á göngu í snjónum í Kerlingarfjöllum

Dagur 1: Gengið frá efsta bílastæði, þar sem gömlu skíðalyfturnar voru og upp á Fannborg að sunnanverðu. Sama leið til baka með góðri rennslisbrekku síðasta spölinn. 5km.

Dagur 2: Gengið frá bílastæði við neðri Hveradal og hringur um Mæni og alla leið niður í skála. 10km.

Útbúnaður:

Góðir gönguskór, göngusokkar, ullarfatnaður innst, vind- og vatnþétt ysta. Húfa, buff og vettlingar. Nesti, aukapeysa/primaloft/dúnúlpa plús aukavettlingar og aukasokkar í bakpoka. Og svo auðvitað ruslapoki til að renna sér á.

Góða skemmtun!