Vegna þess að það er þarna. Í svari George Mallory við spurningu New York Times árið 1923 er hið raunverulega svar falið: það þarf ekki að vera nein ástæða önnur en sú að það veitir sumu fólki ánægju að klífa fjöll. Og á sumum fjöllum fæst sú ánægjuuppskera ekki fyrr en eftir að af fjallinu er komið. Á sumum fjöllum er dvölin allt annað en ánægjuleg. Fólk sem hefur ástríðu fyrir fjöllum ákveður svo hvert fyrir sig hvað megi teljast ásættanleg áhætta.  Annar frægur fjallamaður Walter Bonatti sagði þetta: fjöll hafa reglur, þær eru strangar en þær eru til, og ef þú fylgir þeim þá ertu öruggur. Fjall er ekki eins og maður. Fjall er einlægt. Vopnin til að sigra það eru innra með þér, í sálu þinni. 

K2 er næsthæsta fjall heims.

John Snorri Sigurjónsson varð fyrsti Íslendingurinn til að klífa K2 sem nefnt hefur verið Grimma fjallið. Þegar við tókum hann tali í aðdraganda verkefnisins, fyrir 1.tbl Úti sumarið 2017, hafði hann um nokkurra mánaða skeið safnað vopnum sálar sinnar og undirbúið sig fyrir þær afar ströngu reglur sem gilda á stóra fjallinu í Karakorum dalnum í Pakistan.

John Snorri er að eign sögn einfaldur sveitastrákur sem ólst upp á Ingólfshvoli í Ölfusnum og sótti til holta og heiða. Eitt leiddi af öðru. Elbrus í Kákasus fjöllum árið 2016. Svo K2. Sagt er að einn af hverjum fjórum sem reyni við það deyi. Spurt er, hvers vegna að reyna þetta?

„Mig hefur dreymt um að fara uppá þetta fjall. Það er hættulegast og erfiðast að glíma við. Ég vil erfiða áskorun. Ég vil finna mín takmörk.”

„Hún sagði hann hafa skollið mörgum sinnum í klettana á leiðinni niður. Það hefði verið hryllileg sjón.“

Fjallganga á svona há fjöll er lífshættuleg og sú hætta varð enn raunverulegri nokkru áður en John Snorri lagði í sína atlögu, þegar einn frægasti fjallamaður heims, goðsögnin Ueli Steck, hrapaði til bana á Everest.  Þeir John Snorri kynntust í grunnbúðum Everest þar sem þeir undirbjuggu sig fyrir klifur á Lhotse. Þeir voru á sama tíma á Khumbu skriðjöklinum sem allir fara um sem fara úr grunnbúðum Everest í búðir númer tvö.

John Snorri í tjaldbúðum.

„Við vorum búnir að spjalla tvisvar saman og mætast nokkrum sinnum. Við vorum báðir i öðrum búðum. Daginn áður en hann dó hitti ég tökumanninn hans og hann benti mér á hann og franskan klifrara í ísbreiðunni fyrir ofan búðir númer 2. Þeir voru að kortleggja leiðina upp Nupse.“

John Snorri var ekki langt frá slysstaðnum. Hafði rétt yfirgefið búðir 2 á leið upp í næstu búðir þegar hann heyrði þyrlu koma inn í búðirnar fyrir aftan sig.

„Um 10 mínútum síðar rennur hann og fer fram af rúmlega kílómetra háu klettabelti. Ég hitti norska stelpu sem sá sjálft fallið. Hún sagði hann hafa skollið mörgum sinnum í klettana á leiðinni niður. Það hefði verið hryllileg sjón. Hann var einlæg og ljúf persóna með góða nærveru. Mér finnst sorglegt að einn mesti alpinistinn er farinn.  Ég hugsa í kjölfarið að hversu lítil sem mistökin eru hér, geta þau verið banvæn þegar komið er í þessar aðstæður.“

„Ótti minn er að á einu augnabliki hrifsi fjallið hann til sín og líf mitt og hans nánustu breytist að eilífu.“

Það er mikið í húfi fyrir John og hann veit að hans fyrsta skylda er að koma lifandi úr þessum leiðangri. Hann viðurkennir að þetta er það sem hann óttast mest: Náttúruhamfarir og að eiga ekki afturkvæmt. Hann og konan hans, Lína Móey Bjarnadóttir, eiga samanlagt 6 börn. Það yngsta fæddist rétt eftir að John lauk sínum leiðangri farsællega. Við spurðum Líney á meðan á þessu stóð: Hvernig er að vera makinn sem bíður heima? Hún sagðist eiga misgóða daga. Hún talar ekki undir rós:

Lína Móey og Baltasar Eir.

„Ótti minn er að á einu augnabliki hrifsi fjallið hann til sín og líf mitt og hans nánustu breytist að eilífu.“

Hún segir hann verða að vera tilbúinn að taka erfiðar ákvarðanir ef hann lendir í erfiðum aðstæðum og muna að þeir sem hann ferðast með eru þar á eigin ábyrgð þrátt fyrir vinabönd sem myndast á fjallinu.

„Hans bíður heill fjársjóður af börnum og fjölskyldu heima. Við höldum áfram að skipuleggja lífið okkar saman. Ég hugsa ferðina hans til enda og sé mig taka á móti honum í lok ferðar í huganum.“

Þau tala bæði um mikilvægi þess að undirbúa sig andlega fyrir förina.

„Hann er viljasterkur. Annars væri hann ekki að takast á við þessa ferð. Hann tók þessa ákvörðun sjálfur án þess að ég reyndi að hafa áhrif á hann. Hann þarf að reyna á sín mörk. Ég þekki hann og veit hver hann er og ætla ekki að reyna breyta honum. Ég veit að þessi ferð kemur til með að þroska hann og hjálpa honum að meta betur þau kraftaverk sem eru í kringum hann fyrir.“

Hún segir að leiðangurinn hafi þegar breytt honum. Hann búi yfir meiri auðmýkt. Gagnvart þessu verkefni og lífinu almennt.

