Þegar Geir Ómarsson byrjaði að spá í þríþraut fyrir sjö árum, þá 35 ára gamall, var staðan á honum þessi: Hann gat synt 50 metra skriðsund þokkalega en var alveg búinn á því eftir það. Hann hafði ekki hjólað að neinu ráði en hann var hins vegar ágætur hlaupari. Hann hafði hlaupið tvö maraþon og hljóp 10 km á 40 mínútum eða svo. Þannig að Geir hafði jú einhverja styrkleika.

Nú er staðan sú, að Geir sigraði í járnkarlinum í Barcelona í sínum aldursflokki í september síðastliðnum og varð í sautjánda sæti yfir alla þátttakendur. Með þeim árangri varð Geir á meðal þeirra fjörutíu, af tæplega þrjú þúsund keppendum, í Barcelona sem tryggðu sér sæti á heimsmeistaramótinu í þríþraut sem fer fram í Kaluai-Kona á Hawaii í október 2018.

Fjölskyldan í Barcelona

„Ég féll gjörsamlega fyrir þríþrautinni þegar ég byrjaði að æfa,” segir Geir. „Þessi íþrótt hefur svo ótrúlega margt. Maður getur alltaf bætt sig einhvers staðar og síðan kynnist maður svo mikið af frábæru fólki.” Geir er tveggja barna faðir, kvæntur Hrefnu Thoroddsen og býr í Vesturbænum. Þar sést hann stundum hlaupa meðfram Ægisíðunni og víðar á ógnarhraða.  Í hans huga er stöðugleiki í æfingum lykillinn að því að ná árangri í þríþraut. „Maður þarf að æfa markvisst og halda réttu hugarfari. Svo eru líka aðrir mikilvægir þættir eins og passleg æfingahvíld til að koma í veg fyrir ofþjálfun, og góður svefn og næring. ”

Hann segir að hver og einn geti stjórnað því svolítið sjálfur hvað mikill tími fer í æfingar, en auðvitað verður hann alltaf töluverður þar sem greinarnar eru þrjár og mikilvægt að æfa þær allar. „Þetta getur tekið tíma sérstaklega ef maður er að æfa fyrir langa keppni eins og heilan járnmann og ef maður stefnir hátt. Þetta þarf auðvitað að gera í sátt og samlyndi við fjölskylduna.”

Geir varði um 12 til 18 klukkustundum í æfingar á viku síðasta sumar sem þýddi að hann tók 9 til 12 mislangar æfingar á viku hverri. Fjórða hver vika var síðan hvíldarvika, þar sem heildartími æfinga var u.þ.b. tíu klukkustundir. Lengstu æfingarnar tók Geir um helgar. „Þá tók ég oftast langt hlaup á laugardögum. Ég hljóp í 2 til 3 tíma, synti svo í 30-60 mínútur og svo á sunnudegi tók ég 4 til 6 tíma á hjóli og 15 til 30 mínútna hlaup strax á eftir. Oft er maður að æfa mjög snemma á morgnana þannig að maður getur verið kominn heim þegar fjölskyldan er að klára morgunmatinn… tjaa, eða hádegismatinn.”

„Ég fæ smá kick út úr því að æfa úti í skítaveðri.”

Geir hafði æfingarnar styttri í miðri viku en með meira álagi, og tók þá oft tvær æfingar á dag, aðra um morguninn og hina seinnipartinn. Mánudagar og föstudagar voru rólegustu dagarnir.

Hann er á því að það sé frekar gott að æfa fyrir þríþraut á Íslandi. „Já, það myndi ég segja. Við eigum frábærar sundlaugar og aðstaða til inniæfinga er fín yfir veturinn þegar veður er vont, sem kemur nú fyrir öðru hvoru. En er þetta ekki allt spurning um hugarfar? Ég fæ alla vega smá kick út úr því að æfa úti í skítaveðri.”

Komið í mark

Að sjálfsögðu þarf að borða holla og hreina fæðu á undirbúningstímanum. Geir er tíður gestur á Gló, segir hann. Hann eykur jafnt og þétt grænmetið í fæðunni eftir því sem nær dregur keppni, en einnig passar hann uppá að fá næg prótein og góða fitu, eins og til dæmis úr avókadó, ólívuolíu og laxi. „En ég hef minnkað mikið unnin kolvetni, s.s. sykur og hveiti þótt ég leyfi mér samt ýmislegt.”

Það er sem betur fer á Geir að heyra að það sé líka mikilvægt að kunna að lifa lífinu og slaka á á milli. Á Facebook, í athyglisverðri uppgjörsfærslu um keppnina í Barcelona, lýsti Geir því skilmerkilega yfir að sukkglugginn yrði opinn um stundarsakir og því væri vinunum óhætt að hnippa í hann og fá hann með sér í nokkra kalda.

„Það má eiginlega segja að þríþraut sé lífstíll.“

Geir er raunar á því að þríþraut sé einskonar lífsstíll. Hann mælir sterklega með henni fyrir þá sem eru að leita sér að næstu áskorun. „Ójá, þríþraut er stórkostleg íþrótt fyrir líkama og sál. Maður getur alltaf verið að bæta sig ef maður er dugleg(ur) að æfa. Það má eiginlega segja að þríþraut sé lífstíll. Ósjálfrátt fer maður að hugsa um hollari fæðu, hvíld, andlega heilsu og fleira sem gerir manni bara gott.”

