Allir þekkja Hvannadalshnjúk, hæsta tind landsins. Mun færri vita af bróður hans, Sveinstindi, sem rís upp eilítið austar og sunnar í brúnum Öræfajökulsöskjunnar. Sveinstindur er annar hæsti tindur landsins, 2044 metra á hæð og 66 metrum lægri en stóri bróðir. Talið er að Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur hafi gengið fyrstur manna á Sveinstind og ber tindurinn nafn hans. 

Texti: Tómas Guðbjartsson og Engilbert Sigurðsson 

Mjög fáir hafa lagt leið sína á Sveinstind, ólíkt nágranna hans, Hvannadalshnjúk, sem þúsundir Íslendinga hafa sigrað. Þetta hefur þó aðeins breyst á allra síðustu árum þar sem göngufólk hefur uppgötvað að nýju leiðir á Sveinstind sem áður voru taldar illfærar og jafnvel ófærar. Þetta á bæði við um svokallaða Hrútárjökulsleið, þar sem farið er í kringum Ærfell, en einnig um leiðina sem Sveinn Pálsson er talið hafa gengið fyrstur manna þann 11. ágúst 1794 frá Kvískerjum. Þessi leið hefur oft verið kölluð Kvískerjaleið en Kvísker er frægt býli við austanverðan Öræfajökul og er meðal annars þekkt fyrir þá staðreynd að þar er mest meðalúrkoma í byggð á Íslandi. Á síðari árum hefur þó nafnið Læknaleiðin fest sig í sessi sem okkur þykir skemmtileg nafngift og heiðrar minningu Sveins kollega okkar. Sennilega hafa þó flestir fram til þessa gengið á Sveinstind eftir hefðbundnari gönguleiðum frá Sandfellsleið eða Hnappaleið upp frá Fagurhólmsmýri.

Félag Íslenskra fjallalækna (FÍFL) er félagsskapur hóps lækna og vina þeirra sem hefur í allmörg ár skipulagt vorferðir á ýmsa tinda í Vatnajökli, meðal annars Hvannadalshnjúk, Hrútfjallstindana fjóra (1875 m), Þverártindsegg (1554 m), Miðfellstind (1420 m) og nú síðast Birnudalstind. Fyrstu atlögu okkar að Sveinstindi gerðum við í maí 2011, en Íslenskir fjallaleiðsögumenn höfðu nokkrum árum áður farið með hóp þessa tilkomumiklu leið á tindinn. Við fylgdum sömu gönguleið sem oft gengur undir nafninu Hrútarjökuls eða Ærfellsleið. Gengið var á mannbroddum yfir sporð Hrútárjökuls, tignarlegs skriðjökuls sem fellur niður austanverðan Öræfajökul. Þaðan var gengið yfir Ærfjall að stórum klettadranga, Drangakletti. Þaðan var haldið eftir austurhluta Hrútárjökuls og stefnan sett á brattan og þverhníptan hrygg upp að rótum Sveinstinds. Þessi leið er ægifögur en talsvert var um djúpar jökulsprungur sem krækja þurfti fyrir.

Þrátt fyrir frábært útsýni urðum við frá að hverfa í 1650 metra hæð eftir að snjóflóð féll af hryggnum sem leið okkar átti að liggja eftir. Mikil sólbráð var á leiðinni upp Hrútárjökul og snarpur vindur í fangið. Færið var því þungt og gangan gekk nærri þreki göngumanna. Þrátt fyrir 17 klukkustunda streð varð þessi magnaða gönguferð þó aðeins til að auka áhuga okkar á að sigra tindinn án þess að fara fyrst upp á Sléttuna eftir Sandfellsleið.

