Þegar ég fór í mína fyrstu ferð með Ástu og Ósk á Kringilsárrana með Möggu konu minni þá var eitt á útbúnaðarlistanum sem stakk í augu. Það var orðið „fjallakjóll“.

Andri Snær Magnason skrifar

Við veltum lengi vöngum yfir þessu og að lokum var léttum gömlum bómullarkjól stungið niður í bakpokann en það var ekki laust við að manni fyndist það hálfgert guðlast að eyða dýrmætu plássi og þyngd í eitthvað tildur eins og fjallakjól, enda er fjallamennska alvarlegt sport og hættulegt, til að mæta fjöllum dugir ekkert annað en langdýrasta dótið frá North Face, afsagaðir tannburstar og þurrmatur sem var hannaður fyrir NASA.

„Fjallakjóllinn reyndist ekki bara vera einhverjir stælar.“

Fjallgöngur eins og önnur sport eiga það til að taka á sig ýkta mynd, stundum gengur það svo langt að sérfræðin verður útilokandi. Það versnar síðan í því þegar bærinn fyllist af ferðamönnum sem ganga um miðbæ Reykjavíkur eins og Bankastrætið séu grunnbúðir Everest og Kaffibarinn eins og einhver apres ski bar í Austurríki.

Fjallakjóllinn reyndist ekki bara vera einhverjir stælar. Við vorum heppin með veður, það var þurrt flesta dagana og fjallakjóllinn reyndist vera praktískasta flíkin í ferðalaginu. Það má eiginlega skipta gönguveðri á sumrin gróflega í tvennt. Annaðhvort er þurrt, eða blautt. Ef það er þurrt þá er hitinn yfirleitt vel yfir 10 gráðurnar og flestum er heitt og þá er hægt að vera í kjól og léttri lopapeysu, ef hann er síðerma ver hann axlir og upphandleggi fyrir sólbruna. Ef það er blautt þá er einfaldast að vera í föðurlandi, lopapeysu og GoreTex skelinni. Ég öfundaði Möggu af þessari flík, þar sem ég þrammaði um í óþægilegum Columbia göngubuxum og ljótri flíspeysu.

Margrét Sjöfn Torp, Áróra Helgadóttir og Andrea Vilhjálmsdóttir við Langasjó. (Mynd: Andri Snær)

Það mun hafa verið Elísabet Jökulsdóttir sem á heiðurinn að fjallakjólunum í Augnabliksferðunum. Þá var ekki kominn kláfur yfir Kringilsá og nauðsynlegt að fara yfir jökul til að komast á Kringilsárrana en landslagið á þessum slóðum var yfirþyrmandi, tryllt og göldrótt. Samkvæmt sögunni var Elísabet kvíðin, henni fannst hún eiga stefnumót við jökulinn, við móður jörð, Jökla var grá og seiðandi eins. Elísabet ákvað að mæta þessum öflum í sínum fallegasta og blómlegasta kjól.

Þótt fagna megi framförum í útivistarfatnaði þá verður að gæta þess að stundum veita flíkurnar falska öryggiskennd. Fólk pakkar buxum og jökkum sem virðast „útivistarlegir“ en halda síðan ekki vatni þegar rignir. Reynsla mín er sú að GoreTex jakkinn og buxurnar skipta öllu máli en vindjakka og flíspeysu má alvega skipta út fyrir eitthvað skemmtilegra.

Ég hef sjálfur leitað að mínum fjallakjól, ég gekk Fjörður í Indverskum karlmannsserk, einskonar karlmannskjóll, hann reyndist ágætlega en nokkuð kaldur, bestu göngubuxurnar hafa verið Knickerbocker ullarbuxur frá Kormáki og Skildi, fór á þeim Hornstrandir bæði að sumri og vetri.

Nú hefur komið í ljós að flísin er ekki aðeins ljót, heldur spillir hún náttúrunni með plastögnum við hvern þvott. Það væri því ekki úr vegi að hönnuðir færi að skila okkur því besta úr báðum heimum, GoreTex skelin bjargar mannslífum en fyrir þá sem eiga stefnumót við móður jörð þá eru fjallakjólar það sem koma skal.