En hvað fer í gegnum hugann í keppninni sjálfri? Hvernig kemst maður í gegnum þetta?

„Járnmaður er löng keppni,” svarar Geir. „Ég held að ég sé mest allan tímann að hugsa um hvernig mér líður. Hvernig er álagið? Hver er hraðinn? Er ég nógu afslappaður? Hvernig er tæknin? Hvar er næsti keppinautur?”

Hann vill ekki meina að líkamlegur sársauki sé mikill. Miklu frekar fer þreytan að gera vart við sig þegar líður á keppnina. En spilar hugurinn með hann? „Já algjörlega,” svarar hann afdráttarlaust.„Oft þarf maður að sannfæra sjálfan sig um að maður geti farið hraðar þegar maður er orðinn þreyttur. Á tímabili í Barcelona var ég farinn að sætta mig við að vera í 2.sæti í mínum flokki en þegar ég frétti að það var stutt í fyrsta sætið þá gat ég allt í einu hlaupið mun hraðar. Lykilatriði í þessu samhengi er að vera búinn að undirbúa sig andlega fyrir keppnina. Fyrir keppni var ég búinn að sannfæra sjálfan mig um að ég væri sterkastur á lokakaflanum í maraþoninu.  Sá andlegi undirbúningur kom sér vel þegar þreytan fór að segja til sín.”

„Maður þurfti ekki annað en að fá smá hvatningu frá Íslendingunum og þá datt maður aftur í stuð.”

Hvatinn til að gera sitt besta getur dottið niður í langri keppni. Þá kom hvatningin af hliðarlínunni sterk inn, segir Geir.  „Í Barcelona var stór hópur af Íslendingum að keppa og þar af leiðandi var fullt af Íslendingum í brautinni að hvetja. Þar á meðal var fjölskyldan mín. Maður þurfti ekki annað en að fá smá hvatningu frá Íslendingunum og þá datt maður aftur í stuð.”

Á verðlaunapalli. (Mynd: Einar Sigurjónsson)

Geir ráðleggur þeim sem vilja byrja að æfa þríþraut að hafa samband við eitthvert af þríþrautarfélögunum sem eru starfrækt hér á landi. Þau eru til dæmis Ægir þríþraut í Reykjavík, Þríkó í Kópavogi, 3SH í Hafnarfirði og 3N í Reykjanesbæ. Þau eru öll á Facebook og því hægur leikur að athuga hvað er í gangi.

Um allan heim eru síðan haldnar spennandi þríþrautarkeppnir á ári hverju sem er gaman að setja á markmiðslistann, æfa sig fyrir og, vitaskuld, taka svo þátt í með pompi og prakt, jafnvel með góðum hópi fólks. Á vefsíðunni ironman.com má finna urmul af upplýsingum um keppnir.  Svo eru vitaskuld keppnir á Íslandi. Geir nefnir til dæmis Kópavogsþríþrautina sem er haldin af þríþrautardeild Breiðabliks í maí. „Það er frábær keppni fyrir byrjendur. Og svo taka við fullt af flottum keppnum hérna heima í sumar og haust.”

„Maður þarf alls ekki að eiga flottustu og dýrustu græjurnar þegar maður er að byrja.“

En þá er það að lokum stóra spurningin: Hvaða græjur þarf maður að eiga? „Sundföt og sundgleraugu,“ svarar Geir. „Og hjól, helst götuhjól en það er þó ekki nauðsynlegt. Svo þarf hlaupafatnað. Maður þarf alls ekki að eiga flottustu og dýrustu græjurnar þegar maður er að byrja.“

Sjálfur er Geir auðvitað kominn með suddafínar græjur sem passa hans mikla árangri, enda hvorki meira né minna en sjálft heimsmeistaramótið framundan. Fyrir þau sem hafa áhuga: Hann hjólar á Cannondale og hleypur í Adidas Adizero skóm. Á honum er þó að skilja að græjurnar séu ekki endilega aðalmálið, þótt hann vandi vissulega valið. Mestu máli skipti að hafa hausinn í lagi.

Tími Geirs í Barcelona:

Heild:  8:39:34

Sund – 3.9 km – 00:58:31 – 1.30/100m

Hjól – 180.2 km – 4:38:41  – 38.81 km/klst.

Hlaup – 42.2 km – 2:57:10 – 4:12

Næring Geirs í keppninni:

Í sundinu: Sjór (ekki viljandi).

Á hjólinu: 8 stk GU gel koffein — venjulegt og Rocane til skiptis. GU electrolyte tabs drykkur, GU hydration mix (kolvetni) og vatn. Tók 2 x GU electrolyte hylki.

Í hlaupinu: GU gel á u.þ.b. 30 mín fresti með vatni og þess á milli þeir drykkir sem voru í boði í brautinni. Kók á drykkjarstöðvum eftir 30 km.