„Við lögðum af stað frá Kvískerjum um klukkan fjögur að nóttu 18. maí 2013.“

Næsta vor hófst undirbúningur að nýrri göngu á tindinn. Í þetta sinn fannst okkur freistandi að feta í fótspor Sveins sjálfs og kanna hina afar fáförnu Kvískerjaleið. Leið þessi hefur alltaf verið talin illfær enda þótt Flosi Björnsson bóndi á Kvískerjum og systkini hans Ari og Guðrún hafi gengið hana árið 1936 (Sjá grein í Læknablaðinu). Einhverra hluta vegna féll hún svo í gleymsku og það var ekki fyrr en í júní 2004 sem þrír göngugarpar, Egill Einarsson, Magnús Björnsson og Skarphéðinn Óskarsson „enduruppgötvuðu“ þessa sömu leið og talið er að Sveinn Pálsson hafi gengið 11.ágúst 1794. Lýstu þremenningarnir henni í ágætri grein í Morgunblaðinu  í apríl 2013, en GPS-punktar sem við fengum hjá þeim komu að góðum notum.

Við lögðum af stað frá Kvískerjum um klukkan fjögur að nóttu 18. maí 2013. Í hópnum voru 16 félagar úr FÍFL ásamt Guðmundi „Stóra“ Jónssyni og félögum hans Óðni og Arnari.

Komið upp Læknaleiðina frá Kvískerjum. (Mynd: Ólafur Már Björnsson)

Fyrst var haldið upp allbratta heiði þangað til komið var að brekkum með mikilli sólbráð. Þar var snjórinn stundum hnédjúpur og náði sums staðar í klof en þegar ofar dró batnaði færið. Við gættum þess að halda okkur efst á hryggjum og forðast varasöm gil og dali sem liggja beggja vegna við gönguleiðina. Í tæplega 1000 metra hæð braust sólin fram. Það sem eftir lifði ferðar hélst brakandi blíða með sólskini. Sumir fækkuðu því fötum og báru aftur á sig sólarvörn. Meðan sólin gerði okkur heitt í hamsi rifjaðist upp fyrir okkur lýsing Sveins Pálssonar á aðstæðum og fylgdarmönnum sínum. Annan þeirra taldi hann ranglega þjást af háfjallaveiki en slík einkenni koma ekki fram fyrr en í minnst 2500m hæð.

„Þarna töldum við líklegt að Sveinn Pálsson hefði fengið innblástur að kenningum sínum um eðli skriðjökla, en hann var einn sá fyrsti í heiminum sem áttaði sig á rennsli þeirra.“

Leið okkar lá svo eftir heiðinni að jökulrönd undir tignarlegu fjalli, Rótarfjallshnúk eystri. Þaðan var haldið upp hrygg með mikilfenglegt útsýni á báðar hendur: Kvíárjökul sunnan og vestan leiðar og Hrútárjökul austan og norðan til. Einnig sást í bæði Vestri og Eystri Hnappa, Esjufjöll, Mávabyggðir, Snæfell syðra, Birnudalstind og Þverártindsegg.

Þarna töldum við líklegt að Sveinn Pálsson hefði fengið innblástur að kenningum sínum um eðli skriðjökla, en hann var einn sá fyrsti í heiminum sem áttaði sig á rennsli þeirra.

Í samanburði við leiðangur okkar ári áður upp Hrútárjökul, krosssprunginn á köflum, reyndist Kvískerjaleiðin afar örugg á þessum sólríka vordegi. Við rákumst varla á neinar jökulsprungur þar til komið var upp fyrir Sveinsgnípu, nokkur hundruð metrum sunnan Sveinstinds í ríflega 1900 metra hæð. Engin þeirra reyndist þó erfið yfirferðar.

Þegar komið var að rótum Sveinstinds blasti Hvannadalshnjúkur við hinum megin öskjunnar. Þetta var ógleymanleg stund því sjálf askjan var hulin skýjum. Frá þessu sjónarhorni, úr austri, er Hnjúkurinn sérlega tilkomumikill og mátti með kíki grilla í tugi göngumanna þokast í halarófu upp hlíðar Hnjúksins. Þetta var ógleymanleg sjón.