Hún viðurkennir að hafa gjarnan viljað taka meiri þátt í ferðinni. En staðan leyfi það ekki. Dagarnir séu misbjartir.

„Auðvitað á ég erfiða daga á móti björtum dögum eftir að John fór, en að sama skapi hef ég nóg að gera þannig tíminn líður hratt.“

Aðspurður segir John undirbúninginn aðallega hafa falist í því að komast í eins gott form og mögulegt er án þess þó að safna vöðvamassa. Hann segist vera að reyna sig í mikilli hæð og finna hvernig hann virki.

„Hugleiðsla er mikilvæg. Hugsun og andlegt jafnvægi þarf að vera gott.“

Þetta er mikill leiðangur, að klífa K2. John Snorri hélt til Nepal á vordögum og gekk þar á Island Peak sem er 6189 metrar en Vilborg Arna hefur einmitt farið þangað með Íslendinga í tvær hópferðir. Í framhaldinu kleif hann Lhotse sem er 8516 metrar og varð fyrstur Íslendinga á þann tind. Lhotse er næsta fjall við Everest og framan af er sama leiðin farin. Í þriðju búðum er farið til hægri á Lhotse en til vinstri á Everest.

Ferðin í grunnbúðir K2 er ævintýri eitt og sér. Flogið er frá Islamabad til Skardu á Gilgit-Baltistan svæðinu. Þaðan tekur við tveggja daga ferðalag á jeppum og vörubílum til þorpsins Askole sem er í 3.300 metra hæð. Þar enda allir vegir. Þá hefst 8 daga ganga á lengsta skriðjökli heims, Baltoro, sem er 65 kílómeta langur. Hópur Sherpa hjálpar við að bera mest allan farangur upp að grunnbúðum.

Aðstaðan í grunnbúðunum er frekar hráslagaleg og ekkert lík útilegum á Íslandi. „Hreinlætisaðstaða er bágborin, aðbúnaður er hrár og einfaldur og tekur þetta á í öllum samskiptum ferðalanga og fólks á staðnum. En á móti getur samvera í mjög alþjóðlegu samfélagi sem safnast saman í grunnbúðum verið lifandi, örvandi og oft á tíðum uppátækjasöm.“

„Þegar komið er í það sem kallað hefur verið dauðabeltið í 8000 metrum byrjar líkaminn raunverulega að deyja. Þetta er andlegt og líkamlegt helvíti.“

Eftir aðlögun og undirbúning í tæpa viku er gengið á fjallið. Fyrstu ferðirnar eru undirbúnings- og könnunarferðir til að skoða leiðir, flytja vistir og birgðir.

Klifur á K2 er á landamærum lífs og dauða.

„Búnaður og línur verða að vera í lagi til að komast áleiðis í eins miklu öryggi og hægt er. Því eru farnar stöðugar ferðir upp og niður fjallið í undirbúningsferðum til að allt sé klárt fyrir lokaáfangann á toppinn. Hæðaraðlögunin sem verður í þessum flutningum og undirbúningi öllum er gríðarlega mikilvæg. Súrefnisinntak göngumanna minnkar um 9,9% í 6000 metrum og svo meira og meira því ofar sem er farið. Allar hreyfingar verða mun erfiðari og lýjandi við hvert fótatak. Hausverkur er algengur og almenn vanlíðan daglegt brauð. Þetta eru ekki aðstæður né staður sem menn fara í frí eða slaka á sér til skemmtunar eða dægrastyttingar. Þegar komið er í það sem kallað hefur verið dauðabeltið í 8000 metrum byrjar líkaminn raunverulega að deyja. Þetta er andlegt og líkamlegt helvíti sem lagt er á sig fyrir þá einstöku upplifun að standa á tindi hættulegasta fjalls í heimi. Svona leiðangur getur farið upp í 80 daga og oft þarf að bíða af sér veður og fá réttu skilyrðin til að ná á toppinn.“

Þetta kostar sitt. Undirbúningur svona leiðangurs er út af fyrir sig risastórt fjall að klífa. John Snorri var styrktur af Netheimum og Cintamani til fararinnar. Hann safnaði áheitum sem runnu til Líf Styrktarsamtaka sem hann segist eiga samleið með enda séu þau miklir bakhjarlar Kvennadeildar Landspítalans og séu búin að gera frábæra hluti. Báðir foreldrar Johns létust úr úr krabbameini. Pabbi hans um jólin 2016 og móðir hans árið 2003, aðeins 56 ára gömul. Andlát föður hans varð til þess að hann ákvað að láta slag standa um sumarið strax í kjölfarið. Klífa fjallið. Elta drauminn. Lífa lífinu. Og koma lifandi heim.

Sem honum tókst. John Snorri komst á topp K2 28.júlí 2017, eftir 18 klukkustunda uppgöngu.

Lífshlaup Johns Snorra Sigurjónssonar var þá á hlutlausu svæði milli andláts föður og fæðingu barns. Innlit okkar í líf hans og Línu Móeyar Bjarnadóttur, konu hans, og hreinskilin svör þeirra sýndu okkur óvenjulegt fólk í glímu við innri ótta sem við þekkjum öll. Hvort sem við klífum fjöll eða ekki. Óttinn við dauðann og að missa nákomna með óvæntum hætti er eitthvað sem fylgir öllum. En fæst okkar kjósa að stíga með jafn ákveðnum hætti, í fjallaskóm og ísbroddum, inná landamæri lífs og dauða.