Hlaup er auðvitað í augum margra fullkomlega merkingarlaus iðja, hvað þá að keppa í hlaupi, og það jafnvel maraþonhlaupi eða ultra-maraþonhlaupi. Hvað er málið? Hér eru þrjár góðar bækur sem svara þeirri djúpu spurningu á listilegan hátt.

What I talk about when I talk about running – Haruki Murakami

Haruki Murakami útskýrir hér á sinn einstaka máta hvernig hlaup og ritstörf tengjast í hans huga. Hann hefur tekið þátt í ótal maraþonum. Hér greinir hann frá undirbúningi sínum fyrir New York maraþonið og fléttar frásögnina við endurminningar sínar, pælingar um það sem gefur lífinu gildi og hvernig hann gerðist rithöfundur. Og hlaupari.

The Runner´s Guide to the Meaning of Life – Amby Burfoot.

Sumir telja þetta bestu bók sem hefur verið skrifuð um hlaup. Bókin fjallar um lífið sjálf. Burfoot rekur þá lærdóma sem hann hefur dregið af hlaupum sínum og hvaða merkingu það hefur að sigra. Sigurvegari er ekki sá sem kemur fyrstur yfir línuna, heldur sá sem lærir mest af raunum sínum, tekur mestum framförum og uppgötvar nýja hluti um sjálfan sig.

Born to Run – Christopher McDougall 

Ef þú heldur að þú getir alls ekki hlaupið, og munir aldrei geta, þá er þetta rétta bókin fyrir þig. Verðlaunablaðamaðurinn og hlauparinn Cristopher McDougall rekur það með einstaklega áhrifamiklum hætti hvernig mannskepnan er gerð til að hlaupa. Manneskjan er hið hlaupandi dýr. Þannig lifði mannskepnan af, flúði hættur og leitaði nýrra heimkynna: Á hlaupum.