Þar sem aðstæður voru eins og best verður á kosið ákváðum við að ganga erfiðari leið á tindinn eftir bröttum og mjóum hrygg að sunnanverðu, en oftar er farin auðfarnari leið að norðanverðu. Notast var við snjóakkeri til tryggingar og voru göngumenn kirfilega festir í línu. Gætt var ítrustu varúðar, enda blasti Hrútárjökull við mörg hundruð metrum neðar á hægri hönd. Allir komust á tindinn og hópurinn gaf sér góðan tíma til að njóta útsýnisins og taka myndir.

Sveinstindur er hér til vinstri. Hægra meginn við hann er Sveinsgnípa. Göngufólk á leið á Hvannadalshnjúk gengur eftir Sléttunni. (Mynd: RAX).

Gangan niður var ekki síður eftirminnileg en uppgangan. Sól skein í heiði og útsýnið var afar tilkomumikið.

Greinarhöfundar drógust nokkuð aftur úr öðrum göngumönnum á niðurleið. Ástæðan var sú að Sveinn hafði í ferðabók sinni lýst steini einum miklum og setti á hann fangamark sitt, P, og skildi víst eftir koparpening við vörðuna. Þetta gerði hann til að auðvelda öðrum að finna uppgönguleiðina.

Hver einasti steinn sem kom til greina var skoðaður í bak og fyrir. Allt kom þó fyrir ekki. Steinninn fannst ekki enda áttuðum við okkur á því síðar að steinninn er alltaf hulinn snjó á þessum árstíma. Sveinn hafði hins vegar verið á ferðinni síðsumars, eða um miðjan ágúst. Má raunar teljast ótrúlegt að leiðin hafi verið fær á þeim tíma árs vegna jökulsprungna, en veðurfar var þó talsvert kaldara þá en á síðustu árum.

„Var gert óspart grín að árangurslausri leit okkar félaga að steininum fræga.“

Eftir næstum 16 tíma göngu og 28 km var haldið að bænum Gerði í Suðursveit. Þar var slegið upp veislu og gómsætu fjallalambi sporðrennt með dýrindis guðaveigum. Undir borðum voru lesnir skemmtilegustu kaflarnir úr Ferðabók Sveins og rifjuð upp atvik úr göngu dagsins. Var gert óspart grín að árangurslausri leit okkar félaga að steininum fræga. Nýlega fengum við þó í hendur GPS-hnit af staðsetningu steinsins sem er staðsettur á svokölluðum Sveinshöfða, ekki langt frá þeim stað sem mest var leitað. Það var vinur okkar og fararstjóri Ævar Aðalsteinsson sem afhenti okkur hnitin sem leiddi okkur að steininum eftirsótta nú í vor (N. 63°58.721 W 016°30.226). Urðu það fagnaðarfundir þótt fangmarkið hafi verið grafið í ís.

Á síðustu fimm árum hafa ýmsir gönguhópar fetað í fótspor okkar FÍFLa og lagt til atlögu við Sveinstind, flestir eftir Læknaleiðinni frá Kvískerjum. Þar á meðal eru hópar á vegum Ferðafélags Íslands með bræðurna Örvar og Ævar Aðalsteinssyni, í fararbroddi.

„Eftir það tók við ein lengsta og stórbrotnasta skíðabrekka landsins…“

Í maí 2017 stóð Ferðafélag Íslands fyrir 45 manna fjallaskíðaferð á Sveinstind þar sem annar höfunda og Helgi Jóhannesson lögfræðingur voru fararstjórar. Ferðinni er líst nánar í 90 ára afmælisriti Ferðafélags Íslands. Gengin var Sandfellsleið upp á brún öskjunnar og stefnan síðan tekin beint yfir “Sléttuna” á norðurhrygg Sveinstinds og þaðan upp á tindinn. Síðan var skíðað vestanmegin niður að Sveinsgnípu (1925 m) og hún toppuð. Eftir það tók við ein lengsta og stórbrotnasta skíðabrekka landsins, þar sem Læknaleiðinni var fylgt langleiðina að Kvískerjum. Áð var við Sveinsvörðu en síðan skíðað áfram niður að Kvískerjum. Höfðu þá verið lagðir að baki tæpir 30 km á 15 klst.

Rauða línan sýnir Læknaleiðina frá Kvískerjum. Gula línan sýnir Sandfellsleiðina.

Öllum sem ganga á Sveinstind í góðu veðri ber saman um að það er mögnuð upplifun og útsýnið óviðjafnanlegt. Ekki spillir fyrir að þegar Læknaleiðin er gengin frá Kvískerjum þá er gengið í fótspor eins merkasta Íslendings sem uppi hefur verið, og gekk þessa sömu leið 222 árum áður. Ganga á Sveinstind er því ekki eingöngu fjallganga heldur einnig kennslustund í náttúrufræði og sagnfræði, kennslustund sem allir áhugamenn um útivist ættu að njóta.

Þakkir fá Ragnar Axlelsson (RAX), Hákon Guðbjartsson, Oddur Sigurðsson, Óðinn Árnason og Ólafur Már Björnsson fyrir lán á myndum og Guðbjartur Kristófersson fyrir veitta aðstoð fyrir gerð korta og Ævar Aðalsteinsson fyrir aðstoð við að hjálpa okkur að finna steininn með fangmarki Sveins Pálssonar.

———–

 

Sveinn Pálsson – Stórmerkur læknir og náttúrufræðingur

Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur var fæddur 25. apríl 1762 á Steinsstöðum í Skagafirði. Sveinn var ekki aðeins merkur læknir heldur var hann einnig einn merkasti náttúrufræðingur Íslendinga fyrr og síðar. Auk þess þótti hann hugrakkur og mikill fjallagarpur. Hann hefur því af mörgum verið talinn á meðal merkustu Íslendinga í kringum aldamót 18. og 19. aldar.

Sveinn Pálsson

Sveinn stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn á seinni hluta 18. aldar en þá voru aðeins fimm læknar starfandi á Íslandi. Á þessum tíma þótti læknisfræði afar ótryggt nám til framfærslu, enda ekki á vísan að róa með atvinnu á Íslandi að námi loknu. Sveinn lagði því stund á náttúrufræði samhliða læknisfræðinni og varð fyrsti Íslendingurinn sem útskrifaðist með próf í náttúrufræði í Danmörku árið 1791. Sama ár hlaut hann styrk til náttúrufræðirannsókna á Íslandi. Á næstu fjórum árum fór Sveinn í marga krefjandi rannsóknarleiðangra sem hann rakti í hinni stórmerku ferðabók sinni sem við hann er kennd. Ferðabók Sveins þykir eitt merkilegasta rit um náttúrufræði sem komið hefur út um íslenska náttúru og var tímamótarit þegar hún kom út á dönsku, í fyrstu sem ritgerð en í bókarformi árið 1880. Ferðabókin kom þó ekki út á íslensku fyrr en árið 1945.

Sveinn þótt fær læknir og mikið var leitað til hans eftir að hann tók við stöðu fjórðungslæknis í Sunnlendingafjórðungi árið 1799. Hann bjó lengst af í Suður-Vík í Mýrdal og sinnti þaðan læknisvitjunum. Heimildir greina frá því að hann hafi farið í vitjanir allt frá Eyrarbakka til Djúpavogs, og þurfti því oft að fara yfir beljandi jökulfljót. En læknislaunin voru léleg og dugðu ekki til framfærslu stórrar fjölskyldu. Þurfti hann því samhliða læknisstörfum að stunda búskap og róa til fiskjar. Þrátt fyrir þessar annir var hann einstaklega afkastamikill náttúrufræðingur og raunar frumkvöðull á því sviði hér á landi. Hann var mikið hraustmenni og ferðaðist víða um landið þar sem oft þurfti að sundríða beljandi jökulár. Ferðalögunum sínum lýsti hann í ferðabók sinni, þar á meðal rannsóknarferð sinni að gosstöðvunum við Lakagíga en Móðuharðindin voru þá ný yfirstaðin.  Sveinn greindi einnig frá fjallgönum sínum í Ferðabókinni en hann er talinn hafa gengið fyrstur manna á tvo af tilkomumestu útsýnistindum landsins, Sveinstind við Langasjó (1090 m) og Sveinstind  í Öræfajökli (2044 m), sem báðir eru við hann kenndir.

Færslur úr dagbók Sveins Pálssonar

“Hinn 11. ágústmánaðar vorum við á fótum löngu fyrir sólarupprás í því skyni að ganga á hið mikla fjall Öræfajökul, sem Eggert Ólafsson telur jafnvel hæsta fjall landsins. Veður var alveg kyrrt og ekki ský á lofti. Ég festi miða á tjaldið með tilkynningu um ferðalag okkar, ef við skyldum verða til á jöklinum, og hélt síðan af stað við þriðja mann frá eyðibýlinu Kvískerjum kl. 5¾ að morgni, útbúinn með loftvog, hitamæli, lítinn áttavita, oddhamar, jöklabroddstaf og 8 faðma langan vað. Leið okkar lá fyrst upp eftir allbröttum undirhlíðum. Loks komum við að jökulbrúninni, er kl. var 8¾, og hvíldum okkur þar á dálitlum hól.

Við héldum áfram upp eftir suðausturhalla jökulsins, þar sem brattinn var minnstur, fórum fram hjá nokkrum svörtum þursabergsklettum, sem stóðu upp úr ísnum, og yfir fjöldamargar sprungur, sem sást ekki til botns í. Loftið tók nú, eins og vant er á slíkum stöðum, að verða of þunnt og andardrátturinn alltof léttur. Annar félaga minna varð svo kvíðafullur og syfjaður, að við urðum loks að skilja hann eftir, og féll hann jafnskjótt í svefn og hann fleygði sér niður í snjóinn. Hinn fylgdarmaðurinn, sem að upplagi átti vanda fyrir hjartverk og þunglyndi og auk þess var fullur af kenjum, varð því léttari í lund og kátari, því hærra sem við komum, og fann ekki til neinna óþæginda né þreytu vegna loftsins.”

***

“Ég veitti einkum athygli falljöklinum, sem skriðið hefur niður rétt austan við Kvísker. Yfirborð hans virtist alsett bogadregnum línum . . . alveg eins og falljökull þessi hefði runnið fram hálfbráðinn eða sem þykkt seigfljótandi efni. Skyldi þetta ekki vera nokkur sönnun þess, að ísinn sé í eðli sínu – án þess að bráðna – fljótandi að nokkru leyti, líkt og ýmsar tegundir af harpixi …”

***

“Á hólnum nýnefnda byggðum við vörðu úr grjóti og lögðum ofan á hana danskan eirpening, svo að þeir, er kynnu að vilja feta í spor okkar, geti fundið staðinn, þar sem við gengum á jökulinn og vafalaust er hinn allra greiðfærasti, sem til er, meðan jökullinn breytir sér ekki. Loftvogin sýndi nú 25′ 9¼ og hitinn var 18° C. Við komum heim í tjald okkar á Kvískerjum kl. 4 ½ síðdegis.”

——

Heimildir: 1) Jónsson ÓÞ. 250 ára afmæli. Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur. Læknablaðið 98; 2012: 98-9. 2) Ísberg JÓ. Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2005. 3) Pálsson S. Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791-1797. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík 1983. 4) Pálsson S. Æfisaga Sveins læknis Pálssonar eftir sjálfan hann. Ársrit hins íslenska fræða-fjelags, Kaupmannahöfn 1929; 10: 34. 5) gonguleidir.is/gonguleidir/sveinstindur/ – apríl 2014. 6) Guðmundsson S. Hver gekk fyrstur á Hvannadalshnjúk? Lesbók Morgunblaðsins; 26. nóvember 1994. 7) Hallgrímsson S. Ferðalög og flakk. Í spor Sveins landlæknis. Morgunblaðið 28. maí 2013. 8) Guðbjartsson T, Guðmundsson G. Háfjallaveiki – yfirlitsgrein.